08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

68. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Það hefir farið nokkuð öðru vísi en jeg bjóst við, að hv. mentamálanefnd skuli nú vera á móti brtt. okkar á þskj. 208. Sjerstaklega kemur þetta kynlega fyrir sjónir, þar sem fræðslumálastjórnin hefir að dómi háttv. frsm. (Þorst. J.) einmitt framkvæmt fræðslulögin á þessum grundvelli, þar sem hún hefir leyft annars dags skóla og látið þá njóta fullra rjettinda, þótt hvert barn fái ekki í raun og veru nema 12 vikna kenslu á ári. Nú vill nefndin lögleyfa 12 vikna kenslu handa hverju barni í heimavistarskólum í sveitum, en brtt. fer fram á, að það nái líka til heimangönguskóla. Og hver er þá munurinn? Sem stendur eru engir heimavistarskólar til, en aftur á móti mjög margir heimangönguskólar. Og hví mundi fræðslumálastjórnin hafa veitt undanþágu áður? Ætli það sje ekki vegna þess, að hún eins og fleiri álíti þetta hollara en að pressa börnin til að sækja skólann á hverjum degi í 6 mánuði. Þá skoðun hafa talsvert margir, og þar á meðal einn mikilsmetinn læknir, látið uppi. Og ekki má alveg gleyma að gefa gaum að heilbrigði barnanna.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) taldi þetta mjög mikla rýmkun frá því, sem nú er, ef skólaskyldan væri færð niður í tvö ár. En hann má ekki gleyma því, að fræðsluskyldan er ekki afnumin fyrir því, því að undanþágan fæst ekki, nema sjeð sje fyrir fræðslunni á annan hátt svo að fullnægjandi sje. Og einn kostur er við þetta. Það er haldið meira í heimafræðsluna, en hún er af flestum talin hollari, og í rauninni líftaug og undirstaða allrar sannrar mentunar og menningar.

Sami hv. þm. (J. Þ.) talaði um, að farskólar mundu breytast í heimangönguskóla, og óx honum í augum sá kostnaður, sem af því mundi fljóta fyrir ríkið. Jeg er nú ekki eins hræddur við þetta. Það mundi kosta stóraukin fjárútlát fyrir hjeruðin, en nú eru margar sveitir svo illa settar, að þær geta ekki haldið kenslu uppi eins og tilskilið er, og fara því algerlega á mis við styrk úr ríkissjóði. En þótt svo færi, að eitthvað bæri á þessu, þá er ekki nema sjálfsagt, að sveitirnar njóti nokkuð meira jafnrjettis við kauptúnin og kaupstaðina en nú á sjer stað.

Síðastliðið skólaár fór til barnafræðslu úr ríkissjóði full ½ miljón, en af þessu fje hefir sáralítið farið í sveitirnar.

Í fjárlagafrv. fyrir 1923 eru ætlaðar 350 þús. kr. í laun kennara, en aðeins 5000 kr. til þeirra sveita, sem ekki geta haft nema eftirlitsfræðslu.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi þau rök ljettvæg, sem jeg hafði fært gegn till. hans. En jeg get ekki fallist á, að það sjeu ljettvæg rök, þó haldið sje fram, að prestar eigi að gera skyldu sína. Annars er ekki af þeim krafist í frv. Þar er aðeins farið fram á, að þeir inni þau störf að hendi, sem þeir eru skyldir til að lögum.