22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1923

Sveinn Ólafsson:

Jeg áleit ekki ástæðu til þess að tala um 1. kafla fjárlaganna og vildi geyma þær athugasemdir, sem jeg hafði þar að gera, til þessa þáttar. Jeg hjó eftir því í ræðu háttv. frsm. (B.J.) að hann taldi skuldir okkar um 16 milj. kr., auk samningsbundinna skulda; en jeg held að þessi upphæð sje heldur of lág, þó að ekki fari hún fjarri lagi. Jeg býst við, að skuldirnar sjeu nær 17 en 16 milj. kr.

Annað sagði háttv. frsm. (B.J.), sem þarf skýringar við, og það er um það, hve mikið við höfum minkað skuldir okkar á árinu sem leið. Hann taldi það 12 milj. kr. Þetta er rjett, svo langt sem það nær; en hjer við er að athuga, að á þessum tíma hefir enska lánið verið tekið og það hefir gengið til greiðslu gömlu skuldanna að nokkru leyti. Það er því ekki alls kostar rjett að segja, að við höfum minkað skuldirnar um 12 milj. kr., heldur á að draga frá þeirri upphæð það sem gekk af enska láninu til greiðslu þessara skulda.

Þetta vildi jeg benda á vegna þess að það kemur mjög við meðferð á síðari greinum fjárlaganna.

Þá vil jeg taka undir það með hæstv. fjármálaráðherra (Magn.J.) að ekki er rjett að reikna erlendar skuldir okkar með gengi danskrar krónu, því að íslenska krónan er lægri, og skuldirnar því meiri, sem nemur gengismun, og skuldir í dönskum krónum eru í reyndinni nær þriðjungi hærri, þegar þeim er breytt í íslenskar kr. Þetta mun jeg láta nægja um 1. kaflann og víkja mjer því næst að þeim kafla, sem fyrir liggur.

Jeg vil ekki deila á háttv. fjárveitinganefnd. Það hefir sjaldan reynst vinsælt undanfarið eða árangursmikið. Jeg skal kannast við það, að hún hefir sýnt lofsverða viðleitni á að spara. Vitanlega hafa henni verið mislagðar hendur, og get jeg ekki alstaðar fallist á sparnaðartilraunir hennar, og því síður get jeg yfirleitt fallist á þær till. hennar, sem miða að því að auka útgjöldin. Jeg vil benda á það að nefndinni hefir tekist slysalega við 12. gr. 5 a., þar sem hún leggur til, að styrkur til augnlæknis verði færður niður í 1500 kr. og ferðastyrkurinn feldur niður með öllu.

Sparsemi í þessu efni kemur niður á versta stað. Þessi styrkur má ekki skoðast sem neinn bitlingur til einstaks manns, heldur er hann veittur til sjúklinga. Fjöldi manna, sem þarfnast þessara lækninga, er ekki svo efnum búinn, að hann hafi ráð á því að leita hingað til Reykjavíkur, og verður því að sæta lagi þegar augnlæknirinn ferðast um landið. Þetta er líka óspart gert, og þessi eina ferð á ári hefir enganveginn reynst nægileg. Jeg get bent á það, að augnlæknirinn dvaldi á Seyðisfirði hluta úr degi næstliðið sumar, og sótti þar til hans fjöldi sjúklinga. en aðeins 2 eða 3 höfðu tækifæri til þess að ná tali af honum. Fleiri dæmi mætti nefna. en jeg hirði ekki um það hjer. Jeg vona að háttv. þm. kannist við þessa þörf og aðhyllist þess vegna ekki þessa till. nefndarinnar um að fella niður styrkinn.

Um aðra liði skal jeg vera fáorður. Jeg skal geta þess viðvíkjandi símum og vegum að jeg er þeim mönnum sammála, sem telja nauðsynlegra að halda í vegina, en vegna þess, hvernig fjárhag landsins er háttað, mun jeg greiða atkvæði með niðurfellingu hvorratveggja þessara liða.

Jeg mun ekki að þessu sinni tefja tímann með umræðum. Jeg reyni þá heldur að sýna það með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á einstakar till. Þó vil jeg geta þess viðvíkjandi till. um að færa niður laun sendiherrans, að þótt jeg hafi verið mótfallinn stofnun þess embættis og álíti enn, að án þess mætti vera, þá sje jeg mjer ekki fært nú að stuðla að því að sendiherrann verði kvaddur heim en það verður að gera ef till. þessi verður samþykt og væri það fremur leiðinlegur vottur um stefnuleysi þingsins, að fella embættið niður einu ári eftir að það var stofnað.