11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

68. mál, fræðsla barna

Lárus Helgason:

Þar sem jeg lít svo á, að ef frv. þetta, með þeim brtt., sem fram eru komnar, nær fram að ganga, þá sje það spor í rjetta átt til að bæta núgildandi lög um fræðslu barna, þá vil jeg leyfa mjer að fara um það fáum orðum.

Eins og tekið er fram í ástæðunum við þetta frv., gerir það fræðslufyrirkomulagið rýmra í sveitum en það er nú og það skapar meira jafnrjetti milli landsmanna. Hingað til hefir styrkur til sveitarfjelaganna af opinberu fje til barnafræðslu verið næsta lítill, þó kenslan hafi þar á ýmsum stöðum verið starfrækt svo vel, að árangurinn af henni hefir orðið fullkomlega eins góður og þar, sem meira hefir verið til kostað, t. d. í kaupstöðunum. Stafar það af því, að í sveitunum eru oftast nær margfalt færri börn undir hendi kennaranna á sama tíma, og eiga þeir þar af leiðandi miklu hægra með að segja börnunum til við hverja einstaka námsgrein.

Af þessum ástæðum ætti börnum til sveita að nægja skólanámstími sá, sem 1. gr. frv. heimilar, ef heimafræðsla barnanna er í sæmilegu lagi, sem að sjálfsögðu — ef með þarf — á að vera stutt af prestum og fræðslunefndum, eins og 3. gr. frv. fyrirskipar. Með þessu móti er allmikið ýtt undir með því, að heimafræðsla fari fram í þeim námsgreinum, sem heimilin geta kent, svo sem lestri, skrift og reikningi.

Eftir 12 ára aldur virðist mjög æskilegt, að sem flest börn geti átt kost á að njóta tilsagnar hjá góðum kennara í þeim námsgreinum, sem heimilin alment geta ekki látið í tje, þó ekki sje meira en í 12 vikur í 2 ár, eða 13. og 14. árið. Kennarinn gæti þá kent í tveim fræðsluhjeruðum sama árið, og með því móti mundu strjálbygðu hjeruðin fremur eiga kost á að geta aflað sjer góðra kennara.

Eins og brtt. á þskj. 208 ber með sjer, heimilar hún, að heimangönguskólar verði tiltölulega jafnrjettháir og heimavistarskólar, og virðist mjer það í alla staði sanngjarnt.

Við þessa brtt. hefi jeg leyft mjer að koma með litla brtt. á þskj. 230, og er hún komin fram í þeim tilgangi, að samkomulag get orðið um, að frv. með framkomnum brtt. nái fram að ganga hjer í háttv. deild. Hún kemur sem sje í veg fyrir, að rýmkun þessi, sem aðallega er stytting skólaskyldunnar, nái til kaupstaða landsins, þó jeg að vísu telji það rjettmætt, að í þessu efni gildi alveg hið sama um land alt. En brtt. mín kemur þó ekki í veg fyrir, að þeir kaupstaðabúar, sem kynnu að vilja það, gætu losnað við að láta börn sín ganga í skóla innan 12 ára aldurs, og þyrftu þeir þá heldur ekki að láta börnin ganga meira en 12 vikur í skóla hvert ár, þrettánda og fjórtánda árið, ef trygt væri, að þau fengju lögskipaða fræðslu. En á þetta legg jeg enga áherslu, því líklegt er, að flestir, sem eiga svo hægt með að nota barnaskólana sem þeir, er búa í kaupstöðum landsins, noti þá eftir föngum.

Þá skal jeg aðeins víkja örfáum orðum að brtt. á þskj. 197. Virðist mjer hún sanngjörn og get jeg vel felt mig við, að öllum prófdómendum sje borgað af opinberu fje, og þá einnig prestunum. Hefir svo verið hingað til, og upphæðin mun heldur ekki nema því, að um hana sje vert að deila. Get jeg því gjarna aðhylst þá brtt.

Jeg vona, að háttv. deild láti frv. þetta ganga greiðlega í gegn, og skal svo ekki segja meira að sinni.