11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

68. mál, fræðsla barna

Jón Þorláksson:

Jeg hafði við fyrri hluta þessarar umr. vonast eftir, að það gæti orðið samkomulag milli mín og háttv. flm. brtt. á þskj. 230 um breytingu, er færi í þessa átt. En háttv. flm. hefir ekki viljað orða till. þannig, að jeg geti fallist á hana.

Jeg benti á það í fyrri ræðu minni um þetta mál, hvílík gerbreyting á skólaskyldunni felst í brtt. á þskj. 208, þar sem skólaskyldutíminn er á ári styttur úr 24 vikum niður í 12 vikur og í stað 4 ára á aðeins að vera 2 ár.

Jeg gat þess, að jeg gæti máske felt mig við, að þetta nýmæli yrði innleitt í sveitum landsins, í því trausti, að þar væri fræðslunefndunum kleift að sjá um, að börnin öðluðust nægilega fræðslu á annan hátt, þó skólahald væri ekki meira en þetta. En jeg tók jafnframt skýrt fram, að það gæti ekki náð nokkurri átt, að þetta fyrirkomulag yrði innleitt í kaupstöðum og sjávarþorpum landsins, því það er vitanlegt, að allur þorri barna þar fær enga aðra fræðslu en þá, sem fæst í skólunum.

Háttv. þm. V.-Sk. (L. H.) fer fram á að núverandi fyrirkomulag haldist óbreytt í kaupstöðunum, og er það rjett, en þeir eru aðeins 7 á öllu landinu, og verða þannig öll önnur sjávarþorp útundan. Í þeim á þá skólaskyldan að minka um ¾ hluta.

Þetta mál snertir að vísu ekki mitt kjördæmi, en jeg álít, að hjer sje um svo mikinn hnekki að ræða fyrir fræðslu alls þorra barna í sjóplássum landsins, að jeg tel hið mesta óráð að samþykkja það, jafnvel með brtt. á þskj. 230. Get jeg vísað til fyrri ummæla minna um hverjar afleiðingarnar yrðu í fjölmennum sjávarþorpum. Mest er hættan á, að heimildin yrði notuð í fátækum sjóþorpum, þar sem ekki væri hægt að afla börnunum fræðslu á annan hátt, og því yrði engin bót að brtt. 230, af því að hún nær ekki lengra.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, að eftir núgildandi lögum væri misrjetti milli sveitanna og kaupstaðanna hvað snertir fjárveitingar til barnafræðslu. En með þessu frv. er alls ekki bætt úr því misrjetti, sem nú kann að vera. Það má gera ráð fyrir, að mörg sveitahjeruð noti heimildina til þess að hafa enga skóla hjá sjer, hvorki heimangönguskóla eða heimavistarskóla, heldur notast við heimafræðslu með eftirliti, en með því móti njóta þau ekki styrks úr landssjóði eftir kenslulögunum, heldur eingöngu þess styrks, sem veittur er í fjárlögunum í því skyni. Ef um misrjetti er að ræða, er hægurinn hjá að lagfæra það með því að hækka hlutaðeigandi upphæð í fjárlögunum og lækka hina, til skóla og barnakennara.

Þá sagði háttv. þm. Borgf., að fræðsluskyldunni væri ekki breytt með brtt. sinni. Það er að vísu svo á pappírnum, en í reyndinni verða sjóþorpin laus við skólaskyldu með þessu fyrirkomulagi.

Allar röksemdir, sem fram hafa komið, eru eingöngu miðaðar við sveitirnar, svo sem er hv. þm. Borgf. talaði um að halda í hin hollu áhrif heimafræðslunnar. — Það er rjett hvað sveitirnar snertir, en nær ekki til kauptúna eða sjávarþorpa.

Jeg hafði getið þess hjer við fyrri hluta þessarar umræðu, að þessi brtt. valdi því, að nokkrir farskólar, sem nú eru, yrðu fastir heimangönguskólar, og að framlag ríkissjóðs til kennaralauna og dýrtíðaruppbótar mundi þá vaxa eigi alllítið, þar sem launin hækkuðu úr 300 kr. upp í 1600 kr. í þessum stöðum. Þá var það fært til andsvara, að þetta væri svo kostnaðarsamt fyrir hjeruðin, að þau mundu óvíða geta sætt því. Ekki þarf þetta svo að vera. Sveitin er skyldug að veita farkennara ókeypis fæði og húsnæði yfir veturinn, en ekki kennara við heimangönguskóla. Sveitin þarf því ekki annað en selja kennaranum vetrarfæði á 650 kr.; þá borgar hún nákvæmlega sama og áður. En kennarinn fær talsvert miklu meira, alla viðbótina úr ríkissjóði eða ca. 2100 kr. með núverandi verðstuðulsuppbót, og mundi hann því verða fús til slíkra skifta.