11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

68. mál, fræðsla barna

Jón Þorláksson:

Háttv. frsm. (Þorst. J.) tók fram nokkuð af því, sem jeg vildi segja um þessa 12 vikna kenslu. Mjer þykir það næsta ótrúlegt, að nokkur skilji það svo, sem um sje að ræða 24 vikna kenslu annan hvern dag. (P. O.: Það er nú samt tilgangur okkar flutningsmannanna).

Þá vil jeg leyfa mjer að benda á það ósamræmi, að vilja lögfesta ákvæði, sem hvetur menn til að koma upp heimangönguskólum í sveitum, og vera þó að tala um að halda sem mest í heimafræðsluna.

Loks vil jeg enn benda á, að allir farskólar geta komist undir þetta, þar sem húsnæði og hollustuhættir aðrir eru svo, að yfirstjórn fræðslumála samþykki. Og kröfur til þess mundu verða alveg þær sömu, hvort það hjeti 12 vikna farskóli eða 12 vikna heimangönguskóli. En auk þess felst og í þessum brtt. mikil freisting fyrir þorp og kauptún til að draga úr kenslu og spara þannig útgjöld til barnafræðslu.