22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1923

Stefán Stefánsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 131, sem fer fram á það, að við 2. lið í 13. gr. C. verði sett athugasemd. er áskilji, að af þeim 100000 kr., sem þar eru ætlaðar til bátaferða á flóum, fjörðum og vötnum veitist 1000 kr. til mótorbátsferða til Grímseyjar. Hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl.J.) hefir tekið vel í þessa brtt., hvað ferðirnar snertir og jeg er honum þakklátur fyrir það, en hitt að telja till. eiginlega óþarfa felst jeg ekki á; dæmi þar eftir reynslunni. Saga málsins er sú að jeg fjekk 1000 kr. styrk inn í fjáraukalög fyrir árið 1921 og fyrir hann fengu Grímseyingar 4–5 bátaferðir á síðastliðnu ári. Svo bjóst jeg við, að samgöngumálanefnd mundi leggja til, að þessar ferðir hjeldust eins nú í ár en það hefir brugðist algerlega, og því hefir farið svo að erfitt hefir reynst að fá þessu nú haldið uppi og hefðu þær fallið niður í sumar ef stjórnin hefði ekki brugðist vel við óskum mínum í því falli. En til þess að eiga framvegis ekkert á hættu með að fje fáist til ferðanna, þá flyt jeg þessa athugasemd.

Það verður að álítast bein skylda ríkisins að sjá um einhverjar samgöngur við öll hjeruð landsins en þessi eyja, sem liggur úti í íshafi hefir verið mjög afskift að þessu leyti. Þarna er þó eitt hreppsfjelag og um 100 manns sem hlýtur að gera þær kröfur, að það njóti allrar sanngirni og fullkomins jafnrjettis hvað samgöngur snertir.