21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Nefndarálitið, sem fylgir þessu máli, hefir eigi tekið langan tíma til yfirlestrar. Þar segir, að nefndin geti eftir atvikum fallist á frv. Jeg segi eftir atvikum og legg áherslu á það orð. Tíminn hefir verið mjög naumur og gat nefndin því eigi borið sig saman við fræðslumálastjóra, eins og sjálfsagt var. Nefndinni var þegar ljóst, að ýmislegt er í frv., sem miðar að því að draga úr kostnaðinum við barnafræðsluna utan kaupstaðanna, og enn fremur, að í því eru ýms nýmæli til bóta. Á jeg þar sjerstaklega við 3. grein, um það, að prestastjettin hafi eftirlit með fræðslunni. Er og með frv. stigið stórt spor til þess að bæta og auka heimafræðslu. Er prestunum ætlað að ljetta þar undir, og er það vel farið. Verður það þá til þess að auka samstarf presta og safnaða, og er síst vanþörf á því. Er nú víðast hvar búið að leggja niður húsvitjanir, og sjást því prestarnir sjaldan nema í kirkjunni.

Sama er að segja um 2. gr., að þar er prestunum bætt við til tryggingar. í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að börn frá 12–14 ára aldri njóti heimafræðslu þar, sem hún er álitin fullnægjandi.

Mentamálin hafa mjög tafið fyrir háttv. Nd., enda eru þau að mínu viti eitt af stórmálum þjóðarinnar, og þá ekki hvað síst barnafræðslan.

Nefndinni þótti mjög bagalegt að geta eigi ráðfært sig við kennara og fræðslumálastjóra, en leggur þó til, að frv. verði samþykt í háttv. deild.