21.04.1922
Efri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) skaut því til nefndarinnar, að hann vildi helst, að málið væri tekið út af dagskrá. En nefndin getur ekki mælt með því, en lítur svo á, að hæstv. forsrh. (S. E.) geti komið með brtt. við frumvarpið til 3. umræðu.

Hinsvegar getur hæstv. forseti (G. B.) borið þetta undir úrskurð deildarinnar.

Þá voru nokkur atriði í ræðu hæstv. forsrh. (S. E.), sem jeg get ekki fallist á. Hann vildi halda því fram, að kröfurnar til skólagöngu minkuðu mjög mikið, en kröfurnar til þekkingar barnanna minkuðu ekki.

Þetta er fyrirkomulagsatriði, sem altaf er hægt að deila um, hvort leitt geti til hins sama árangurs. En jeg lít svo á, að flest heimili til sveita sjeu fær um að veita þá fræðslu, sem þarf til 12 ára aldurs. Enda er sú undanþága heimiluð í núgildandi lögum, til þess að börn geti komist af með styttri skólatíma en ákveðið er til þess að ljúka fullnaðarprófi.

Að hugsað verði meira um að spara en rækja fræðsluskylduna, held jeg að sje of hart að orði komist. Og hygg jeg, að sú skoðun hæstv. forsætisráðherra stafi af því, að hann sje ekki eins vel kunnugur úti um land og jeg. Að vísu vilja menn spara, en sjaldnast á þekkingarkostnað barna sinna. Og jeg vil fullyrða, að allir foreldrar vilja að börn sín njóti þeirrar þekkingar, sem þau geta fengið besta. Fyrir því er engin hætta á að óttast, að sparnaðinum verði svo mjög beitt á þessu sviði. Jeg dæmi þetta auðvitað eftir þeirri bestu þekkingu, sem jeg hefi á þessum málum, og það gerir auðvitað hæstv. forsætisráðherra líka, en stendur þar lakar að vígi, að mínu áliti.

En gagnvart því að taka málið út af dagskrá, þá get jeg endurtekið það, að nefndin sjer enga ástæðu til þess, því að hæstv. forsrh. (S. E.) getur komið með brtt. til 3. umr., og á þeim tíma leitað frekara álits fræðslumálastjóra, og hæstv. forseti þarf eigi að taka málið á dagskrá aftur fyr en þetta er komið í kring.