23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg var svo óheppinn, að jeg komst ekki að í gærkveldi til þess að svara athugasemdum, sem fram komu við fjárlögin. Mun því sumt ef til vill hafa fallið mjer úr minni í nótt.

Jeg verð að þakka undirtektir háttv. þm. fyrir hönd nefndarinnar. Þeir hafa tekið mjúkum höndum á till. hennar. En það skal jeg þegar játa, að jeg á ekki alt lofið skilið; mun jeg síðar kannast við mínar syndir, svo að jeg verði ekki lofaður um skör fram.

Fyrst vil jeg beina máli mínu til hæstv. atvrh. (Kl.J.) Hann vefengdi samanburð minn á gagnsemi símanna og veganna. Sagði hann að til væru óþarfir símar, en enginn vegarspotti væri óþarfur. Jeg skal nú ekki vefengja, að hugsast getur, að sími væri lagður þar, sem ekkert vit væri að leggja hann t. d. milli tveggja eyðikota en slíkt þarf ekki að óttast nú í þessu aldarfari og því sálarástandi, sem er hjá þessu sparnaðarþingi. En það held jeg, að varla dyljist nokkrum, að meira gagn sje að síma fyrir 38 þús. kr. en vegarspotta fyrir þá upphæð. Tökum sem dæmi verslun, sem er svo fjarri síma, að hún þarf 2 daga til ferðalaga í hann. Auk kostnaðar af sendiferðinni má vel vera, að hún verði af kjöt- eða ullarsölu sinni vegna þess, að hún veit ekki um tilboð, sem stendur aðeins einn dag eða tvo. Hvert getur tapið hjer orðið af símaleysinu? Hvernig getur slíkt tap orðið þó vegarspotti fyrir 38 þús. kr. sje ekki lagður?

Háttv. þm. Mýra. (P.Þ.) vildi ekki fallast á minn samanburð, en þar við er að athuga, að það eru til lög um síma, sem ákveða svo, að því, sem afgangs verður af rekstrarkostnaði og vaxtaborgun, skuli varið til þess að leggja 3. flokks síma. En þetta hefir ekki verið gert, og hafa lögin verið brotin með því. En jeg vil minna háttv. þm. Mýra. (P.Þ.) á það, að nálægt honum er sími, svokallaður Hjarðarfellssími, sem heyrir til 2. flokks síma og átti að vera lagður fyrir lán, en fje til hans hefir verið tekið frá 3. flokks símunum. Er búið að flytja staurana og á að leggja símann í sumar. En þetta er gagnstætt lögunum. Mætti nú taka þessa staura og flytja þá til Dalasýslu. Þyrði jeg vel að taka flutninginn að mjer þó að hann sje nokkuð örðugur. Jeg vil vekja athygli stjórnarinnar á því, að henni er bæði heimilt og skylt að leggja 3. flokks síma fyrir afgangsfje, enda þótt engin fjárveiting sje veitt til þess í fjárlögum, en nú vill svo til, að símarnir í Dalasýslu og Strandasýslu standa í fjárlögum, svo að stjórnin getur keypt alt, sem til símanna heyrir, þó að þeir verði ekki lagðir fyr en næsta ár. Skora jeg á stjórnina að kaupa inn staurana í haust. Hjeraðsbúar munu flytja þá í vetur. Hefir símum þessum verið lofað 5 sinnum, og fimmfalt loforð Alþingis ætti þó að vera einhvers virði.

Það er rjett hjá háttv. þm. Mýra. (P.Þ.) að staurar eru enn í nokkru hærra verði en þeir voru fyrir styrjöldina, en vír er kominn í sama verð. Legg jeg áherslu á, að afganginum af símatekjunum sje varið til að leggja 3. flokks síma, og ef það er ekki gert þegar, þá sje fjeð lagt í sjóð, uns heppilegt þykir að leggja þá. Hvort meiri sje atvinnumissir að því, að vegir sjeu lagðir niður en símar, er ekki gott að segja. en jeg tel enga þörf á að fella þetta niður, annað eða hvorttveggja.

Minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að auka fje til akfærra sýsluvega; þóttist gera vel að lofa upphæðinni í stj.frv. að standa óbreyttri en það gerði hann sökum þess, að hann bjóst við því að sýslufjelögin hefðu ætlað fje til þessa og vildi ekki hindra framkvæmdir þeirra í þá átt.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) hjelt að jeg hefði verið að gera að gamni mínu, þegar jeg sagði, að aðalhættan, sem nú vofði yfir, væri sú, að Íslendingar hefðu borgað skuldir sínar upp fyrir næstu áramót. En þetta er full alvara. Bygði jeg þetta á skýrslum manna, sem ekki eru nein líkindi til, að sjeu sjerstaklega velviljaðir oss og hafa enga hvöt til þess að fegra málstað vorn.

Í þessum 16–17 miljónum eru taldar skuldir, sem ekkert koma ríkissjóði við, heldur eru skuldir einstakra manna, og sumt af því eru gjaldþrota menn, sem hvorki borga þær skuldir sjálfir nje aðrir fyrir þá. Munu þessar skuldir einstakra manna nema 5–6 miljónum króna. En jeg er samþykkur háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) í því, að rjett geti verið að hjálpa til þess að greiða þessar 5 milj., svo að komið verði í veg fyrir gengisbrallið, sem örfáir menn í Danmörku hafa komið af stað að gamni sínu eða einhverjum öðrum hvötum. Það er líka rjett hjá honum, að engin ástæða sje til að óttast, að gengið verði ekki komið í lag fyrir næstu áramót. Mun enginn bera honum á brýn, að hann sje um of djarftækur í spádómum sínum um fjárhaginn. Er þetta því enginn flugfisksháttur hjá mjer, og stafar heldur ekki af því, að jeg sje bjartsýnni en aðrir menn, en jeg sje stundum lengra en þeir, sem fæddir eru blindir, en annað er það ekki.

Þá sagði háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.), að framleiðslan borgaði sig ekki. Þetta er nú nokkuð hæpin ályktun, þegar sýnt er, að landsmenn hafa borgað 12 miljónir kr. af skuldum sínum árið sem leið. Einhver sagði, að enska lánið hefði gengið til þess að nokkrum hluta, en það er tilfært í nýju skuldunum, svo að það haggar engu.

Það er rjett, að við vitum lítið um það, sem framundan er. Við vitum ekki nema að landið kunni að sökkva í sjó eða að öll eldfjöll gjósi eða að allir fiskar í sjónum farist á einni nóttu. En eigi að reikna hag landsins eftir þessu, þá má gera útlitið bágt. Og mönnum, sem svona hugsa, er líkt farið og þeim, sem haldnir eru af veiki þeirri, er efasýki er kölluð, og getur hún orðið svo mögnuð, að þeir þori ekki einusinni að opna munninn nje hreyfa sig úr sporunum, því þeim sýnist dúkurinn fyrir framan þá brennandi eldur og gólfið gínandi sjór.

En ef alt er talað út í loftið og öllum tölum neitað, þá má alveg eins gera ráð fyrir því góða sem hinu illa.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) sagði einnig, að till. um niðurfærsluna á launum til sendiherrans stafaði ekki af því, að hann væri óánægður með manninn; en þá liggur næst að hann taki till. aftur, því að vitanlegt er það, að hann getur ekki haldið starfinu áfram með þessum launum. Veit jeg að háttv. þm. muni eigi taka þessa till. alvarlega, enda færði háttv. flm. (Þór.J.) engin rök að henni önnur en þau, að ýmsar háværar raddir hefðu kallað sendiherrann „tildurherra“, „legáta“ o. s. frv., en merkilegt má heita, að ekki óskynsamari maður en þessi þm. er skuli festa nokkurn trúnað á jafnstaðlausu fleipri.

Þá sagði háttv. þm. (Þór.J.), að launin hefðu upphaflega verið sett þetta, og mundi ekki vera dýrara að lifa nú. Þetta er rjett. En launin voru of lág í byrjun, en maðurinn var þá efnaður og vildi leggja fram af sínu fje; en nú er hann kominn í þröng, vegna þess, að fyrirtæki, sem hann hafði lagt mikið fje í, er farið um, og þess vegna er þörf á því að hækka launin nú. Þá sagði þessi þingmaður einnig, að það væri of dýrt fyrir landið að láta sendiherra tolla í tískunni og láta hann lifa í þeirri eyðslu, sem hann óskaði. En jeg get sagt honum, að sendiherrann berst ekki mikið á og er engin eyðslumaður, og það er heldur ekki tíska nú, að sendiherrar eyði fje í óþarfa. Þetta fje fer einungis í nauðsynjar, og þarf meðal annars að vera svo mikið vegna þess, að landið hefir ekki lagt honum til neinn bústað, svo að hann hefir orðið að kaupa sjer hann og borga fyrir það margar þúsundir á ári. — Þá sagði hann að aðrar þjóðir hefðu sett sparnaðarnefndir og reyndu að spara á öllum sviðum, en það get jeg sagt honum, að allar sparnaðarnefndir erlendis hafa lagt til, að aukið væri fje til sendiherra og utanríkismálanna enda er það eðlilegt þar sem alt er á hverfanda hveli, og engin víðsýn þjóð vill eiga alt um verslun sína undir blindri hendingu, heldur vera eins vel viðbúin sem unt er að sjá verslun sinni borgið. Það er því öfugur sparnaður, ef seglin eru dregin inn í utanríkismálunum. Það er því beinlínis gróðafyrirtæki að leggja fje til sendiherrans og það þótt ekki sje tekið tillit til neins nema auranna.

Þá gat hann þess að annar maður mundi vel fallinn til þess að hafa starfa þennan. Skal jeg nota tækifærið til þess að taka það fram, að maður þessi, Jón Krabbe er einn af þeim bestu mönnum sem í þjónustu Íslands hafa verið. Og í minni „legáta“-tíð, svo jeg viðhafi þetta orð, var hann sá eini maður, sem jeg gat treyst, en það get jeg ekki ætlað honum að vinna bæði sitt verk og annara.........1)

Þessir háttv. þm. vilja alls ekki offra sínum kjördæmum. En mínu kjördæmi eru þeir fúsir til að offra og kjördæmi háttv. þm. Str. (M.P.) og kjördæmi hv. þm. Barð. (H.K.) þrátt fyrir það, þótt þessi kjördæmi hafi gömul og ítrekuð loforð þingsins fyrir símalagningu. En minni hl. nefndarinnar vill alls engum offra. Fari nú svo samt sem áður, að þær nauðsynlegu símalagningar verði feldar, þá sjáum við enga ástæðu til að láta þær ónauðsynlegu standa.

Það hefir nú þegar verið talað svo mikið um sambandsnefndina og laun hennar, að jeg er tilneyddur að tala, þótt jeg hinsvegar hefði helst kosið að losna við að taka þátt í þeim umræðum. Jeg verð þá að byrja með því að spyrja hvort hjer sje um að ræða samning eða ekki samning. Jeg spyr ekki af því, að jeg viti þetta ekki, heldur til þess að rifja upp þá atburði, sem sumir háttv. þm. virðast hafa gleymt. Áður en stjórnin ákvað laun íslensku nefndarmannanna, hafði hún fengið vitneskju um, að Danir ætluðu sínum mönnum 2000 kr. hverjum. Íslensku nefndarmennirnir komu ekki fram með neinar kröfur í þessu efni, en þáverandi stjórn þótti við eiga, að þeir hefðu sömu laun og þeir dönsku, og ákvað, að svo skyldi vera. Þótti nefndarmönnunum ekki ástæða til að drepa hendi við þessum launum, því vel hefði það mátt skilja á þá leið, sem vjer litum svo á að íslensku nefndarmennina bæri að setja skör lægra en þá dönsku. Hefir og alt það, sem komið hefir fram við þessa menn af hendi Dana og annara útlendra þjóða borið vitni um það, að þeir líta á þá sem „diplomata“ fullvalda ríkis. Öll viðskifti þeirra við þá og framkoma hefir verið hin hæverskasta, og hafa nefndarmennirnir ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. Það eina land, sem hefir sýnt nefndinni lítilsvirðingu er Ísland. Er það og ekki annað en það, sem vænta má því það er víst engin þjóð til í heiminum, sem hefir minna álit á Íslendingum en þeir sjálfir. Kæmi mjer ekki á óvart, þótt þeir tækju nú bráðum upp þennan nafntogaða Kínverja sið gagnvart gestum og framandi og segðu: „Hvað getur yðar hundur gert, yðar auðmjúkur hundur?“ — Vildi jeg raunar óska, að svo yrði ekki, því jeg hygg að oss væri sæmra að líkjast göfugum frændþjóðum vorum í síðum og framkomu heldur en Mongólum úr Austurálfu.

En hvað sem öðru líður, úr því nefndinni voru á annað borð veitt þessi laun, þá eru þau þar með fastákveðin fyrir þann tíma, sem þessir menn eiga sæti í nefndinni. Jeg hjelt, að ekki þyrfti að taka annað eins og þetta skriflegt af stjórn landsins. Þess er yfirleitt vænst af þingi og stjórn hvers lands sem er, að ekki þurfi að taka það skriflegt eða vottfast, sem þau lofa, til þess að þau standi við það. Jeg skal ekki segja, hvernig dómur mundi falla í því máli, en það uggir mig, að ákvæði þáverandi stjórnar, ásamt 4 ára starfsemi nefndarinnar við þessi laun, myndi hjá dómaranum reynast þungt á metunum.

Þá verð jeg að svara nokkrum orðum hv. þm. N.-Ísf. (S.St.). Hann hjelt því fram, eins og fyrri daginn, að landið sje að sökkva í skuldir og ekki lengur fyrir einum eyri trúandi, og er það, eins og menn kannast við, þetta gamla bjargráð hans til að bæta með lánstraust landsins. Hann kvað illa líta út með verð á afurðum næstu ár, og veit jeg ekki við hvað hann hefir þar að styðjast. (S.St.: Við reynsluna). Þá er háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.) snjallari flestum öðrum mönnum, ef hann getur líka stuðst við reynslu ókomna tímans. Hann sagði, að í öllum fjárhagsáætlunum beri að miða við tímann, sem yfir standi. Það gerði jeg líka. Jeg gekk út frá meðalverði vörunnar og er þess fullviss, að ekki þarf meira en meðalár til þess, að svo gangi, sem jeg sagði áðan. Það er einmitt fjarri mjer að miða ekki einmitt við tímann, sem er að líða, því hver getur sagt nokkuð um ókomna tímann, nema ef vera skyldi háttv. þm. N.-Ísf. — Sól getur sortnað og jörð sígið í hafið, eða halastjarna einhversstaðar utan úr veröld rekist á hnött vorn og breytt honum í eld og eimyrju. Það myndi gera strik í fjárhag Íslendinga. Að vísu veit jeg ekki, hvaða skuldheimtumenn yrðu þá til að krefjast skuldanna.

Jeg bygði í áætlunum mínum á rjettum tölum og rjettum rökum, en jeg veit ekki á hverju háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.) hefir bygt, er hann komst að því, að gengisbreytingarnar, sem getið er um í 7. gr., gætu kostað okkur 6 miljónir króna. (S.St.: Það var mismæli mitt, eins og jeg hefi þegar tekið fram). Jeg er fús á að taka það gilt sem mismæli, þótt mjer hinsvegar sje kunnugt um þann reikningsbrest þessa hv. þm., að muna ekki ávalt eftir því, að ekki er sama, hvað mörg núll eru á eftir tölunni. Og þar sem jafngætinn fjármálamaður sem háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) hefir nú látið í ljósi þá skoðun sína, að gengismunurinn myndi verða horfinn um áramótin, þá vil jeg nú því síður hrella þennan hv. þm. (S.St.) frekar með þessu mismæli hans.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.) tók það svo fram í lok ræðu sinnar, að vegna þessara örðugu kringumstæðna myndi hann vera með öllum lækkunum á fjárlagafrv. — En jeg verð nú að segja að jeg man ekki til þess, síðan jeg kom á þing, að hann hafi nokkurntíma verið annað en með öllum lækkunum að undanteknum brimbrjótnum forðum.

Það var sama reginvitleysan viðvíkjandi genginu, sem kom fram úr háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.O.), nema bara hvað annar blær var á henni. Hann lagði aðaláhersluna á hvað hann gæti hugsað sjer. Jeg dreg það alls ekki í efa, að hann geti hugsað sjer ástandið miklu verra. Jeg hefi yfirleitt ótakmarkaða trú á spádóms- og skáldskapargáfu þessa háttv. þm. En happ tel jeg það fyrir taugar vorar þdm., að hann að þessu sinni hlífði oss við að heyra hvað honum hefir nú opinberast.

Ætla jeg svo að hætta að tala fyrir hönd nefndarinnar og mæla nokkur orð fyrir mína hönd. Jeg skal þá taka það fram, að jeg get hvorki lofað nefndina, þm. N.-Ísf, (S.St.) eða 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) fyrir þær sparnaðartill., þar sem sparnaðurinn gengur út á það að leggja í sölurnar mannslíf, menningu þjóðarinnar eða fagrar vonir hennar vænstu sona, án þess nokkur nauður reki til. Sje það gert, þá er gullinu kastað, en varðveittur eirinn eða einhver ennþá verri málmblendingur. Verð jeg að segja það, að mjer finst það heldur óskynsamlegur sparnaður, sem byggist á öðru eins og þessu, enda mun það fje, sem á þann hátt vinst, skamt hrökkva til þess að borga með skuldirnar. Vil jeg jafna slíkri þingmensku við það, sem hafíslúsin er fyrir horaðar skepnur.

Hjer hefir fallið úr, en jeg man ekki hvað það var. B.J. f. V.