07.04.1922
Efri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

58. mál, atvinna við siglingar

Karl Einarsson:

Ummæli hv. þm. (G. Guðf.) held jeg, að sjeu sprottin af misskilningi. Frv. er ekki fram komið vegna skorts á skipstjóraefnum, heldur af því, að þau eru óþarflega mörg, og þykir því rjettara að gera meiri kröfur. Nú þarf ekki að vera nema einn maður með prófi á hverju smáskipi, en eftir þessu frv. þurfa þeir að vera tveir. Þetta verður til þess að gera siglingarnar tryggari.

Þá er takmarkið hækkað upp í 60 rúmlestir og er það aðallega gert eftir till. skólastjóra Páls Halldórssonar. Fyrir Norður- og Vesturlandi er mikið af skipum milli 30 og 60 rúmlesta að stærð, og þykir það nokkuð dýrt að ráða á þau menn með meira prófi, en hinsvegar er ekki vandasamara að fara með þau en hin, sem minni eru.

Bráðabirgðaprófin eru hjer sett vegna þess, að sparnaður er að; ástæðan er ekki önnur.

Ef frv. þetta verður að lögum, þurfa mjög margir menn að taka þetta próf, en það væri þeim mikill kostnaður og óþægindaauki að þurfa að leita hingað til Reykjavíkur í því skyni. Það er óbrotnara og í alla staði hentugra að senda menn hjeðan úr Reykjavík á ýmsa staði á landinu og halda þar þetta próf. Þetta er ekki gert til þess að rýra álit skólans hjer, heldur aðeins til hægðarauka.

Í Vestmannaeyjum munu t. d. um 70 menn þurfa að taka þetta próf, og geta allir sagt sjer sjálfir, að þægilegra er fyrir þá að fá mann til Eyja til þess að yfirheyra sig heldur en að þurfa að kosta sig hjer.

Háttv. þm. (G. Guðf.) vildi láta vísa málinu til nefndar. Það skaðar vitanlega ekki, en hinsvegar hefir það enga þýðingu, þar sem nefndin hefir athugað málið og hefir ekki meira um það að segja en hún hefir þegar sagt og eftir hefir verið farið.