23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Þorláksson:

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli háttv. nefndarmanna á því, að það vantar einn gjaldalið í frv., sem ætti helst heima í 13. gr. þess. Þessi liður er bifreiðaskatturinn, sem áætlaður er 30 þús. kr. og á að verja á alveg sjerstakan hátt. Í stjórnarfrv. hefir þessi liður verið tekinn upp tekjumegin, en úr því hann er tekinn upp í fjárlögin tekjumegin, þá verður að taka upp jafnháa upphæð gjaldamegin, því að annars raskar hann jafnvæginu og fram hlýtur að koma jafnmikill tekjuhalli, sem nemur þessari upphæð. Hjá þessum halla mætti auðvitað komast, með því að taka þennan lið alls ekki inn í fjárlögin, en jeg tel þó heppilegri hina leiðina, sem sje þá, að setja jafna upphæð gjaldamegin. Að öðru leyti vil jeg líka minnast á, að það vantar þá grein gjaldamegin í frv., sem veitir fje til útgjalda við einkasölu ríkissjóðs á áfengi og tóbaki. Þegar búið er að setja þessa starfrækslu á stofn með sjerstökum lögum, þá finst mjer það mjög óviðeigandi að halda henni utan við fjárlögin. Ef rjett væri að hafa þetta svo, þá ætti það sama að gilda um póstmál og símamál. En það er ekki rjett. Það hefir löngum verið talið heppilegast að halda starfrækslu slíkra fyrirtækja undir fullu eftirliti fjárveitingavaldsins, og mun svo enn, það er að segja, ef slík fyrirtæki eru ekki aðeins rekin til bráðabirgða. Það er t. d. öðru máli að gegna um Landsverslunina, sem aðeins átti að starfa skamma stund. Jeg skal að vísu játa, að ekki er hægt að taka allan tilkostnaðinn við slíka verslun sem tóbak og áfengi upp í fjárlögin, enda er þess ekki þörf. Það mætti sleppa þeirri upphæð, sem vörurnar eru keyptar fyrir. En aftur á móti á tilkostnaður svo sem hús, hiti, fólkshald o. fl. heima í fjárlögunum.

Þótt jeg hafi fundið þetta að frv., eins og það liggur nú fyrir, þá hefi jeg samt ekki komið fram með neinar brtt. um þetta. Stafar það af því, að ekki er fært neinum einstökum þm. að semja slíka breytingartillögu. Þeir eiga ekki kost nauðsynlegra skýrslna; heldur yrði hún að koma frá stjórninni eða fjvn. Jeg vil því skjóta því til nefndarinnar. hvort hún sjái sjer ekki fært að taka þennan lið með upp í frv. Jeg tek það fram, að jeg tel Landsverslunina ekki þar með, því jeg geri ráð fyrir, að hún með sínar almennu vörur hverfi brátt úr sögunni og eftir verði einungis verslun með þessar lögmæltu vörutegundir.

Þá kem jeg að þeirri brtt. fjvn. að fella burt allar fjárveitingar til símalínanna. Þó jeg sje sparnaðarmaður, get jeg samt ekki greitt atkvæði með henni, og liggja til þess ýmsar ástæður.

Fyrst og fremst lítur svo út, sem árið 1923 verði fremur hagkvæmt framkvæmdaár. Efniviður allur og vörur frá útlöndum verður líklega í lágu verði undireins og gengi íslensku krónunnar er komið í samt lag, og ekki er útlit fyrir, að þá verði kominn svo mikill vöxtur aftur í atvinnuvegina, að skortur muni verða á verkafólki. Liggur í augum uppi, að slæmt er að þurfa að leggja niður slíkar verklegar framkvæmdir þann tíma, sem saman fer ódýr efniviður og lágt verkagjald. Vil jeg af þessum sökum ekki strika þennan lið út úr fjárlögunum, heldur láta hann standa, en veita svo stjórninni heimild til að láta þessar framkvæmdir falla niður, ef brýn nauðsyn krefur.

Þá er ein ástæðan fyrir þessari afstöðu minni sú, að mjer dylst það ekki, að hjer er um mjög lítinn sparnað að ræða. Því ekki er hægt að líta svo á, að þetta fje sparist, heldur er framkvæmdunum aðeins frestað, og sparnaðurinn nemur ekki meiru en vöxtunum af þessu fje þennan tíma, sem frestað er.

Jeg verð svo að taka það fram, að jeg tel það rangt að leita jafnaðar á fjárlögunum með því að strika út verklegar framkvæmdir í landinu. Einkum tel jeg þetta óviðeigandi, þegar sá flokkur í þinginu, sem styður stjórnina, vill ekki spara þá byrði sem virkilega dregur um og mætti spara, nefnilega hina föstu árlegu launabyrði. Það hafa þegar verið borin fram nokkur frv. þess efnis, og hefir þessi flokkur undir ötulli forustu hæstv. forsætisráðherra (S.E.) eindregið sett sig móti þeim. Skal jeg t. d. taka, að í byrjun þingsins var komið fram með till. um það að komast af með tvo ráðherra, og var það þessi flokkur eingöngu, sem varð henni að bana. (Forsrh.: Móti því máli voru ekki undantekningarlaust þeir þm., sem nú styðja stjórnina). Svo má það samt heita. Þessu hefir svo haldið áfram undir ótrauðri forustu forsætisráðherra, sem ekki hefir beitt áhrifum sínum til annars frekar hjer í deildinni, síðan hann komst í það sæti, en leggjast á móti sparnaðartill. þm. Jeg álít nú rangt að ætla sjer að draga fjöður yfir þetta með því örþrifaráði að skera niður nauðsynlegar framkvæmdir sem þær, sem hjer er um að ræða. Þykir mjer æði óviðeigandi að afgreiða fjárlög frá þinginu, þar sem verklegar framkvæmdir eru feldar burt, en alt óþarfatildur látið halda sjer. Á slík stjórn sem þessi og ekki skilið, að henni sjeu afhent tekjuhallalaus fjárlög. Væri líka heldur von til, ef hún fengi að þreifa á afleiðingum þessarar stjórnarstefnu sinnar, að hún kynni að bæta ráð sitt.

Afstaða mín til þessa máls er þá í fám orðum sú, að jeg vil greiða atkv. á móti því, að þessi liður sje feldur niður, en gefa svo stjórninni heimild til að stöðva framkvæmdirnar, ef efnahagur og ástand krefst þess.