22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Frá því í þingbyrjun mun öllum hafa verið kunnugt um það, að fyrir þingið mundi koma eitt hið versta mál, sem Alþingi vort hefir haft til meðferðar, en það er hið svokallaða Spánarmál. Snemma á þinginu kom fram frv., sem í þá átt gekk að breyta aðflutningsbannslögunum á þann hátt, sem Spánverjar gerðu að skilyrði fyrir því, að vjer fengjum að njóta þeirra tollhlunninda á saltfiski vorum, sem vjer höfum notið undanfarandi. Samvinnunefnd viðskiftamálanna hefir svo haft málið til meðferðar, og er óhætt að segja, að hún hefir lagt í það mikla vinnu allan þennan tíma, og nú hefir hún borið fram frv. um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fá bannlögunum frestað um eitt ár að því er snertir vín, sem ekki hafa meira en 21% áfengis. Frv. með greinargerð er prentað á þskj. 263, og get jeg vísað til þess að miklu leyti hjer, til að spara tíma.

Eins og sjest, hefir nefndin öll, 12 þingmenn úr báðum deildum, orðið ásátt um að bera þetta frv. fram, því að þótt einn þm. hafi ekki getað fylgt fullkomlega greinargerðinni, þá nær það ekki til sjálfs aðalatriðisins, sem sje frumvarpsins. Á hinn bóginn mun flestum vera það kunnugt, að innan viðskiftamálanefndarinnar eru menn með mjög ólíkar skoðanir á bannmálinu sjálfu. Það er því þegar augljóst, að það er eitthvað annað en afstaða manna til aðflutningsbannsins, sem hjer kemur fram. Það er niðurstaða af nákvæmri rannsókn á því, hvort það sje gerlegt og mögulegt að standa gegn kröfu Spánverja, sem birtist í þessu frv. og áliti nefndarinnar. Hún hefir komist að þeirri niðurstöðu, að það sje oss um megn. En frv. sýnir ekki frekar vilja nefndarmanna eða hug til bannlaganna en undirskriftirnar í Kópavogi forðum, með hermenn við hliðina, sýndu sannan vilja landsmanna þá.

Jeg vil ekki þreyta háttv. deild með því að þylja hjer upp það söguágrip málsins, sem í nál. er prentað. Ef vel væri, þyrfti saga samninganna að vera miklu ítarlegri en hún er þar, og í raun rjettri fæst varla sönn mynd af gangi málsins með öðru móti en því, að hafa öll plögg málsins fyrir framan sig. Og jeg verð að halda, að margt hafi verið óþarfara prentað en það, þó að stjórnin ljeti prenta öll skjöl þessa stóra og mjög svo vandasama máls, svo að öllum gæfist kostur á að lesa þau sjálfir, því að sjálfsögðu mun þjóðin leggja sinn dóm á það fyr eða síðar, og þá er ekki nema gott, að sá dómur geti verið sem rjettastur og heilbrigðastur. Jeg vil þó ekki gera í nafni nefndarinnar meira en skora á hæstv. stjórn að taka til rækilegrar yfirvegunar, hvort það væri fært og hvort það gæti spilt málstað vorum síðar, að þetta væri gert. Og ef ekkert væri á móti því annað, þá að horfa ekki í þann kostnað, sem það hefði í för með sjer. Jeg vil því hlaupa yfir það hjer að segja sögu málsins, en geta þess, að eftir því, sem viðskiftamálanefndin hefir best getað sjeð af öllum skjölum, hafa samningarnir verið reknir vel og samviskusamlega, og hvort sem litið er á framkomu utanríkisráðuneytisins danska, sendiherra Dana í París og Madrid, sendimanns og fulltrúa Íslands, Gunnars Egilsonar, eða stjórnarinnar íslensku, verður ekki annað sjeð en að allir þessir aðiljar hafi teflt fram öllu, sem í þeirra valdi stóð, til að fá sem heppilegust úrslit, þótt árangurinn yrði því miður lítill. Þess er og skylt að geta, að danska stjórnin hefir staðið með oss í samningunum og með því veitt oss mikinn styrk. Um síðari sendimenn vora, sem fóru að tilhlutun Alþingis til Spánar, þá Svein Björnsson sendiherra og Einar Kvaran rithöfund, munu allir sannfærðir, að þeir hafi gert alt það, sem hægt var að gera, til að þoka málinu í aðgengilegra horf. Vjer verðum því að taka því, sem orðið er, eins og nokkru, sem ekki hafi orðið hjá komist.

Hitt er annað mál, og um það ætlar nefndin að lofa hverjum að hafa sitt álit, hvort hægt hefði verið að vinna meira í aðrar áttir vorum málstað til styrktar, svo sem með því að afla málstað vorum fylgis úti um heim en víst er um það, að alt slíkt verður að gera með varúð. Þá má líka hugsa sjer þann möguleika, að eitthvað hefði um þokast, ef fleiri menn hefðu strax verið sendir að heiman. Eins er hitt, hvort meira hefði átt að gera að því að afla markaðs fyrir fiskiframleiðslu vora annarsstaðar. Það er vafalaust, að það á að gera alt, sem hægt er, til þess að opna nýja markaði, hvað sem þessu máli líður, því að þó ekki sje annað, þá er það, að sá markaður, sem vjer höfum nú, er ekki ótakmarkaður, ef framleiðslan vex, sem vonandi er. Og einmitt í þeim tilgangi lagði viðskiftamálanefndin það til, sem vísi í þessa átt, að nokkurt fje yrði veitt í þessu skyni, og nú er það komið inn í hin nýsamþyktu fjárlög, og nokkuð meira en nefndin þorði að stinga upp á. En því má ekki blanda inn í það, sem nú þarf að ráða fram úr í svip, því að nýir markaðir skapast ekki á svipstundu, heldur fer til þess langur tími og mikil þrautseigja. Menn eru vanafastir í lifnaðarháttum sínum, og þótt það sje á einn bóginn hindrun, þegar verið er að leita að nýjum mörkuðum, þá er það á hinn bóginn líka trygging fyrir því, sem eitt sinn hefir náðst. Sje öfluglega að þessu unnið, getur þetta styrkt oss í baráttunni framvegis gegn slíkum tökum, sem vjer erum nú beittir, en það ljettir ekki verk vort nú, því miður.

Ef vjer göngum því fram hjá þessu tvennu sem ógerlegu, að geta selt fiskframleiðslu vora annarsstaðar og á hinn bóginn því, að vjer getum náð betri samningum við Spánverja að svo komnu, þá er ekki annað hægt en gera upp fyrir sjer það, hvort vjer treystum oss til að neita kröfunni og taka á oss það, sem leiðir af hámarkstolli á saltfiski vorum á Spáni, eða 96 gullpeseta tolli á 100 kg. í stað 32 peseta.

Jeg skal játa það, að það er erfitt fyrir mig og aðra bannmenn að reikna þetta dæmi með rólegum huga, og í mínum huga verður þetta altaf meira en reikningsdæmi. En í svip neyðist maður til þess að líta á málið frá því sjónarmiði, því að þjóðarheill verður að ganga fyrir hverju einstöku máli, hvað þá tilfinningum einstaklingsins.

Jeg vil setja dæmið upp eins og það lítur út eftir horfum fyrir árið, sem í hönd fer. Við eigum nú við að stríða almiklar skuldir og erfiðan verslunarjöfnuð, vegna óhappa og erfiðra kringumstæðna á undanförnum árum, og þetta hefir valdið gengisfalli á íslenskri krónu og yfirvofandi dýrtíð af þeim sökum. En nú hefir síðasta ár bætt úr þessu að nokkru, og þó lítur svo út, sem hið nýbyrjaða ár geti bætt enn frekar úr, svo engin ástæða er til að vera sjerstaklega órólegur um hag vorn, ef ekki steðja að stór og óvænt óhöpp. Fiskur hefir komið á land alveg óvenjumikill, en þar sem fiskiframleiðslan er, hljótum vjer að sjá aðalhjálparvonina út úr ógöngunum. En það er ekki nóg að framleiða. Það þarf að selja framleiðsluna og selja hana vel, ef von á að verða um lausn úr kreppunni. Bregðist salan, þá er hin mikla framleiðsla oss aðeins til kostnaðar þá snýst blessun árgæskunnar til sjávarins upp í aukið ólán.

Nú er það, að sú þjóðin, sem vjer þurfum að sækja til megnið af fjenu fyrir þessa aðalútflutningsvöru vora, eru einmitt Spánverjar, sú þjóðin, sem vjer eigum í höggi

við. Af fiskframleiðslu vorri fer stórfiskurinn, dýrasti parturinn, til Spánar, og það eru hjer um bil 2/3 af allri framleiðslunni. Um mörg ár, já, áratugi hefir þessi markaður verið að vinnast, og hann er, eins og útgerð vorri er nú hagað, orðinn ómissandi. Eins mikið og nú hefir fiskast verður ekki fjarri sanni, að vjer munum þurfa að selja um 20000 smál. af fiski á Spáni á þessu ári. En samt skulum vjer nú ekki reikna með nema 17000 smálestum, sem að kunnugra manna sögn og óvefengt er meðalfiskflutningur vor til Spánar á síðustu árum. 64 peseta aukatollur á því nemur yfir 10 milj. peseta, en gullpesetinn er nú jafngildur 115 dönskum aurum, og upphæðin er því yfir 12 miljón danskar krónur. Þetta er aukabyrði sú, sem hámarkstollurinn leggur á fiskinn.

Um þetta er nú ekki hægt að þrátta. En um hitt má deila, hvernig þessi byrði komi niður á hlutaðeigendur, hve mikið af henni lendi á oss og hve mikið á Spánverjum, eða neytendunum. Og jeg hefi því miður sannfærst æ betur og betur, þvert ofan í það, sem jeg vildi óska, og án þess að hafa þar nokkurn áhuga, nema í mótsetta átt, að vjer verðum að bera meginið af þessari byrði, ýmist beinlínis eða óbeinlínis, og tala jeg hjer ekki fyrir mig einan, heldur fyrir alla nefndina. Það er segin saga, að þegar nokkur hluti fisksins, sem til Spánar flyst, verður að sæta 96 peseta tolli, en allur annar fiskur aðeins 32 peseta, þá útrýmir sú varan, sem ívilnað er, hinni vörunni. Ef hingað til landsins flyttust t. d. 2 tegundir sykurs og önnur væri miklu dýrari, þá væri hún ekki keypt, jafnvel þótt við værum henni vanari og hún þætti betri. Hún þyldi ef til vill dálítið hærra verð, en þó mundi það strax kippa úr sölunni. Nú er það aðgætandi, að íslenskur fiskur er seldur hærra verði en annar fiskur á Spáni, af því að hann þykir betri, og það er ekki til neins að hugsa sjer það, að bæta mætti enn við verð hans í samanburði við annan fisk, öðruvísi en það kipti úr sölunni. Vjer yrðum, ef vjer vildum selja eins mikið og áður, að bera tollmismuninn sjálfir.

Þó er á það að líta, að í skjóli þessarar tollhækkunar, einkum ef fleiri lentu í henni, mundi fiskverð hækka yfirleitt, og vjer á þann hátt losna við nokkuð af tollmismuninum. En þá kemur nýr keppinautur til sögunnar, og það er kjötið, sem þar er boðið við mjög lágu verði og verður mjög hættulegur keppinautur saltfisksins, ef hann hækkar nokkuð til muna. Að sama skapi sem fiskverð því hækkar, eða með öðrum orðum að sama skapi sem við losnum við nokkuð af tollmismuninum, er því hætt við, að á oss komi sá erfiðleikinn að finna markað fyrir fiskinn á Spáni.

Það mætti líka setja dæmið þannig upp, að bera saman Spánarverðið á fiskinum og það verð, sem fengist fyrir fiskinn annarsstaðar, t. d. með því að selja hann óverkaðan til Englands. En jeg hygg, að erfitt verði að reikna út þennan möguleika, meðal annars atvinnuleysið, sem af því mundi leiða, og það mun sannast, að þrátt fyrir hámarkstollinn verði skárst að selja fiskinn á Spáni.

En þyldi nú útgerðin þennan aukna skatt? Á það mætti benda, að talsverðar verðsveiflur hafa áður fyrir komið, án þess þó að ríða framleiðslunni að fullu. Ef alt stæði hjer nú og hefði staðið í blóma, verð jeg að segja, að slíkt væri hugsanlegt. Útgerðin þyldi þá að taka nokkuð tap og landið þyldi þá að fá eitt ilt ár. En því er ver, að svo er ekki nú. Útgerðin hefir nú fengið 2 mjög erfið ár, eins og hefir sýnt sig á öllum sviðum, og hún mun ekki heldur nú verða ýkjaauðveld þetta árið, því að mörg skipin hafa, eins og kunnugt er, verið keypt of háu verði, og fyrirtækin stynja undir þeirri byrði. En gott ár mundi vafalaust hjálpa þeim talsvert áleiðis. Gott ár mundi laga mikið, en ilt ár mundi steypa mörgu.

Og auk þess, hvernig mundi ganga að fá fje til rekstrar fyrirtækjanna undir þeim kringumstæðum? Jeg ætla ekki að svara því frekar, en það mun flestum auðvelt að gera sjer hugmynd um það, þegar lán til vissra og arðvænlegra fyrirtækja eru jafnföst fyrir og nú er.

Hjer er því í raun rjettri ekki um að ræða 8, 10 eða 12 miljónir, heldur tilveru stórskipaflotans okkar. Hann stendur og fellur með Spánarmarkaðinum. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því.

Það þarf í raun rjettri ekki að halda reikningsdæminu lengra áfram, því að hin hlið reikningsins, fjárhagslega sjeð, verður aldrei nema lítil móts við þetta. Hún kann að nema miljónum, en þar er erfitt að koma áætlunum að. Vjer eigum að leyfa innflutning á vínum, sem ekki hafa yfir 21% áfengis, og sumir halda, að við eigum á hættu hefndartoll á saltkjöti. Það er eintóm hugmynd. Vínið og afleiðingar þess kosta oss að sjálfsögðu mikið peningalega sjeð, en jeg verð að játa það, að jeg hefi aldrei verið bannmaður af peningalegum ástæðum fyrst og fremst, heldur af siðferðisástæðum og þjóðfjelagslegum. Jeg býst við, að Íslendingar hefðu efni á að drekka, eins og þeir hafa efni á að brúka tóbak og annan óþarfa, ef litið er eingöngu á peningana, sem vínið kostar. En við höfum miklu síður efni á að spilla siðferðinu með vínnautn og spilla kynstofninum.

Nei, mótbáran gegn því að ganga að kröfu Spánverja er fólgin í alt öðru en þessu peningalega reikningsdæmi. Þeir, sem líta á þetta eingöngu sem reikningsdæmi, geta ekkert augnablik verið í vafa. En það er nú einmitt svo, að það er miklu meira en reikningsdæmi, og því eiga svo margir erfitt með að sigra sjálfa sig til þess að beygja sig fyrir þjóðarnauðsyninni. Jeg vil nefna hjer tvær hliðar.

Önnur er bannið og það að láta undan í því máli. Þar eru menn að vísu ekki óskiftir, en þó hygg jeg, að enginn þingmaður mundi óska þess að afnema eða breyta bannlögunum á þennan hátt. Það er ekki lítil vinna, ekki lítið af ósjerplægnu starfi, ekki lítil þrautsegja, ekki lítið af siðferðilegum þrótti, sem stóð bak við setningu bannlaganna og staðið hefir með þeim, þrátt fyrir óvinsældir, andróður og andstreymi margskonar. Það er því ekki furða, þótt sárt taki vini þessa máls að þurfa nú með eigin hendi að skerða þetta verk. Það er líka óhætt að segja, að þetta mál hefir aflað oss víðari frægðar um heiminn en nokkurt annað mál. Á sama degi og við sláum af bannlögunum verður það kunnugt um allan heim, og blaðadrengir vestast í vestri og austast í austri kalla það á götunni. Við vorum hjer forgangsþjóð. Því fylgir ábyrgð og við skulum ekkert draga úr þeirri hneysu, sem fylgir því að láta undan, enda þótt allir skynsamir og sannsýnir menn hljóti að sjá, hver orsökin er.

En svo er hin hliðin, og í henni hljóta allir að vera sammála, en það er sjálfsákvörðunarrjettur vor; það er sjálfstæðishlið málsins. Það er hörmulegt að þurfa að haga löggjöf sinni í nokkru eftir því, sem aðrir bjóða og banna. Þetta er að vísu viðskiftamál, og í viðskiftmálum eru slíkar miðlanir ekki nema daglegt brauð. En það er meira en viðskiftamál, og alt, sem það fer út fyrir það, er það skerðing á sjálfsákvörðunarrjetti vorum. Enda mun það á daginn koma, þegar þessi stefna, bannstefnan, leggur undir sig fleiri lönd og þjóðir, sem jeg og fleiri hafa trú á að hún geri, þá muni það verða sett í alþjóðareglur, að hin stærri ríki kúgi ekki hin smærri í þessu máli.

Þessar tvær ástæður, en ekki neitt fjár- hagsatriði, er það, sem gerir mörgum eða ef til vill flestum þingmönnum erfitt fyrir að ganga að þessu máli, og samþykt þessara laga hlýtur að fara fram með þeim ásetningi að halda þeirri hugsjón, að vjer skipum málum vorum eftir voru höfði og eftir því, er vjer teljum oss best henta. Þessi krafa, sem vjer látum nú undan, er aðeins steinn í götu þess rjettar vors, steinn, sem vjer ráðum ekki við í svip. Sjálfstæðismál vort hefir margar hliðar, en ein nauðsynlegasta undirstaða þess hlýtur að vera efnalegt sjálfstæði. Ef vjer ekki glötum því, höfum vjer von um að geta unnið á öðrum sviðum með árangri. Jeg lít svo á, að vjer skerðum sjálfstæði vort með því að ganga að kröfunni, en jeg lít líka svo á, að vjer getum gert út af við það með því að neita nú, eins og ástatt er.

Og loks vil jeg segja frá sjálfum mjer sem bannmanni, og jeg býst við, að jeg tali þar fyrir hönd margra, að frá hreinu bannsjónarmiði er ekki vit í annari stefnu en þessari. Slík stórmál sem alger útrýming áfengis komast aldrei fram til sigurs nema gegnum margar þrautir og margar torfærur. Það sem á ríður, er aðeins það, að láta enga torfæruna verða málefninu að bana. Þó þær tefji, þá er það ekki nema eðlileg náttúrunnar rás.

Fyrsta stóra torfæran var hjer innanlands, skilningsleysi og mótspyrna. Hún varð í minni hluta með bannlögunum og var von um, að hún yrði smám saman yfirunnin. En nú stöndum vjer frammi fyrir annari stórtorfæru utan frá. Hún verður málinu til skaða, hvað sem verður gert, en alt er undir því komið að láta málið ekki farast á henni. En hvað verður, ef vjer neitum nú og látum alt það fjárhagstjón dynja yfir, sem því er samfara? Mundi bannið þola það, þegar farið væri að kalla miljónirnar, sem nú hvíla á útveginum, inn af öðrum atvinnuvegum og þeim, sem lifa af vinnu sinni einni? Væri bannstefnunni borgið, eftir að af henni hefði leitt fjárhagslegt hrun? Nei, þá væri boginn brostinn, og með honum bannið úr höndum vorum. Þetta vil jeg forðast, að fyrir geti komið.

Hinn kosturinn er ekki heldur góður. En hann þýðir ekki annað en töf á leiðinni. Og bannmálið þolir bið, þótt hún sje ekki góð. Það er í því gróðrarmagn, lífskraftur, sem þokar mótspyrnunni til hliðar. —

Vjer stöndum gagnvart tveim kostum, og hvorugum góðum. Vjer viljum velja þann kostinn í bráð, sem vjer teljum hættuminni til lengdar. Og því höfum vjer lagt til, að þessi heimildarlög verði samþykt.

Jeg skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta efni að sinni, en er að sjálfsögðu fús að svara spurningum, sem fram kunna að koma.

Viðvíkjandi brtt. þeim, sem fram hafa komið frá háttv. 1. þm. Rang. á þskj. 276 og á þskj. 279, skal jeg geta þess hjer þegar, að nefndin hefir athugað þær og getur ekki fallist á þær. Er það þó eigi af því, að nefndin sje í sjálfu sjer mótfallin stefnu þeirra, heldur af því, að þá mætti eins vel fella frv.

Eitt af því, sem sendinefndin átti einmitt að rannsaka, var, hvort ekki mætti afgreiða málið í slíku frestunarformi um óákveðinn tíma eða vissan árafjölda, en það reyndist ómögulegt að fá frekari tilslökun en þegar hefir verið skýrt frá. — Nefndin hefir í frv. farið eins langt og henni var unt. Mundi hún hafa farið lengra, ef þess hefðu verið nokkur tök.

Væri heimskan meiri að fara að eyðileggja málið á jafnlitlu aukaatriði og þessu, ef menn á annað borð ætla að láta undan aðalkröfunni.