22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Stefánsson:

Það þóttu mikil tíðindi og ill á Íslandi, er Spánverjar sögðu upp verslunarsamningi við Ísland, er staðið hafði um hartnær 30 ár, í því skyni að stórhækka innflutningstoll á íslenskum saltfiski á Spáni. Það duldist engum, að þessi ráðabreytni spönsku stjórnarinnar gat orðið sjávarútvegi vorum til stórtjóns. Þetta kom og í ljós, er Spánverjar síðastliðið ár hækkuðu með lögum innflutningstoll á fiski frá þeim þjóðum, er engan samning höfðu gert við þá, úr 32 í 96 peseta á hver 100 kg. Eftir síðustu ára fiskiútflutningi hjeðan til Spánar nemur þessi hækkun á íslenskum Spánarfiski samkvæmt útreikningi viðskiftamálanefndarinnar 12½ milj. króna á ári. Það er nýr skattur á sjávarútveg vorn, ný plága ofan á alt annað viðskiftaböl vort, svo framarlega sem samningar takast ekki að nýju.

Vitanlega var aðalástæðan til þessarar uppsagnar og hinnar gífurlegu tollhækkunar, að því er til Íslands kom, sú, að Ísland var bannland, er hafði með lögum lokað markaði sínum fyrir aðalútflutningsvöru Spánverja, vínunum. Eina ráðið til að afstýra þessum voða var að reyna að ná nýjum samningi við Spán, en það mátti teljast vonlaust nema vjer slökuðum meira eða minna til á innflutningsbanninu á áfengi. Fjárhagslegt sjálfstæði vort hlaut að velta á úrslitum þessa máls, og ekkert gat íslensku þjóðinni verið meira lífsspursmál en að afstýra þeim voða með sem tryggustum og skjótustum fullnaðarsamningi við Spánverja, er forðaði aðalframleiðslu vorri frá því stórtjóni, er þessi gífurlega tollhækkun hlaut að hafa í för með sjer.

Hinni fráförnu stjórn vorri var þetta fullljóst. Þess vegna gerði hún alt, sem í hennar valdi stóð, til að ná samkomulagi við Spánverja, og það tókst svo vel fyrir drengilegt atfylgi utanríkisráðuneytisins danska og danska sendiherrans á Spáni, að samkomulag hafði fengist við Spánverja áður en Alþingi hófst að þessu sinni um sama innflutningstoll og nú er, gegn nokkurri linun á aðflutningsbanninu. Hjer var um hreint og beint viðskiftamál að ræða milli Íslendinga og Spánverja, þar sem sveigt var til samkomulags frá beggja hálfu, samkomulags, sem forðaði sjávarútveginum íslenska frá margra miljóna króna tjóni, án þess að við þyrftum að leggja nokkuð verulegt í sölurnar frá fjárhagslegu sjónarmiði. Jeg segi „nokkuð verulegt“, af því að sú undanþága frá víninnflutningsbanni á ljettum vínum, sem Spánverjar nú gera að skilyrði fyrir samningum við oss, getur aldrei kostað oss neitt líkt og samningsleysið við Spánverja í þessu máli. Hjer gat verið nokkru öðru máli að gegna, ef Ísland hefði í reyndinni verið lokað fyrir innflutningi alls áfengis með bannlögunum, en það er nú síður en svo, að því sje að heilsa. Annars tel jeg misráðið að blanda bannmálinu, svo mikið tilfinningamál sem það er mörgum, inn í þetta mál, sem er hreint viðskiftamál, er verður að taka frá bláköldu fjárhagslegu sjónarmiði. — Innflutningur hingað á spönskum vínum, sem ívilnunin laut að, hefir jafnan verið sáralítill, og Spánverjum því lítil tekjugrein. En þeim var það principspursmál að láta hið sama ganga yfir Ísland sem önnur bannlönd, er seldu þeim fisk. Frá þeirra hálfu var því hjer aðeins að ræða um alment viðskiftalögmál.

Árangurinn af samningastarfsemi stjórnarinnar við Spánverja var frumvarp það er hún lagði fyrir þingið um breytingu á bannlögunum, í þá átt, að leyfður væri innflutningur á vínum undir 21% áfengis. Með þessari ívilnun var fengin full vissa fyrir bestu tollkjörum, og þannig afstýrt þeim voða, sem hlaut, ef ekki að ríða fjárhagslegu sjálfstæði voru að fullu, þá samt að lama stórkostlega krafta vora til allra framkvæmda landi og þjóð til vegs og viðreisnar.

Ekkert virtist því sjálfsagðara en að þingið hefði tekið þessu frv. tveim höndum og samþykt það umsvifalaust og þannig trygt ríkið fyrir því stórtjóni, sem leitt gat af samkomulagsleysinu við þessa viðskiftaþjóð vora.

En þingið virðist hafa litið nokkuð öðruvísi á þetta mál. Það hefir nú velkt þetta mál fyrir sjer allan þingtímann, meðal annars og ekki síst með þessari sendiför til Spánar, sem víst allur þorri þingmanna gat ekki gert sjer nokkra von um, að yrði annað en hrein og bein forsending, en sem kostar ríkið tugi þúsunda króna. Einhverjir háttv. þm. hafa ef til vill alið þá von í brjósti sjer, að spánska stjórnin, þrátt fyrir fastmælum bundna samninga við fyrverandi stjórn, myndi falla frá kröfu sinni um innflutning vínanna og láta oss eftir sem áður þó hafa bestu kjör í tollmálinu, og jeg skal fúslega játa, að það gaf í augum ekki allfárra þingmanna verið nokkur ávinningur. En eftir þeim gögnum, sem frá stjórnarinnar hálfu lágu fyrir þinginu, gat jeg fyrir mitt leyti ekki gert mjer neinar vonir um þetta, eða yfir höfuð neinn verulegan árangur af þessari sendiför, og af þeirri ástæðu gat jeg heldur ekki greitt atkvæði með henni.

Jeg nefni þetta af því, að eitt blaðið hjer í bænum, sem jafnan hefir á sína vísu látið sjer ant um framferði mitt og mannorð, ljet sjer sæma að gera þetta atkvæði mitt að umtalsefni, þótt þessi atkvæðagreiðsla ætti að vera leyndarmál, þar sem hún fór fram fyrir luktum dyrum. En þessa vitneskju frá einhverjum vini sínum, ekki of þagmælskum, notaði blaðið til persónulegra árása á mig. Jeg er að vísu vanur þesskonar skeytum úr þeirri átt, en jeg skal hjer í heyranda hljóði lýsa því yfir, í eitt skifti fyrir öll, að jeg kýs fremur last en lof þessa málgagns, minnugur þeirra orða skáldsins, að „Vondra last ei veldur smán, en vondra lof er heiðursrán“.

Þótt atkvæði mitt um þessa Spánarför fjelli öðruvísi en allra samþingismanna minna, þá kemur mjer naumast til hugar að væna nokkurn þeirra þeirrar ósvinnu, að jeg ekki segi samviskuleysis, að vilja fórna hagsmunum sjávarútvegsins fyrir innflutningsbann á þessum ljettu vínum. En hitt fullyrði jeg, að vjer stöndum nú ekki einu hænufeti nær hagfeldum úrslitum þessa máls en í þingbyrjun. Þetta frv. viðskiftamálanefndanna fer fram á bráðabirgðaráðstöfun um málið, heimild til undanþágu frá bannlögunum um þessi 21% vín aðeins eitt ár. Með samþykt þess skjótum vjer því á frest, sem vjer gátum gert í skjótri svipan með því að samþykkja frv. stjórnarinnar. Það er síður en svo, að þessi ársfrestur hafi nokkur hin minstu hlunnindi í för með sjer fyrir þetta velferðarmál vort. Ef hjer hefði verið að ræða um frestun á innflutningi þessara vína, þá var nokkuð öðru máli að gegna frá sjónarmiði sumra háttv. þingmanna, en því er ekki að heilsa. Spánverjar halda fast við innflutningskröfuna, en fullnaðarákvörðun um málið í heild sinni er ófyrirsynju skotið á frest, án þess nokkur sjáanlegur ávinningur sje að þeim fresti. Spánverjar hafa, eins og við var að búast, engu slegið af kröfum sínum, og jeg er alls ekki ugglaus um, að þessi frestur geti á einn eða annan hátt orðið til þess að torvelda hagkvæm úrslit þessa máls á sínum tíma. Spá mín um árangursleysið af sendiförinni til Spánar, til þess að grauta í gerðum samningum milli stjórna ríkjanna, hefir því miður ræst; með henni hefir ekkert áunnist málinu til bóta, og þrátt fyrir allar yfirlýsingar um, að hjer sje engin hætta í biðinni, vil jeg hjer fylgja hinni góðu reglu: „Frestaðu því ekki til morguns, sem þú getur gert í dag“. Vjer eigum ráð á nútímanum, en vjer vitum aldrei með nokkurri vissu, hver ráð vjer höfum á ókomna tímanum, og það getur margt komið fyrir á þessu eina ári málinu til tjóns, sem oss alls ekki dreymir um nú. Mjer er það skelfileg tilhugsun, ef Alþingi með ráðbreytni sinni gloprar úr höndum sjer því tækifæri, sem nú bauðst til hagfeldra samninga, þar sem eins mikið er í húfi fyrir þjóðina.

Hvernig sem jeg lít á þetta frv., get jeg því ekki sjeð nokkra kosti þess fram yfir frumvarp stjórnarinnar; miklu fremur marga ókosti. Það er bygt á þeirri von, að vjer að ári getum fengið jafngóð tollkjör hjá Spánverjum og nú eru í boði frá þeim. Í greinargerð frumvarpsins eru ekki nefndar á nafn nokkrar tryggingar fyrir því, að vjer að ári eigum jafnvís hjá Spánverjum „bestu kjör“ og nú. Aftur á móti er þar allmikil áhersla lögð á það, hve verslunarafstaða vor til Spánverja sje veik, „Þar sem vjer eigum þar allra dýrmætasta markað vorn, en kaupum á hinn bóginn nálega ekkert af þeim, nema það, sem vjer megum ekki án vera“. Þetta er alveg rjett athugað. Þessi afstaða ætti vissulega að vera ein allra ríkasta hvötin fyrir oss til að vernda og tryggja oss sem allra best vjer getum þennan „dýrmætasta markað vorn“. Það tækifæri stóð oss nú til boða fyrir tilstyrk góðra manna; þess vegna reið oss á að grípa gæsina meðan hún gafst, með því að samþykkja umsvifalaust frumvarp gömlu stjórnarinnar og styrkja með því að lögum verslunarafstöðu vora við Spánverja, gera hana svo sterka sem nokkur kostur var á.

Nefndin vill ráða frá því að hleypa málinu í strand. Mjer er ekki vel ljóst, við hvað hún á með þessu. Hefir þetta komið til mála? Eða hefir hún orðið þess vör, að einhverjir þingmenn vildu á þennan hátt fremja það ódæði að sýna sjávarútveginum banatilræði, með því að stuðla að því, að þessi 12 miljón kr. skattur væri lagður á hann fyrir eintóma heimsku og þvergirðingaskap í þessu máli frá vorri hálfu?

En eins og jeg hefi áður tekið fram, get jeg ekki vænt nokkurn þingmann þeirrar óhæfu. Jeg þykist þvert á móti viss um, að frumvarp stjórnarinnar hefði fengið nægan meiri hluta í þinginu og málið þar með verið klappað og klárt frá hálfu beggja samningsaðiljanna, Íslendinga og Spánverja. Þess vegna eru mjer og í mesta máta torskilin þau niðurlagsatriði greinargerðarinnar, að nefndin telur það talsvert aðgengilegra að stinga frumvarpi stjórnarinnar svefnþorn um heilt ár með þessari frestun á bannlögunum og taka svo alt málið upp að nýju á næsta þingi. Eina ástæða nefndarinnar fyrir þessari ráðabreytni er að vísu sú, að þingmenn geti þá betur vitað vilja kjósenda sinna, og málið því orðið enn betur undirbúið.

Að hverju leyti betur undirbúið?

Þjóðin sá þegar áður en þetta þing hófst, hver háski henni var búinn af tollhækkuninni; um það báru vottinn tillögur alls þorra þingmálafundanna síðustu. Hafi nokkurt mál verið vel búið undir meðferð þingsins, þá er það þetta mál, og sá undirbúningur batnar ekkert til næsta þings, af því að hann gat ekki verið betri en hann var í þingbyrjun. Allur þorri landsmanna hefði orðið þinginu miklu þakklátari fyrir samþykt stjórnarfrumvarpsins heldur en fyrir þetta bráðabirgða-frumvarpskák viðskiftamálanefndarinnar. Með frestuninni eigum við það á hættu, að til næsta þings verði reynt að villa þjóðinni sjónir með æsingum og undirróðri af hálfu óhlutvandra manna, eins og sum blöðin hafa látið sjer sæma síðan mál þetta kom á dagskrá; getur sá undirbúningur leitt til hinna allra óheppilegustu úrslita, þjóðinni til stórtjóns, og þá er sannarlega ver farið en heima setið.

Nú er það tilætlunin, þegar öllu er komið í óvænt efni fyrir óverjandi drátt á málinu, að hespa 6 umræður þessa frv. af á einum tveimur dögum, með stórfeldum afbrigðum frá þingsköpunum. Jeg verð að telja þetta hvatvíslega meðferð á þessu langþýðingarmesta máli, sem legið hefir fyrir þessu þingi, og naumast samboðna virðingu þingsins; og í stjórnarinnar sporum hefði jeg hugsað mig tvisvar um áður en jeg leyfði slíkt flaustur, eftir þau miklu mistök, sem orðið hafa á meðferð þingsins á þessu máli, og á jeg einkum við þennan sendifararhjegóma, sem þetta frv. er sprottið af, málinu til einskis gagns, heldur ef til vill ófarnaðar. Eins ljúft og mjer hefði verið að greiða atkvæði með frumvarpi stjórnarinnar og stuðla með því að fullnaðarúrslitum þessa velferðarmáls vors, eins óljúft er mjer að verða að greiða þessu frumvarpi atkvæði, þótt jeg neyðist til þess, þar sem málið fyrir afaróheppilegar aðgerðir þingsins er komið í hið mesta öngþveiti. Hjer verður að bjarga því litla, sem bjargað verður, með þeirri ömurlegu meðvitund, að hafa vanrækt bjargráðin því til handa, sem miklu meira var um vert í þessu máli. Engan skyldi það gleðja meira en mig, ef þessi frestun verður til að þoka þjóðinni og fulltrúum hennar saman í þjetta fylkingu til bjargar þessu fjárhagslega sjálfstæðismáli voru, en því miður hefi jeg ekki meiri trú á frestuninni en jeg hafði á sendiförinni til Spánar, og ekki veldur sá, er varar, þó ver fari.