22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vil taka undir með þeim háttv. þm., sem sagt hafa það mjög varhugavert að hrista af slíkt stórmál, sem þetta er, á mjög stuttum tíma, þó jeg hvetji aldrei til þess að lengja þingið.

Að því er snertir brtt. mína, þá var mjer ókunnugt um, er jeg bar hana fram, að sú leið hefði verið reynd, sem þar er bent á, en því hefir háttv. frsm. lýst yfir. Og jeg skil satt að segja ekki, hvað Spánverjar hafa getað haft á móti því að semja á þeim grundvelli.

En úr því þessi leið hefir verið reynd, þá mun jeg taka brtt. mína aftur, að minsta kosti til 3. umr.

Annars vil jeg lýsa því yfir, að jeg hefi ávalt verið mótfallinn því, að þetta mál kæmist í það horf, sem nú er raun á orðin. Jeg er þess fullviss, að frestun þessi er aðeins til óhagnaðar, frá hvaða sjónarmiði sem hún er skoðuð.

Frá sjónarmiði þeirra, sem málið mest snertir, útgerðarmannanna, þá hlýtur frestunin að hafa óþægindi í för með sjer. Markaðurinn hjá Spánverjum verður ótryggari og breyttari, en slíkt hefir aftur áhrif á gengi vort til hins verra.

Frá sjónarmiði Spánverja sje jeg ekki, að þeir sjeu neitt ver settir fyrir þennan frest, nema betur sje. Og ætti það þá ekki að vera okkur kappsmál að vaka yfir þeirra hagnaði. Jeg hygg, að fyrir frestunina hafi þeir miklu meiri tök en áður til þess að gera okkur ógagn, þegar til nýrra samninga kemur eftir ár. Því það er sýnilegt, að þeir ætla ekki að slaka til, og þá sje jeg ekki eftir hverju er að bíða.

Frá sjónarmiði templara sje jeg heldur enga ástæðu til þess að kjósa heldur frestunina. enda veit jeg um marga þeirra, sem eru algerlega á móti því horfi, sem málið er nú komið í. Er heldur ekki ómögulegt, að meira verði flutt inn af víni í ár en ella hefði orðið, vegna þess að menn verða hræddir um, að næsta þing kunni að hafna kröfum Spánverja. Menn segja, að stjórnin eigi að hafa hönd í bagga með innflutningnum, en það er krafa Spánverja, að hann verði sem allra minst takmarkaður. (Jak. M.: Það er beinlínis gert ráð fyrir einkainnflutningi). Það má vera, en þó liggur hjer alls ekkert fyrir í því efni, og er því ekkert hægt um það að fullyrða að svo komnu máli. Jeg hygg, að ekki verði mjög hægt að takmarka innflutninginn beinlínis, en það má takmarka hann óbeinlínis, með því að neyta vínanna sem allra minst, og það ættum við að gera, að minsta kosti ætti það að vera álit þeirra, sem andvígastir eru innflutningi vínanna.

Þessi kákaðferð, sem þingið nú hefir tekið upp, er komin af sendiferðinni síðustu til Spánar, sem jeg hygg sáralítinn árangur hafa orðið af. Eða eru háttv. þm. virkilega svo grunnfærnir, að þeir haldi, að aðstaða okkar muni breytast að miklum mun á einu ári? Að vísu er rjett og sjálfsagt að leita markaða fyrir íslenskan saltfisk, en slíkir markaðir verða ekki gripnir upp í einu vetfangi eða á einu ári. Og úr því að sömu þingmenn eiga að greiða atkvæði um þetta mál að ári undir sömu eða mjög svipuðum kringumstæðum, þá sje jeg ekki, hvað unnið er við þessa frestun. Mjer finst, að hv. þm. með því að samþykkja hana sjeu aðeins að blekkja sjálfa sig. Spánverjar ætla sjer ekki að slá af kröfum sínum, og gera það heldur ekki; slíkt þarf enginn maður að hugsa. Menn hafa með frestinum ætlað að veiða Spánverja, en veiða nú í þess stað hv. þm.

Jeg ætla hjer ekki að fara að gera athugasemdir við ræður einstakra þm. Aðeins vil jeg taka það fram, út af ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að honum í útreikningi sínum skjátlaðist allmjög í því að telja ekki með Spánarfiskinum þann fisk, sem fluttur er hjeðan til Spánar um England og Danmörku. Og er fyrir vikið ekkert að byggja á þeim niðurstöðutölum, sem hann færði fram.

Þá hefir mjer fundist það allóviðeigandi að heyra þm. vera að tala um vilja kjósenda sinna í þessu máli. Mjer finst, að um þetta mál eigi þm. að greiða atkv. eftir eigin sannfæringu og þekkingu, en ekki eftir vilja kjósenda, sem lítið vita um þetta mál og eru algerlega óbærir dómarar um það. Þó jeg yrði leiddur á höggstokkinn, mundi jeg aldrei greiða öðruvísi atkvæði í þessu máli, eins og það nú liggur fyrir.