23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

80. mál, stofnun landsbanka

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg og líklega flestir hv. þingdeildarmenn hefðum búist við, að hæstv. stjórn mundi flytja frv. um breytingu á launakjörum Landsbankastjóranna, þegar það varð kunnugt, að hún hafði ákveðið laun hinna stjórnskipuðu bankastjóra við Íslandsbanka. Það hefir þó ekki orðið, en mjer er kunnugt um, af viðtali við hæstv. stjórn, að hún mun samþykk því, sem nú er til umræðu.

Enginn vafi leikur á því, að nauðsynlegt og sjálfsagt er að launa svo vel bankastjórana við Landsbankann, eins og bankastjóra Íslandsbanka, að þeir þurfi ekki að bera áhyggjur fyrir efnalegu sjálfstæði. Það er kunnugt, hve hættulegt slíkt hefir reynst erlendis, og hið sama getur altaf komið fyrir hjer á landi. Bankastjórar mega ekki vera svo ljelega launaðir, að þeir þurfi að verja miklu af starfstíma sínum til að afla sjer aukatekna. Það er ljóst, að starf þeirra er svo umfangsmikið, að þeir geta ekki sint öðrum störfum, enda væri það óheppilegt allra hluta vegna, sjerstaklega ef þeir tækju þátt í atvinnufyrirtækjum eða því um líku.

Vel kann að vera, að sumum finnist launin fullhá eftir frv. En það tel jeg ekki sæmilegt, að bankastjórar Landsbankans sjeu ver launaðir en hinir stjórnskipuðu bankastjórar í Íslandsbanka, nema síður sje. Síðan frv. kom fram, hefi jeg heyrt ýmsa borgara hjer í bæ halda því fram, að launin, sem frv. gerir ráð fyrir, nái ekki nokkurri átt. Kveða þeir þau svo miklu hærri en laun annara starfsmanna ríkisins, að ekki sje sambærilegt. En menn verða þá að gæta þess, að störf annara starfsmanna ríkisins þola engan samanburð við störf bankastjóranna. Það mun venjulega vera svo, að embættismaðurinn getur hvílt sig og verið laus við allar áhyggjur, þegar hann fer af skrifstofu sinni. Öðru máli gegnir um störf bankastjóra. Þeir geta aldrei verið áhyggjulausir, síst á eins erfiðum tímum og nú ganga yfir þjóðina, og raunar aldrei. Jeg er öldungis sammála því, sem nýsettur bankastjóri ljet um mælt, að þetta væri versta verk, sem hann hefði unnið á æfi sinni. Þetta mun einmitt vera það erfiðasta starf af andlegum störfum, er menn geta hugsað sjer. Menn mega hvorki vera áhyggjulausir nótt nje dag. Það er ekki nóg að vera við starfið meðan menn sitja í bankanum; þeir verða að hafa allan hugann við það, jafnt utan bankans sem innan.

Önnur ástæða til þess, að farið er fram á hærri laun, er sú, að það er almenn ósk, að til þessa starfa veljist þeir mennirnir, sein hæfastir eru.

Hefir þess oft verið minst, og stundum ekki að ástæðulausu, að það hefir þótt á vanta, að við hefðum jafnfæra menn og mentaða í starfi þessu sem erlendis er haft. En eftir því sem viðskiftin aukast, eykst og þörfin á faglærðum mönnum í þessari grein. Er jeg ekki svo kunnugur starfinn, að jeg viti með vissu, hvort eitthvað hefir á brostið í þessum hlutum hjá bankamönnum vorum, en hitt veit jeg, að hin mesta nauðsyn er þessara manna. Auðvitað er það, að sjálfsagt er, að bankastjórarnir, einhverjir eða allir, hafi sem nánasta þekkingu á viðskiftum þjóðarinnar inn á við og atvinnuvegum hennar, og ráði þar mestu um, en hitt er jafnvíst, að það er engu síður nauðsynlegt, að menn með fullkominni fagþekkingu stjórni peningamálum vorum og viðskiftum út á við. Þar er fagþekkingin óhjákvæmileg. En þess er engin von, að efnilegir menn kosti miklu fje og löngum tíma til að ná þessari fagþekkingu, nema þeir eigi kost sæmilegra launa að náminu loknu eða eftir að þeir hafa tekið við starfanum, því að eins og jeg hefi áður tekið fram, geta þessir menn og mega ekki fást við önnur störf. Við flm. viljum afnema óbeinu launin, ágóðahlutann. Er ekki venja í þjóðbönkum, að bankastjórar njóti hans. Eru menn og að verða ásáttir um, að hið sama eigi að gilda í einkabönkum (privatbönkum). Er slíkt og best, því að það er aldrei rjett eða heppilegt, að menn taki hluta af ágóða, en hafi þó enga persónulega áhættu. Hitt þykir rjettara að hafa beinu launin há, en sleppa ágóðahlutanum. Föst laun bankastjóranna samkvæmt núgildandi lögum eru mjög lág og lítið eitt hærri en laun óbreyttra starfsmanna bankans. Þau eru 8700 kr. Er langt frá, að þessi laun nægi, einkum er þess er gætt, að starf þetta er mjög slitsamt og bankastjórar endast yfirleitt mjög illa. Verða þeir að hafa eitthvað, er þeir fara frá slitnir að kröftum og heilsu.

Hins vegar vil jeg, að horfið sje frá eftirlaunafyrirkomulaginu. Tel jeg heppilegra, að vel sje borgað meðan mennirnir eru við starfann.

Till. frv. um launakjör bókara og fjehirða bankans eru sniðnar eftir till. Landsbankastjóranna sjálfra, og eru flm. samþykkir þeim. En við viljum taka fram, að við teljum sjálfsagt, að aðstoðarfjehirðir njóti fullra aldursbóta nú þegar. Er hann einn af elstu starfsmönnum bankans og hefir auk þess oft tekið að sjer störf aðalfjehirðis og þess utan haft þetta starf með höndum í fleiri ár, áður en það var lögfest.

Vænti jeg svo, að frv. þessu verði vísað til fjhn., að umr. lokinni.