28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

80. mál, stofnun landsbanka

Eiríkur Einarsson:

Það skal eigi verða langt mál að þessu sinni hjá mjer; en jeg vildi neyta tækifærisins til að láta þá skoðun mína í ljós, að jeg álít brtt. háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) hafa mjög lítinn rjett á sjer eða engan. Þetta er hreint og beint sanngirnismál, að bankastjórar Landsbankans hafi laun, er sjeu í samræmi við laun samskonar starfsmanna við Íslandsbanka. Það situr og illa á bændum að vilja lækka laun Landsbankastjóranna, ef þeir þá annars nokkuð hugsa um sinnar eigin stjettar hag eða vilja efla þann lang elsta og blessunarríkasta atvinnuveg vorr, landbúnaðinn, því það er í hans þágu, að sem bestir menn starfi ávalt við þá einu stofnun, sem getur talist athvarf bænda og búnaðarmálanna, og á æfinlega að vera það, þjóðbankann. En hvað sem því líður, þá er Landsbankinn miklu minni „spekulations“-stofnun en Íslandsbanki, og því eiga fulltrúar atvinnuveganna sem best að tryggja hann og hlynna að honum, þar á meðal að tryggja honum bjargálna bankastjórn. (HK: Eru það bændur, sem hafa ákveðið laun Íslandsbankastjóranna?) Það eru fleiri, sem það hafa gert; jeg veit eigi betur en sá maður, sem æðstur er á þessu þingi, sem og hjá allri þjóðinni, forsætisráðherra, hafi þar ráðið miklu um. Og hefir háttv. þm. Barð. (HK) ásamt fleirum stutt þann mann til sætis, og ber því nokkra ábyrgð á embættisákvörðunum hans sem stjórnarstuðningsmaður.