28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

80. mál, stofnun landsbanka

Stefán Stefánsson:

Hv. 1. þm Reykv. (JakM) þótti kenna misskilnings hjá mjer, en svo er alls ekki, og þó jeg sje eigi bankafróður, þá sje jeg, að hjer er aðeins um ofureinfalt mál að ræða, sem sje upphæð launanna, er jeg vildi lækka. Um annað hefi jeg eigi rætt. Þar sem frsm. (JakM) taldi ágóðaþóknunina svo mikla, að eigi væri nema um 1 þús. kr. launahækkun að ræða samkvæmt frv., þá er þetta mjög svo villandi og í eðli sínu algerlega rangt. Þessi ágóðaþóknun fer eingöngu eftir því, hvernig rekstri bankans er farið árlega; ágóðaupphæðin hlýtur því að breytast samkvæmt því, hvort fjárhagur bankans blómgast, stendur í stað eða hnignar, og þótt ágóðahluti til hvers bankastjóra hafi máske einhverntíma orðið nær 5 þús. kr., þá vantar eigi að síður fyrst og fremst 4 þús. kr. upp á þá ákveðnu launahæð eftir frv. og þess utan alla dýrtíðaruppbót, sem gert er ráð fyrir, að geti numið 9 þús. kr. En gagnvart ágóðahluta þeim, sem nú er, má benda á ástæður Íslandsbanka nú undanfarið. Jeg held því enn fram, að það sje enginn misskilningur hjá mjer, að stöður við Íslandsbanka sjeu óvissari en við Landsbankann. Styð jeg þessa skoðun mína aðallega við lögin um Íslandsbanka, þar sem heimild hans nær aðeins til ársins 1933. Það er því enginn nú fær um að segja, hvernig um þann banka muni fara eftir þann tíma, þar sem leyfistíminn er þá á enda. Því endurtek jeg það, að það er alt öðru máli að gegna um stöður við Íslandsbanka en Landsbankann.

Þá hneykslaðist sami háttv. þm. á því, að jeg teldi launin ákveðin af hluthöfum bankans, og sagði það vera misskilning hjá mjer. Nú er það öllum vitanlegt, að fram til skamms tíma hafa hluthafar Íslandsbanka sent hingað sína eigin fulltrúa þess að mæta á bankaráðsfundum, og hvað er þá eðlilegra og sjálfsagðara en það, að þeir hafi mestu ráðið um það, hver laun þeirra eigin starfsmenn fengju, þar sem af þeirra fje var að mestu að taka? Mundi því ekki mega ætla, að eitthvert áframhald af sömu stefnu gæti enn átt sjer stað, sem þá komst inn fyrir tilverknað erlendra hluthafa? Það kann vel að vera, að fylsta rjettlæti sje í því, að laun manna við Landsbankann sjeu eigi lægri en við Íslandsbanka, eins og háttv. þm. Dala. (BJ) heldur fram, en sje gengið inn á þá braut hvað þessi embætti snertir, þá verður erfitt að forsvara gerðir þingsins gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins. En um þá hlið málsins hefi jeg ekki rætt og ætla ekki að gera það eða fara út í neinar einstakar samlíkingar; jeg held mjer aðeins við það, sem jeg tel vera fullsómasamleg laun, og því getur enginn neitað, að samkvæmt minni till. eru þau það í mesta máta. Að ákveða launin hærri er algert misrjetti gagnvart öðrum okkar starfsmönnum og langt um efni fram, ætti jafnt yfir alla að ganga.