28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Jakob Möller):

Það, sem jeg mundi sagt hafa viðvíkjandi ræðu háttv. samþm. míns, 2. þm. Reykv. (JB), hefir þegar verið tekið fram í ræðu háttv. þm. Dala. (BJ), sem hefir svarað flestu af því, og þarf jeg því ekki að sinna því frekar. En jeg vil taka það enn fram, að um laun bankastjóranna getur enginn ágreiningur verið; þau eru of lág. En háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) vil jeg svara því, að það gildir alveg það sama um bókara og fjehirða eins og bankastjóra. Það verður að velja til þeirra starfa þá bestu menn, sem kostur er á, alveg eins og bankastjórana, og launa vel, og þó að laun þeirra fari upp á móts við laun best launuðu embættismanna, þá sýnir það ekkert annað en það, hve laun opinberra starfsmanna ríkisins eru afskaplega lág. Ef þessa væri ekki gætt, mundi ekki geta haldist á hinum færustu mönnum í þessum stöðum. Laun þau, sem í frv. er farið fram á handa þessum starfsmönnum bankans, eru alveg samsvarandi launum starfsbræðra þeirra í Íslandsbanka. Að öðru leyti get jeg alveg fallist á hugleiðingar hv. samþm. míns (JB). En munurinn á aðstöðu starfsmanna bankans og embættismanna ríkisins er sá, að embættismennirnir hafa svo þröngt starfssvið; sjerþekking þeirra er bundin við störf, sem eingöngu ríkið þarf að láta vinna, og þess gjalda þeir.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) er ekki margt að segja, enda kom þar fátt nýtt fram. Þar sem hann segir, að hluthafar hafi ákveðið laun bankastjóranna, er það eitt hæft í því, að þeir hafa kosið 3 menn í bankaráðið, sem svo ræður fram úr þessum málum. En venjulega láta þessir þrár fulltrúar hluthafanna formann bankaráðsins fara með sín atkv.

Háttv. þm. (StSt) vildi gera lítið úr ágóðaþóknun bankastjóranna og hjelt því fram, að hún gæti ekki talist hluti af launum þeirra. En þóknunin er alls ekki svo lítil, eins og hún er nú ákveðin. Ef árságóði bankans nemur 300000 krónum, fær hver bankastjóranna 5000 kr., og hjá jafnstórum banka sem Landsbankanum er 300000 kr. ekki mikill ágóði. Þess er og að gæta, að þegar nokkur hluti launa bankastjóranna er ákveðinn hluti ársgróðans, getur það haft áhrif á það, hvernig reikningar bankans eru gerðir upp, og sjá allir, hve óheppilegt það er Þess vegna held jeg því fram, að sjálf sagt sje að hækka heldur launin og fella niður ágóðaþóknunina; þar er beinlínis um mikilsvert „princip“-atriði að ræða.