05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

80. mál, stofnun landsbanka

Jónas Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um frv. þetta áður en það verður afgreitt frá þinginu.

Það eina í því, sem skiftir nokkru máli, eru laun bankastjóranna, og það kom fram hjá einum háttv. þm. hjer í gær, að honum þætti hækkun launanna nokkuð mikil. Jeg get vel játað það, og jeg myndi ekki greiða atkvæði með þessari hækkun, ef ekki væru sjerstakar ástæður fyrir hendi. Eins og kunnugt er, hefir Íslandsbanki borgað bankastjórum sínum miklu hærri laun en bankastjórum Landsbankans hafa verið borguð. Hafa laun Íslandsbankastjóranna stundum orðið alt að 80 þús. krónur á ári. Á þessu hefir nú orðið breyting, er hinir tveir þjóðskipuðu bankastjórar komu inn í bankann. En eigi að síður hafa þeim verið ákveðin töluvert hærri laun en bankastjórum Landsbankans. Jeg get ekki sjeð, að hægt sje eða nein sanngirni sje í því að greiða bankastjórum Landsbankans lægri laun en hinum þjóðskipuðu bankastjórum Íslandsbanka, og greiði jeg því atkvæði með þessari launahækkun. En jeg tek það fram, að atkvæði mitt fellur með frv. af því, að búið er að ákveða bankastjórum Íslandsbanka svona há laun.