05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg vil aðeins mótmæla því, að rjett sje að bera laun bankastjóra Landsbankans saman við laun allra annara embættismanna ríkisins, því að engum nema þeim og hæstarjettardómurunum er bannað að hafa önnur störf á hendi, og þó, að því er hæstarjettardómarana snertir, ekki að öllu leyti, en hins vegar finst mjer illa viðeigandi, að þeir þurfi eða ætlast sje til að þeir þurfi að sinna öðrum störfum, og eru þeir því helst sambærilegir við bankastjórana í þessu tilliti. Sömuleiðis er ekki rjett að bera laun þeirra saman við laun Íslandsbankastjóranna, því að þeir hafa ágóðahluta af tekjum bankans, svo að laun þeirra hafa stundum orðið alt að 80 þús. kr. (SE: Sú tíð er liðin). Já, en hún getur komið aftur. En það hefir ekki þótt rjett að láta bankastjóra Landsbankans hafa þennan ágóðahluta, enda reynst illa annarsstaðar um ríkisbanka, Að öðru leyti viðurkenni jeg fúslega, að laun embættis- og starfsmanna ríkisins sjeu og hafi um mörg ár verið of lág.