05.05.1923
Efri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

80. mál, stofnun landsbanka

Jón Magnússon:

Þessi samanburður á launum bankastjóranna er ekki rjettur, ekki einu sinni hjá hæstv. forsrh. (SE), sem ætti að vera manna kunnugastur þessum málum. Eins og áður hefir verið sagt hjer frá, voru föst laun Eggerts Claessens ákveðin 20 þús. kr. Það var það hæsta En dýrtíðaruppbótin hefir algerlega verið og er á valdi bankaráðsins fyrir hvert ár fyrir sig. Því getur vel farið svo, að dýrtíðaruppbótin verði feld niður. En af því leiðir aftur, að komið getur til mála, að laun bankastjóra Landsbankans verði hærri en hinna. Hvað snertir ágóðahlutann, þá kom till. frá nefnd um að fella hann niður, en hafa launin aftur hærri. Í nefnd þessari var hæstarjettardómari Lárus H. Bjarnason og jeg ásamt þriðja manni. Við, Lárus H. Bjarnason og jeg, vorum sammála um þetta, en hinn þriðji maður vildi ekki fallast á það, og aðalfundur bankans ekki heldur, er þangað kom.

Annars skal jeg ekkert annað um málið tala, en verð þó að taka undir það með hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að samanburður á ríkisbanka og einkabanka er ekki rjettur, því að yfirleitt hafa þjóðbankastjórar lægri laun en bankastjórar við einkabanka, sem eru í miklu óvissari stöðum. Til dæmis hafa bankastjórar við þjóðbankann í Kaupmannahöfn haft miklu lægri laun en þeir, sem eru við hina stærri einkabanka. Það er mikill munur, hvort bankastjórarnir eru sem fastir embættismenn og eiga ekki á hættu að missa stöðuna þá og þegar, og ætti það fyllilega að vega upp á móti launamismuninum.