26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg skal fyrst í stuttu máli snúa mjer að formi frv. og tek það fram, að brtt. nefndarinnar hafa umsteypt frv. að formi til. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verða greinar frv. 5, en voru í frv. 2. Getur hv. deild treyst því, að breytingarnar eru rjett feldar inn í lögin og vel athugaðar af nefndinni. Jeg hefi og borið þær undir hv. flm. (BJ), og hefir hann ekki nema gott eitt um þœr að segja.

Sný jeg mjer þá að efnishlið málsins. Nefndin var öll sammála um það, að ranglátt væri að meina mönnum að greiða atkvæði sökum atvika, sem þeim væru ósjálfráð, eins og t. d. á sjer stað um elli og vanheilsu. Um sönnunina fyrir slíkum forföllum reyndist nefndinni erfiðara að koma sjer saman. Varð þó úr, að krafist skyldi læknisvottorðs í kaupstöðum og vottorðs læknis eða hreppstjóra annarsstaðar. Jeg fyrir mitt leyti hefði sætt mig við „vitni tveggja valinkunnra manna“. því það er vitanlegt, að oft getur verið erfitt að ná til læknis eða hreppstjóra En hins vegar þótti mjer ekki ástæða til þess að kljúfa nefndina fyrir þessar sakir; er meira vert um það, að frv. verður að teljast allmikil rjettarbót frá því, sem nú er.

Oss þótti rjettara, að lögin öðluðust gildi þegar í stað. Er með því trygt, að þau komi til greina við næstu kosningar, eins og jeg býst við, að hafi verið tilætlun hv. flm. Meira finn jeg ekki ástæðu til að taka fram að sinni.