26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Bjarni Jónsson:

Það var rjett hermt, að jeg er þakklátur nefndinni fyrir að laga frv. Jeg hafði, eins og jeg gat um áður, ekki nægan tíma til athugunar og undirbúnings frv., og tel jeg breytingarnar rjett feldar inn í lögin. Munurinn á frv. mínu og brtt. nefndarinnar er raunar ekki mikill, og tel jeg mig góðu bættan, ef frv. gengur fram eins og það er nú. Þó hefði jeg óskað, að mönnum hefði verið gert ljettara fyrir með að sanna forföll sín. Ætti það ekki að koma að sök, eins og hjer er háttað í sveitum, þó húsfreyjur eða húsbændur mættu gefa gömlum mönnum eða lasburða á heimili sínu vottorð, slík sem þessi. Vil jeg þó ekki gera þetta að kappsmáli og tel sæmilega rjettarbót að frv. eins og það er nú. En jeg á bágt með að þola, að nokkur bönd sjeu á rjettinum, og hefði því heldur kosið, að minkaðar væru hömlurnar á því, að menn fái notið hans, heldur en auknar.

Þá vil jeg minnast á það, að mjer finst enn þá vanta ákvæði í frv. um bæi, sem svo er í sveit komið, að mönnum þar er ekki kleift að sækja kjörfund. En svo er um ýmsa staði, t. d. ýmsar eyjar í Breiðafirði, sem mjer er vel kunnugt um. Er oft erfitt að manna bát til að sækja kjörfund og hafa þó nóg fólk heima fyrir til allrar búsgæslu. Þar sem svo er háttað, vil jeg, að fólk fái að kjósa heima. Má búa svo um þetta, að hættulaust verði. Mun jeg bera þetta undir nefndina og vona, að hún taki það til íhugunar.