26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Sveinn Ólafsson:

Jeg tek undir það með hv. flm. frv. (BJ), að mjer finst nefndin hafi gengið fulllangt í því að þrengja skilyrðin fyrir því, að menn fái notið kosningarrjettar síns. Flm. gerir ráð fyrir vottorði tveggja skilríkra manna, en nefndin krefst vottorðs hreppstjóra. Jeg fæ ekki sjeð, að með því væri fengin meiri trygging fyrir áreiðanleik forfallanna. Þar á ofan er mönnum gert erfiðara fyrir, því oft getur verið langt til hreppstjóra og ekki altaf hlaupið að því að ná til hans. Auk þess má gera ráð fyrir, að flest þessara vottorða verði gefin á kjörfundardegi, en þá mundi hreppstjórinn í flestum tilfellum vera staddur á kjörstað og störfum háður. Gæti hann þá ekki gefið vottorð eftir sjón og raun, og er hjer því tekið annari hendi það, sem veitt er með hinni. Því finst mjer rjettast, fyrst verið er að reyna að gefa öllum kjósendum tækifæri til að neyta kosningarrjettar síns, að binda þetta ekki þrengri skilyrðum, en halda sjer við ákvæðið í frv. flm. Mun jeg koma með brtt. í þá átt til 3. umr.