05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Jón Baldvinsson:

Jeg gat um það við 2. umr. þessa máls, — sem gengur út á að leyfa mönnum, sem ekki komast á kjörstað til kosninga, að neyta atkvæðisrjettar síns, — að ástæða væri til að koma fram með brtt. við frv. Ef setja á nú lög um þetta efni, finst mjer vanta í þau eitt þýðingarmikið ákvæði. Jeg hefi því samið brtt., sem er á leiðinni inn í þingsalinn. Hún gengur út á að leyfa mönnum að fá sjer aðstoð til að kjósa, sem ekki eru sjálfir færir til þess sökum sjóndepru, veikinda o. s. frv. Það er oft svo, að slíkir menn geta ekki neytt atkvæðis síns og merkt kjörseðil án aðstoðar, og verður því að koma í veg fyrir rjettindatap af þessum ástæðum.

Í kosningalögunum frá 1915 er gert ráð fyrir, að kjósendur, sem ekki geta greitt atkvæði vegna sjónleysis eða annarar líkamsbilunar, fái aðstoð til að merkja kjörseðilinn hjá einhverjum úr kjörstjórninni, sem hann tilnefnir. En með frv. þessu er þessum mönnum meinað að neyta kosningarrjettar síns, nema þeir komist á kjörstað. Og er þó mikil ástæða til að ætla, að þetta frv. sje meint sem rjettarbót fyrir slíka menn, sjerstaklega til sveita, þar sem erfitt er um ferðalög; kemur þetta því ekki að gagni, nema úr sje bætt. Og brtt. mín fer einmitt fram á það, að þeim mönnum, sem er svo ástatt fyrir, verði gefinn kostur á að láta aðra kjósa fyrir sig. Verði þessi heimild ekki veitt, koma rjettindin, sem lögin veita, ekki að hálfu gagni. En á því er minni brtt. ætlað að ráða bót.

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) talaði um það, að ef ákvæði eins og það, sem brtt. hv. þm. S.-M. (SvÓ) fer fram á, verði samþykt, mundu „agitatorar“ nota sjer það. Tók hann Reykjavík sjerstaklega til. Jeg býst nú við, að flokkarnir muni nokkuð „kontrollera“ hvern annan, svo jeg verð að telja þá mótbáru ekki sjerlega veigamikla.

Jeg er að vona, að mín brtt. sje nú á leiðinni inn í deildina, og er hún svo einföld og óbrotin, að háttv. þm. ætti ekki að verða skotaskuld úr því að átta sig á komi, þó tími sje stuttur til stefnu, og vona jeg, að þeir sjái, að hún er nauðsynleg rjettarbót, til að frv. komi að fullu gagni. Jeg hefi sett það ákvæði, að kjósendur tilnefni sjálfir menn til að kjósa fyrir sig, og sjeu þeir bundnir þagnarheiti. Ákvæðin eru samhljóða þeim, sem eru í núgildandi kosningalögum um það, þcgar menn þurfa aðstoðar á kjörstaðnum.