24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

139. mál, fjáraukalög 1923

Pjetur Ottesen:

Jeg á eina brtt. á þskj. 405, þar sem ríkisstjórinni er falið að innheimta hjá fyrverandi fjármálaráðherra þá upphæð, sem hann hefir ávísað sjer fyrir húsaleigu á Hótel Ísland. Þegar jeg afhenti þessa tillögu á skrifstofunni hafði mjer ekki borist fregnin um, að þessi ráðherra væri burtvikinn úr ráðherrasæti. En það skiftir nú ekki máli í þessu sambandi, hvort hann er áfram í ráðherrastöðu eða ekki, því að jafnrjettmætt og sjálfsagt er að innheimta þetta hvort sem er. Svo sem kunnugt er, var það upplýst og viðurkent af ráðherranum sjálfum við framhald 1.umr. fjárlaganna, að hann hefði gripið til þessarar upphæðar til að greiða húsaleigu í sínar þarfir á Hótel Ísland. Það er jafnkunnugt og vitanlegt, að það var í algerðu heimildarleysi gert að taka þetta fje og verja til þeirra þarfa, og á því að sjálfsögðu að endurgreiðast ríkissjóði.

Því verður ekki neitað, að slíkar aðfarir sem þessar eru þess eðlis, að með endurgreiðslu fjárins er í raun og veru ekki að fullu kvittað fyrir að fremja slíkan verknað, en það er vitanlega jafnsjálfsagt fyrir því að krefjast endurgreiðslu á fjenu, hvað sem því líður, hvort frekari aðgerða verður krafist í málinu. Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil fá atkvæði deildarmanna um þetta, og þykist jeg vita, að þau muni ekki falla nema á einn veg.

Jeg vil þá minnast lítillega á nokkur fleiri atriði. Háttv. fjvn. ber fram brtt. um að greiða 3000 kr. úr ríkissjóði af kostnaði við rannsókn Andakílsfossanna. Háttv. frsm. (MP) hefir gert grein fyrir þessum lið. Í fjáraukalögum fyrir 1921 var veitt fje til að greiða alt að helmingi kostnaðar við rannsókn þessara fossa, sem þá var fallinn á, og nam sú upphæð þá 5000 kr. Hv. frsm. (MP) gat um, að þessi rannsóknarkostnaður hefði farið töluvert fram úr áætlun. Það stafar aðallega af því, að verkfræðingar þeir, er stóðu fyrir framkvæmd á þessari rannsókn. Steingrímur Jónsson og Guðmundur Hlíðdal, hvöttu mjög til þess, þegar þeir höfðu kynt sjer málið og rannsakað alla aðstöðu, að fullnaðarrannsókn yrði gerð á öllu því vatnsafli, er þarna væri unt að ná. Þetta var meira verk en í fyrstu var hugað. En verkfræðingamir telja þetta svo mikið framtíðarmál, að sjálfsagt væri að fá fullnaðarrannsókn. Nú er sú rannsókn fengin og veldur hún því, að kostnaðurinn hefir orðið 6000 kr. meiri en gert var ráð fyrir, þegar fjeð var veitt 1921. Nú er farið fram á, að helmingurinn af þessari upphæð verði endurgreiddur úr ríkissjóði í samræmi við það, sem áður hefir verið gert í þessu máli.

Hæstv. atvrh. (KIJ) kom með upplýsingar, sem mjer voru mikið gleðiefni. Kvaðst hann hafa fengið vísbendingu um, að einhver tóvinnuverksmiðjueigandi á Englandi væri ef til vill fús á að leggja fram að einhverju leyti fje til að koma hjer á fót nýtísku klæðaverksmiðju. Fellur þetta vel saman, að á þessum hagfelda stað hefir þegar verið gerð fullkomin rannsókn á vatnsaflinu, sem er hvorki meira nje minna en 16–20 þúsund hagnýt hestöfl, ef það er alt virkjað, sem leiða mætti þennan verksmiðjuhöld að. Vænti jeg, að hæstv. atvrh. (KIJ) beini athygli hans að Andakílsfossunum.

Þá vildi jeg minnast lítið eitt á þá styrki, sem farið er fram á að veita sjúkum mönnum til utanfarar, til þess að leita sjer heilsubótar. Jeg hygg, að það hafi verið fyrst í fjáraukalögum fyrir 1920–21, sem gengið var inn á þá braut, að veita heilsubiluðum embættismönnum styrk til þess að leita sjer heilsubótar erlendis. Eftir 10. gr. fjáraukalaganna 1920–21 voru 3 mönnum veittar 22500 kr. í þessu skyni, þannig að þeir hjeldu fullum launum, en ríkissjóður greiddi fyrir rekstur embættanna. Á því þingi var töluverður uggur í mönnum að samþykkja þetta, því að með þessu væru opnaðar dyr, er fleiri mundu fara um. Nú hefir hæstv. forsrh. (SE) flutt brtt. um að veita einum embættismanni, Gísla sýslumanni Sveinssyni, sem líkt var ástatt um, samskonar styrk, þó að það sje eftir á. Jeg man ekki, hvort það var á því sama ári, sem hann fór utan, en jeg hygg, að það hafi verið um líkt leyti. Því er nú náttúrlega svo farið, úr því búið er að ganga inn á þessa braut, að það kemur fram argasta rangsleitni í því að neita einum um það, sem annar fær, þar sem eins stendur á, og svo væri það, ef Gísla Sveinssyni væri neitað nú. En brtt. sýnir, að þessi uggur, sem jeg gat um, ætlar að rætast. Nú er komið svo, að þessar styrkveitingar eru ekki miðaðar við beina starfsmenn ríkisins eingöngu, menn, sem ef til vill í þessu falli mætti segja um, að ríkissjóður hafi ríkari skyldur við en aðra, en jeg minnist þess, að því var haldið fram af þeim, sem stóðu fyrir að koma þessari fjárveitingu fram 1921, að svo bæri á að líta.

Hjer er komin fram brtt. um að veita kennara á Húsavík 2500 kr. styrk til utanfarar, til þess að leita sjer lækninga við sjóndepru.

Það er auðsætt, að slíkar fjárbeiðnir færast stöðugt í vöxt, og ef ekki er við gert, er ekki gott að segja, hvar það lendir. Jeg tel því ekki rjett að halda öllu lengra inn á þessa braut, því erfitt verður, eins og jeg tók áður fram, að gera upp á milli manna, ef einhverjum er veittur slíkur styrkur og eins eða líkt stendur á um þá, sem á eftir koma.

Þá er brtt. frá hæstv. forsrh. (SE) við 9. lið, þar sem gert er ráð fyrir að bæta íslenskum námsmönnum erlendis upp gengismuninn á fje því, sem þeim er sent til framfæris við námið. Nú vil jeg spyrja hæstv. ráðherra, hvort meiningin sje að bæta þeim upp gengismuninn á þeim styrk, sem þeir fá af opinberu fje, eða styrk frá aðstandendum sínum. (Forsrh. SE: Frá aðstandendum sínum). Þá gæti orðið erfitt, að mjer skilst, að fá fulla vissu fyrir um þær upphæðir, sem þeim þannig eru sendar, og hafa eftirlit með því, að gengismunurinn væri greiddur af þeim raunverulegu upphæðum. Jeg er því á móti þessu, en tel sanni nær að greiða þá heldur gengismun á því fje, sem mönnum, er stunda nám erlendis, er veitt í fjárlögum Gengismunurinn kemur auðvitað hart niður á þessum mönnum, en nokkur bót er þeim þó að því, að þeir missi einskis í við hann á styrk þeim, er þeir hafa í fjárlögum.

Jeg skal svo ekki tefja tímann frekar, en aðeins benda á, að svo fór, eins og vænta mátti, að það mundi leiða til ærna útgjalda fyrir ríkissjóðinn, að farið var að bera fram fjáraukalög fyrir þetta yfirstandandi ár, því nú munu þegar komnar fram tillögur til útgjalda á þeim, sem nema fullum 300 þús. kr., og á þó eftir að bætast mikið við, ef að líkum lætur. Þegar litið er nú til niðurstöðunnar, sem sennilega verður um afgreiðslu fjárlaganna nú, og svo skýrslu hæstv. atvinnumálaráðherra, sem hann gaf áðan um fjárhag ríkissjóðs nú, þá virðist furðu djarft teflt með útgjöldin, og á jeg þar sjer í lagi við þau útgjöld, styrki, bitlinga og því um líkt, sem að litlu eða engu raunverulegu gagni kemur, en nemur svo hundruðum þúsunda króna skiftir árlega; já, mjer virðist miklu djarfara teflt í þessu efni en skynsamlegt og fært er.