24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

139. mál, fjáraukalög 1923

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer brtt. við brtt. á þskj. 405, sem jeg vildi drepa lítið eitt á. Fyrri liður hennar lýtur að því, að Reykhólahjeraðsbúum sje veittur 250 króna styrkur til læknisvitjana árið 1922. Þannig stendur á um þessa brtt., að núverandi landlæknir hefir sagt, að hinn setti landlæknir, Guðmundur Hannesson, hafi lofað hjeraðsbúum styrk í þessu skyni. Að vísu nægir fjárhæð þessi hvergi nærri til þeirrar útgjaldaaukningar, sem hjer er um að ræða og hjeraðsbúar verða að leggja á sig. En sökum fjárhagserfiðleika ríkissjóðsins sá jeg mjer ekki fært að fara hærra en upp í 250 kr., því jeg vildi síst af öllu, að hægt væri að bregða mjer um eyðslusemi eða neina togstreitu fyrir mitt kjördæmi á þessu þingi. Ef aðrir þingmenn færu ekki lengra í fjárkröfum en jeg þykist hafa gert, þá mundu fjárlög og fjáraukalög líta öðruvísi út en raun mun á verða. Jeg skal taka það fram, að það er aðeins að kenna gleymsku minni, að ekki er líka tekið yfirstandandi ár, og mun jeg bæta því við við 3. umr. Vænti jeg þess, að hv. fjvn. fylgi þessum brtt. mínum einróma. Þessi fjárhæð er smáræði móts við það, sem sparast við að þurfa ekki að launa þarna sjerstakan lækni. Enginn skilji samt orð mín svo, að þetta verði svo til frambúðar. Þvert á móti mun þetta hjerað verða veitt undir eins og viðunandi maður sækir um það.

Þá er það brtt. um styrkinn til dr. Helga Pjeturss. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Hæfileikar þessa vísindamanns eru svo þjóðkunnir, að óþarft er að lýsa þeim hjer. Jeg skal aðeins geta þess, að háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) ber fram brtt., sem jeg vissi ekki af, og fer hún í sömu átt og brtt. mín. Býst jeg við, að hann mæli með henni, og get jeg því látið staðar numið hjer um það mál. Aðeins vil jeg taka það fram, að brtt. mín ætti að skoðast sem varatill. við þessa till. hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Jeg ætla svo ekki að fara neitt út í að ræða um brtt. annara háttv. þm., en vil aðeins geta þess, að jeg get tekið undir með háttv. þm. Borgf. (PO), að hjer virðast hafa verið opnaðar hlaupvíðar dyr, sem líka hafa verið notaðar. Mun jeg að öðru leyti sýna með atkvæði mínu, hvernig aðstaða mín er til hinna einstöku breytingartillagna.