25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

139. mál, fjáraukalög 1923

Eiríkur Einarsson:

Jeg skal taka það fram, viðvíkjandi brtt. frá hæstv. atvinnumálaráðherra, um styrk til ullariðriðnarnema, að mjer þykir vænt um, að veittur verði styrkur til þess að vinna að framgangi ullariðnaðarmálsins. En meira þarf en styrkja pilt til náms; málið þarf í heild sinni atfylgi þingsins og forgöngu stjórnarinnar. Jeg vænti, að hæstv. atvrh. (KIJ) svari fyrirspurn frá mjer um ullariðnaðannálið. (Atvrh. KIJ: Jeg er búinn að gefa út tilkynningu um það). Það gleður mig að heyra, að hæstv. ráðh. ætlar að svara henni. Jeg tek það fram, að jeg tel allan óþarfadrátt á að sinna þessu mikilsverða máli illan og óforsvaranlegan.

Þá eru nokkrar brtt. frá mjer, sem jeg vil minnast á. Um lán til Skeiðaáveitunnar hefi jeg áður rætt og bæti litlu við það, sem háttv. frsm. (MP) mintist á í gær. Fjvn. hefir lagt það til, að lán verði veitt til þessa fyrirtækis, sem á svo erfitt uppdráttar, og vona jeg, að því verði lofað að ganga fram til háttv. Ed. Hjer hefir verið farið fram á það minsta, sem hægt er að láta sjer nægja. Það var styrkur en ekki lán, sem beiðst var og þurfti, og er ilt, að þingið skuli ekki vilja sinna þeirri nauðsyn, en betra er lítið en ekkert, og mun betur sjást síðar, að hjer var ekki til of mikils mælst. En um það mun ekki tjá að deila.

Þá er brtt. frá fjvn., um styrk til bifreiðaferða austur yfir fjall; er jeg þakklátur fjvn. fyrir að hafa tekið þetta upp og háttv. samgmn. fyrir að hafa stutt það, enda þótt hún hafi fært þessa fjárveitingu nokkuð niður frá því, sem farið var fram á, og síst hefði veitt af, ef nokkru hefði átt að nema, en þetta er þó spor í rjetta átt. Vænti jeg, að þetta nái samþykki háttv. deildar og að háttv. þdm. líti á málið frá þeirri hlið, hversu lítils Sunnlendingar njóta af styrk þeim, sem veittur er til báta- og strandferða, og vona jeg, að hjer verði mjór mikils vísir. En af bátastyrknum hafa þeir lítil eða engin not. Jeg vil taka það fram, að til þess er ætlast, að bifreiðaferðirnar verði undir eftirliti stjórnarinnar og að hún ráði allri tilhögun ferðanna. Vil jeg skjóta því til hæstv. atvinnumálaráðherra, að þessa. ódýru ferðir verði hafðar sem tíðastar, þegar þörfin er mest, t. d. um lestaferðir vor og haust, þegar flutningur kaupafólks er mestur til og frá sveitunum. En um hásumarið mættu þær vera færi. Það hefir ekki verið tekið fram. hvort þessar ferðir ættu fremur að vera til vöru- eða fólksflutninga En á þessu stigi málsins geri jeg ráð fyrir, að aðallega sje átt við fólksflutninga.

Þá er síðast að minnast á brtt. um styrk til dr. Helga Pjeturss, sem tveir háttv. þm. flytja með mjer. Auk þess hefir háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) komið með brtt. um hærri styrk til handa þessum manni en við höfðum sjeð okkur fært að fara fram á. Jeg get upplýst það, að þessi maður er styrksþurfi, því að hann er gersnauður, og háttv. þm. geta vel staðið sig við að greiða fyrir honum, því það er kunnugt, að hugir fólks úti um land stefna mjög að því að sýna honum sóma og veita honum viðurkenningu fyrir margt, sem hann segir því ágætlega, ólíkt að efni og orðum því, er aðrir tala. En við, sem hjer sitjum, erum fyrst og fremst umboðsmenn þjóðarinnar, og er oss auðvitað skylt að taka nokkurt tillit til óska hennar. Og gott er oss til þess að vita, að víðs vegar að berast raddir um það, að styrkja beri þennan merka mann, því það sýnir, að enn þá á þjóðin hæfileika til að dást að því, sem fagurt er, og þá frjálsmannlegu hugsun, sem druknar ekki í pólitískum illdeilum og matarmálaþrasi.

Þá er innsiglingaleiðin á Stokkseyri, endurveiting, sem jeg býst við, að þingið telji sjálfsagða, enda er hún það. Þörfin brýn og hlutaðeigendur reiðubúnir að leggja mikið í sölurnar sjálfir.