25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins ein brtt., sem jeg á, undir tölulið XXI á þskj. 405. Og eins og menn sjá, þá er þar ekki farið fram á bein fjárframlög, heldur einungis endurgreiðslu á 2000 kr. til Guttorms Pálssonar á Hallormsstað, sem er eftirstöðvar af byggingarkostnaði hússins þar. Það vita allir, að Hallormsstaður er, sökum fegurðar sinnar, einhver mesti gersemi, sem ríkið á, og fjöldi manns sækir þangað á ári hverju til að skoða skóginn. Hann var girtur nálægt aldamótunum og jörðin tekin til bústaðar handa skógarverðinum. En jörðin, ásamt húsum þeim, sem á henni standa, er eign landsins. Þarna hefir lengi verið mjög fornfálegur sveitabær, með áföstu litlu timburhúsi, sem reist var fyrir nærfelt 50 árum og síðar hefir verið endurbætt. Var lengi reynt til þess að fá fje til þess að endurbæta húsið, en fjekst ekki fyr en árið 1921, og var þá timburhúsið endurbætt og gert íbúðarhæft, en jafnframt bætt við það búri, eldhúsi og þvottahúsi. Sigurður Björnsson trjesmiður á Seyðisfirði hafði áætlað kostnaðinn við þessa byggingu 5500 kr., og veitti stjórnin þá upphæð. En það kom brátt í ljós, að upphæðin hrökk ekki til að fullgera þessa endurbót, og tók skógarvörður að sjer í samráði við skógræktarstjóra að fullgera húsin. Fóru til þess 1500 kr. og auk þess málning á húsin fyrir 500 kr., eða alls 7500 kr. öll húsabótin. Það eru því 2000 kr., sem skógarvörður hefir orðið að greiða úr eigin vasa, og farið í því eftir óskum skógræktarstjóra, sem fullvissaði hann um endurgreiðslu á þessu fje, ef ekki eftir beinni fjárveitingu, þá af skógræktarfje; en til þessa hefir fjeð ekki fengist greitt. Skógarvörðurinn hefir því snúið sjer til þingsins um að fá þessa upphæð greidda, og vænti jeg þess, að háttv. þm. sjái, að hjer er um vitaskuld ríkissjóðs að ræða, sem óhjákvæmilegt er að greiða.

Aðra brtt. á jeg ekki, en hæstv. atvrh. (KIJ) skírskotaði til mín, er hann mælti fyrir tillögu sinni undir tölulið VIII. um vitana við Berufjörð. Fór jeg fram á við meðferð fjárlaganna fyrir 1924, að veittar yrðu til vitanna 5480 kr., eða með öðrum orðum, að greiddur yrði mismunurinn á fje því, sem til vitanna er lagt, og byggingarkostnaðinum eins og hann varð. Gerði jeg þá grein fyrir því, af hvaða óhöppum kostnaðaraukinn stafaði. Lá það, svo sem kunnugt er, í því, að flutningur á sementi til Berufjarðar, sem Eimskipafjelagið hafði lofað að annast á ákveðnum tíma, brást um margar vikur og tafði verkafólkið lengi. En fyrir þá skuld varð að byggja úr sementi, sem varð 7 kr. dýrara tunnan en ella hefði orðið. Auk þess tók vitamálastjóri þann upp að breyta ljóstækjum eins vitans og setja gasljósker í stað olíuljóskers, og nam kostnaðaraukinn af því. eftir sögn hans sjálfs, 1500–2000 krónum. Var þetta gert til að færa niður rekstrarkostnaðinn, því svo stendur á, að vitinn stendur langt frá mannabygðum og dýrt að senda þangað daglega. Að því er snertir þessar 5480 kr., þá verður eigi nákvæmlega hægt að sundurliða þær og sjá, hve mikið kynni að vera skylt að greiða af hjeraðinu og hve mikill hluti kostnaðaraukans stafar af áðurnefndu óhappi og ljóskeraskiftum. Eftir áliti vitamálastjóra liggja skiftin einhversstaðar á milli 3000 og 5000 kr. Þess vegna hefir hæstv. ráðherra, eftir samráði við mig og vitamálastjórn, farið fram á 4000 kr. greiðslu úr ríkissjóði, móti því að sýslan greiddi hitt. Eins og hæstv. ráðherra tók fram, er með þessu ekki verið að gera nokkurt hættulegt fordæmi, þar sem aðrir innsiglingarvitar hafa að fullu verið bygðir fyrir landsfje, en þessir mundu aðeins verða það í ca. 1/8.

Í þessu sambandi má og minnast á það, að þetta hjerað, Suður-Múlasýsla, hefir lagt mikið á sig til þess að gera siglingaleiðina örugga á þessari hættulegu leið fyrir strandferðir. Það er sem sje alkunnugt, að leiðin fram hjá Papey og Berufirði er ein sú allra varasamasta í strandferðum að hausti og vetri eða í dimmviðrum, og í raun og veru eini hættulegi staðurinn við Austurland. Skerjaklasi og grynnsli ná þar langt frá landi og enda við svo nefnt Geirfuglasker eða Hvalsbak. umflotinn stakan klett, sem liggur 8 sjómílur frá landi. Telja kunnugir menn líklegt, að þessi klettur hafi grandað mörgum þeirra skipa, sem týnst hafa á leið til Austfjarða eða þaðan, og nefna sumir svæðið kringum hann grafreit hafsins. En nú eru þarna komnir vitar, sem ekki aðeins gera strandsiglingarnar öruggari, en vara menn einnig við þessari gömlu óvætti. Og hjeraðið hefir fullnægt öllum skilyrðum, sem sett voru fyrir byggingu vitans, sem hjer ræðir um, og tekið þannig að sjer þunga byrði, hreint og beint í almennings þarfir. Þetta er aðeins lítil árjetting á ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), og get jeg verið honum mjög þakklátur fyrir. hvernig hann tók í málið.