25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sigurður Stefánsson:

* Jeg ætlaði að minnast á eina till. á þskj. 405 hjer í gær, en gleymdi því. Þessi brtt. er frá hæstv. atvrh. (KIJ) um aukastyrk til Breiðafjarðarbátsins Svans. Er mjer ekki ljóst, til hvers á að verja þessum styrk, þar sem hann getur ekki verið ætlaður til rekstrarkostnaðar bátsins, því að samgmn. hefir ætlað honum 10 þús. kr. til þess.

Er ætlunin líklega sú, að borga með þessu skuldir, er báturinn stendur í. Ef þetta er svo, þá held jeg, að hjer sje komið inn á hættulega braut. Bátur þessi mun hafa verið keyptur of háu verði og einstakir menn gengið svo í ábyrgð fyrir hann. Er auðvitað slæmt, að einstakir menn tapi, en hitt er þó verra, að landssjóður fari að borga skuldir einstakra manna. Get jeg ekki fundið, að það sje nein skylda fyrir þingið að fara að hlaupa undir bagga með þessum mönnum.

Í þessu sambandi vil jeg geta um Djúpbátsfjelag Ísfirðinga. Skuldir þess munu nú vera um 85 þús. kr. Nokkuð af þessu lendir á sýslufjelaginu og kaupstaðnum, ef fjelagið þrýtur, en auk þess standa einstakir menn í ábyrgðum fyrir 30 þús. krónum.

Neyðist jeg til, ef þessi styrkur verður samþyktur til Svans, að fara fram á það sama fyrir þetta fjelag.

En mjer sýnist, að það sje hin mesta ósvinna, að menn skuli leita til þingsins í svona erindum. Má hvorki þing nje stjórn láta það fá á sig, þótt hjeraðshöfðingjar komi hingað og knýi bæði á þing og stjórn að gera þetta.

Mun jeg, eins og jeg hefi áður tekið fram, neyðast til að koma fram með brtt. um styrk til Djúpbátsfjelagsins við 3. umr. fjáraukalagafrv., ef till. þessi verður nú samþykt.