25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Hv. þm. N.-Ísf. (SSt) beindi að mjer þeirri fyrirspurn, hvort ekki sje tilætlunin, að styrkur sá, sem jeg fer fram á að veittur sje Breiðafjarðarbátnum Svan, eigi að ganga upp í skuldir hans. Jú, það er meiningin, að svo verði. Stjórninni hefir verið tjáð, að fjárhagur fjelagsins sje í því öngþveiti, að það fái ekki lengur risið undir skuldunum. Eru sumir sýslunefndarmenn við Breiðafjörð orðnir persónulega ábyrgir fyrir skuldum fjelagsins, einungis sakir stöðu sinnar. Fyrst kom tillaga um 18000 króna styrk, en það varð að samkomulagi í háttv. fjvn., að veittar yrðu 16000 kr., 10000 í fjáraukalögunum og 6000 í fjárlögum næsta árs. Háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) áleit ekki skyldu þingsins að hlaupa undir bagga hjer í þessu tilfelli, því skuldirnar væru komnar sökum óhagsýni og fyrirhyggjuleysis fjelagsins, og það mundi draga dilk á eftir sjer. Ef svo væri, mundi jeg vera á sama máli og hann. En jeg álít, að svo sje ekki. Atvik geta legið svo til, að nauðsyn sje að leita til þingsins í svona tilfellum, og er honum að sjálfsögðu, sem elsta þingmanni nú, kunnugt um mörg slík tilfelli. Háttv. þm. (SSt) sagði, að líkt væri ástatt með Djúpbátinn; hann væri stórskuldugur, og að hann sæi sig tilneyddan að sækja um samskonar styrk handa honum, ef þessi verður samþyktur, enda þótt honum sje það óljúft. Jeg skil það vel, að hann sje tregur til þess, því að hann er kunnur að því að vera ekki ásælinn í fje handa sínu kjördæmi. En jeg get ekki sjeð, að hann sje neyddur til þess, ef hann álítur það ekki rjett. Jeg býst líka við, að þingið sýni fulla sanngirni, ef sömu ástæður mæla með styrkveitingu til þessa báts og til Svans.

Þá sný jeg máli mínu að ræðu háttv. frsm. (MP). Hann tók fyrst fram, að sjer þætti kynlegt, hvernig jeg hefði byrjað ræðu mína í gær. En jeg tók það beint fram, úr því stíflan hefði verið tekin úr, þá hefði stjórnin sjeð sig knúða til að bjarga sem mestu af fjenu til einhverra nauðsynlegra fyrirtækja, og að síðan hafi háttv. fjvn. riðið á vaðið.

Háttv. frsm. (MP) hjelt því fram, að jeg hefði með skýrslu minni málað fjárhagsástandið alt of svart. En jeg tók aðeins tölurnar eins og þær lágu fyrir. Tekjur ríkissjóðs þennan ársfjórðung eru altaf litlar, svo að ekki þarf að búast við breytingu til batnaðar fyrst um sinn. Og ríkisbókarinn, sem fengist hefir við það starf í mörg ár, segist oft hafa sjeð svart útlit með fjárhaginn, en aldrei sem nú. Það sje óhugsandi, að hægt sje að komast af, nema taka bráðabirgðalán með vorinu, sem borgast geti væntanlega upp í sumar. Fjárhagsástandið er ekki of svart litað, heldur mun svo reynast, að fjárhagurinn er enn erfiðari en menn gera sjer í hugarlund.

Þá mintist háttv. frsm. á einstaka liði. Um Svan þarf jeg ekki að ræða frekar; þar vorum við á sama máli, háttv. frsm. og jeg. Viðvíkjandi brtt. um að kaupa hús ásamt lóðarrjettindum, túni og girðingum við Garðskaga, þá er það kunnugt, eins og áður hefir verið tekið fram, að ýmsir vitaverðir hafa fría íbúð og lóðarrjettindi. Háttv. frsm. sagði, að núverandi vitavörður væri ráðinn með sömu kjörum og fyrirrennari hans. Það mun nú að vísu vera rjett, en launin eru lág, og auk þess fordæmi frá öðrum vitum, svo að þetta er ekki nema sanngjarnt, enda hefir vitamálastjóri mælt með því, og hann álítur vel viðeigandi, að ríkið kaupi húsið, sökum þess að í því sje einnig fólgin viðurkenning gagnvart erfingjum fyrverandi vitavarðar. Annars legg jeg ekki mikið kapp á þennan lið.

Þá kem jeg að feitasta stykkinu, fjárveitingu til vitabygginga, vegna gengismunar, 75000 kr. Hjá þessu var ekki unt að komast. Háttv. frsm. (MP) þótti undarlegt, að þetta skyldi ekki koma í fjáraukalögin 1922. En það er ekki von til þess, að það kæmi þar, því það er ekki búið að borga þetta enn, og mjer var ókunnugt um þessa upphæð til skamms tíma. Þetta fór í milli fjármálaráðherra og vitamálastjóra, og skýrði hann mjer nýlega frá því. Er það því ekki mjer að kenna, þótt það sje ekki fyr fram komið.

Jeg gat þess í ræðu minni í gær, að jeg gæti fallið frá því, að veitt yrði fje til endurbyggingar sjómannaskýlis á Kálfafellsmelum í ár, þótt skýlið sje mjög ljelegt. En mjer skildist á hv. frsm. (MP), að hann hefði það eftir vitamálastjóra, að húsið væri vel stæðilegt. Jeg get ekki sagt neitt um þetta hús af eigin þekkingu, en vitamálastjóri skýrir svo frá því skriflega, að húsið sje svo ljelegt, að það geti fokið hvenœr sem er; svo þetta er beint ofan í ummæli háttv. frsm. (MP). Það er þó ekki útilokað, að það geti lafað eitthvað, og því get jeg fallist á, að það sje látið bíða eitt ár enn. En stauraraðirnar og sjómerkin er bráð nauðsyn til að sett sjeu nú þegar.

Háttv. frsm. (MP) þótti styrkurinn til Þorvalds Árnasonar alt of hár. Jeg skal viðurkenna, að mjer þykir hann einnig nokkuð hár, en jeg þykist vita, að hann megi ekki vera minni, ef hann á að koma að notum. Þorvaldur skrifar, að hann komist ekki af með minni styrk, ef hann eigi að ljúka námi, og að hann hafi ekki í önnur hús að venda, til þess að fá fje. því að hann eigi enga vini eða vandamenn, er geti styrkt hann til fulls. Þessi maður er búinn að vera lengi við nám og hefir þegar lokið mjög góðu prófi í London. Finst mjer því sjálfsagt að veita honum annaðhvort svo mikinn styrk, að hann geti lokið námi, eða þá alls ekki neitt. Þar sem háttv. frsm. (MP) hjelt því fram, að með þessu væri slegið föstu, að stofnuð yrði heljarmikil ullarverksmiðja, þá er auðvitað alls ekkert ákveðið með þessari styrkveitingu. En hins vegar virðist mjer alt stefna að því, að þess verði ekki langt að bíða, að slík verksmiðja komist hjer á fót, og að ekki líði mörg þing áður til slíkra framkvæmda komi. Er þá gott að hafa færan íslenskan mann við hendina, sem veitt gæti verksmiðjunni forstöðu.

Þá talaði háttv. frsm. (MP) að lokum um það, að það hefði frekar átt að vera stjórnin en háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem kæmi fram með brtt. viðvíkjandi greiðslu á eftirstöðvum byggingarkostnaðar á Hallormsstað. Jeg álít, að mjer hafi ekki borið nein skylda til þess, heldur þvert á móti. Fylgi jeg þar þeirri góðu reglu, sem fylgt hefir verið undanfarið, að ein stjórn ónýti ekki það, sem önnur eldri hefir ákveðið. Guttormur Pálsson skrifaði upphaflega til stjórnarinnar og fór fram á 5500 króna styrk til byggingar á Hallormsstað. Var það eftir sundurliðaðri áætlun Sigurðar Björnssonar trjesmiðs á Seyðisfirði. Var þetta borið undir Jóhann Kristjánsson húsagerðarmeistara og samþykt af honum, og fjelst stjórnin þá á að veita þennan styrk. Seinna kemur skeyti frá Guttormi, þar sem hann fer fram á, að veittar verði 2000 krónur í viðbót. Á þetta skeyti er skrifað af stjórninni: „Þessu neitað“. Eftir að jeg varð ráðherra hafa engin skeyti eða tilmæli borist til stjórnarinnar, svo jeg viti til, og því engin ástæða fyrir mig að taka þetta upp.

Jeg hefi þá minst á þau atriði, sem mig snerta. En jeg ætla þá að ganga lítið eitt út fyrir minn verkahring, ef jeg mætti komast svo að orði, og minnast á brtt. XV á þskj. 405. frá minni hluta fjvn., um styrk til hljóðfæraskólans í Reykjavík. 1000 krónur. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, hefir verið komið hjer á stofn hljóðfæraskóla, fyrir mikinn og lofsverðan áhuga nokkurra, manna hjer í bæ. Hefir nú verið fenginn þýskur kennari til skólans, sem hefir komið mjög góðu lagi á hann, svo að hljóðfæraflokkurinn hefir tekið miklum framförum og eflst mjög, ekki einungis að mannfjölda, svo að þeir eru nú yfir 20, í stað 7 eða 9 áður, heldur eru einnig hljóðfærin miklu margbreyttari en áður var. Þeir, sem stunda þetta, eru flestir fátækir iðnaðar- og skrifstofumenn, sem gera þetta í tómstundum sínum. Hafa þeir nýlega komið sjer upp húsi til æfinga og fengið til þess fría lóð, en eru illa staddir fjárhagslega. Þarf jeg ekki að taka fram, hve holl og hressandi áhrif góð sönglist hefir, og mun hennar síst vanþörf í þessu landi. Þykir mjer því rjett, að landið leggi eitthvað af mörkum til þessa skóla, og leggur Reykjavík væntanlega sinn skerf til hans. Af þessum orsökum mæli jeg með því, að þessi styrkur verði veittur.