25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Sigurðsson:

Jeg get haft nokkuð annan formála fyrir minni ræðu en sumir hv. þm. hafa haft undanfarið, því að jeg á enga brtt., og get því talið mig í hópi þeirra fáu hamingjusömu manna, sem þannig er ástatt með. Jeg verð þó að minnast á nokkur atriði í fjáraukalagafrv., til þess að gera grein fyrir mínu atkvæði, þar eð jeg hefi að nokkru leyti sjerstöðu í fjvn. Enn fremur voru það nokkur atriði, sem hv. frsm. (MP) hefir gengið fram hjá og í mínum augum eru ekki óveruleg atriði.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að því, sem hæstv. forsrh. (SE) mintist á viðvíkjandi styrk til námsmanna erlendis og gengismun, sem þeim skyldi greiddur vera af öllum fjársendingum hjeðan heiman að. Eftir því sem jeg best veit, og samkvæmt þeim upplýsingum, sem stjórnin hefir gefið, hafa íslenskir námsmenn erlendis fengið alla námsstyrki úr ríkissjóði greidda í dönskum krónum, þ. e. ríkissjóður borgað gengismuninn, svo að námsstyrkurinn hefir þess vegna orðið mun hærri en fjárlögin heimila. En það er ekki einu sinni látið staðar numið við þetta, heldur á nú ríkissjóður, samkvæmt tillögunni, að borga líka gengismuninn á því fje, er námsmenn, stúdentar, fá frá vandamönnum sínum. En hjer er of langt gengið. Það má t. d. benda á, að það er vafasamt, hvort hægt sje að nema staðar við stúdenta eina. Ýmsir aðrir en þeir, sem eru útskrifaðir af mentaskólanum, stunda nú nám erlendis, sem er engu síður mikilsvert, eða jafnvel margfalt þýðingarmeira; svo er um verklegt nám, ýmiskonar nám við búnaðarháskóla o. fl., en þeir menn þurfa ekki stúdentspróf til framhaldsnáms. Mjer sýnist, að hjer sje verið að opna svo víðar dyr og stofna til svo verulegs útgjaldaauka, að jeg vona, að háttv. þm. athugi það í tíma. Rjettast þætti mjer, úr því sem komið er, að það væri staðar numið við það, að ríkissjóður greiddi námsstyrkina í fjárlögunum í dönskum krónum; hygg, að námsmenn okkar megi við það una.

Hjer liggur sömuleiðis fyrir tillaga frá hæstv. forsrh. (SE),um að veita ákveðna upphæð, mig minnir 7500 krónur, til að senda fulltrúa á fundi erlendis. Taldi hann, að um þetta myndu sækja sjálfsagt 9–10 menn (Forsrh. SE: Jafnvel fleiri.) eða fleiri, en þó þar með taldir allir, sem gætu komið til mála. Einnig taldi hann þetta brýna þörf. Jeg er nú farinn að þekkja þetta orðatiltæki, þegar verið er að sækja um fje til þingsins: það heyrist í hverju máli. En mjer verður fyrst fyrir að spyrja: Hver hefir árangurinn orðið af sendiferðum þeim, sem þegar eru farnar? Síðan jeg kom á þing hefir árlega verið veitt fleirum eða færri fje til utan fara á ýmsa fundi erlendis, en jeg hefi ekki orðið var við, að af þeim hafi orðið nokkur árangur. Meira að segja man jeg ekki til þess, að einn einasti hafi gefið opinbera skýrslu um ferðir sínar, en það virðist þó vera það fyrsta og minsta, sem slíkir menn ættu að gera. Mjer virðist ástæða til að ætla, að allar þessar utanferðir sjeu miklu frekar skemtiferðir fyrir einstaka menn heldur en nauðsynjaferðir. Þess vegna greiði jeg óhikað atkvæði á móti þessari tillögu.

Þá er það 3. liður, sem er enn fremur borinn fram af hæstv. forsrh. (SE), og er um styrk til orðabókar Sigfúsar bókavarðar Blöndals. Af plöggum þeim, sem legið hafa fyrir fjárveitinganefndinni virðist það fulltrygt, að orðabókin geti komist út og verði seld með hæfilegu verði, ef með hana er farið á venjulegan hátt, það er útgáfurjetturinn seldur í hendur forlagi, sem ber svo allan kostnað af útgáfunni. En höfundarnir hafa í stað þess fundið upp á því að láta orðabókina kosta sína eigin útgáfu. Þessi 15 þús. kr. styrkur er því ekkert annað en að leggja í sjóð til þess að halda slíkum málfræðirannsóknum áfram. En hverjum er þetta skyldast? Jeg hefi litið svo á, að orðabókin væri ekki samin handa Íslendingum, heldur fyrst og fremst handa Dönum. Jeg veit um orðabækur, svipaðar þessari, sem gefnar hafa verið út á erlendum tungum án nokkurs stuðnings frá Íslendinga hálfu. Þær þjóðir, sem slíkt hafa gert, hafa ekki sótt um styrk í þeirra þágu til okkar. Mje? virðist því málið þannig vaxið, að Dönum beri fyrst og fremst að kosta verkið, því með því er unnið mikið í hag hinnar dönsku þjóðar og danskra bókmenta. Tilboð Dana um 25 þús. króna styrk til orðabókarinnar, ef við leggjum fram 15 þús. á móti, er vitanlega ekkert annað en kænleg tilraun til að pressa út úr okkur fje, enda er þetta tilboð notað óspart af stuðningsmönnum þessa máls til þess að knýja menn til fylgis því. Þess ber líka að gæta, að við erum að vinna að orðabókarstarfi hjer heima fyrir sem krefst mikils fjár, og þótt jeg hafi ekki verið í tölu þeirra, sem barist hafa fyrir orðabókarstyrknum til Jóhannesar Lynge, þá tel jeg þó miklu nær að styðja fyrst þá starfsemi hjer heima fyrir, áður en menn fari að seilast lengra. Jeg mun því greiða atkvæði móti þessari tillögu.

Þá langar mig til að gera eina fyrirspurn til hæstv. atvrh. (KIJ) um, hvernig það er með innkaup þau, er vitamálastjóri hefir gert á efni til vitabygginga, hvort hann leiti jafnan til Svíþjóðar með þau. Tillögur stjórnarinnar bera það með sjer, að 75 þús. kr. hafa farið eingöngu í gengismun, vegna þess að vitamálastjóri, undir umsjón stjórnarinnar, hefir keypt áhöld til vitanna í Svíþjóð, en sænsk króna hefir lengi jafngilt 1 kr. og 60 au. íslenskum; það sýnist lítil hagsýni í slíkum kaupum. þegar hringinn í kring um okkur eru lönd, sem hafa lægra gengi, jafnvel miklu lægra en við, t. d. Þýskaland, svo ef til vill hefði alveg mátt spara landinu þennan gengismun; en 75 þús. eru þó enginn smáskildingur. Það er að minsta kosti alveg óverjandi, að slíku haldi áfram. úr því að bæði þing og stjórn eru búin að reka sig á, án þess að reynt verði annarsstaðar fyrir sjer. Vitanlega þýði ekki að sakast um orðinn hlut, en þetta er svo stór upphæð, að sú spurning hlýtur að vakna, hvort ekki sje hægt að festa hagkvæmari kaup annarsstaðar.

Þá er ein brtt enn, sem í raun og veru er enginn nýr gestur, en samt hefir mjer og sjálfsagt mörgum öðrum ekki dottið í hug, að hún næði fram að ganga. Það er uppbót á launum símafólks hjer í Reykjavík, rúmlega 17 þús. krónur, sem háttv. 2. þm. Árn. (ÞorlG) talaði svo fagurlega um. Mjer kom þessi brtt. á óvart, því að fyrir eitthvað viku var felt frv. í deildinni, er gekk út á það að greiða starfsmönnum ríkisins hjer í Reykjavík 15% aukalega dýrtíðaruppbót, og tók þessi uppbót einnig til símafólksins. En frv. þetta var felt með yfirgnæfandi meiri hluta, og var jeg einn í tölu þeirra, er það gerðu. En hvað skeður svo? Fám dögum seinna er svo samþykt tillaga, er fer í þá átt, að tekinn sje einn flokkur manna út úr heildinni, þ. e. símafólkið, og honum gert það hærra undir höfði en öðrum, að honum sje veitt jafnhá uppbót og þetta. Mun hún nema sem næst 1/5, af allri dýrtíðaruppbótinni, eftir því sem nefndin áætlar. Jeg var einn þeirra, sem greiddu atkv. móti frv., og enn þá síður get jeg greitt atkv. með þessari brtt., því hún er til þess eins að skapa misrjetti og greiða götu kröfum um launabætur frá öðrum starfsmönnum ríkisins á næsta þingi. Háttv. þm. Borgf. (PO) mintist lítillega á sjúkrastyrk til einstakra manna, og er þar skemst frá að segja, að jeg verð á móti öllum þeim styrkveitingum. Nú er jafnvel gengið svo langt, að bornar eru fram tillögur um sjúkra- og utanfararstyrki til einstakra manna, sem jafnvel hafa ekki verið einn einasta dag; þjónustu þess. opinbera, og þótt jeg hafi ávalt verið andvígur þessum sjúkrastyrkjum, þá blandast mjer ekki hugur um, að það er þó nær lagi að styrkja starfandi embættismenn; ríkinu ber frekar skylda til þess heldur en að styrkja fólk, sem aldrei hefir verið í þess þjónustu. Með þessu er verið að skapa fordæmi, sem örðugt er að fullyrða um, hve mikið tjón getur leitt af sjer; sennilegast, að endirinn mundi verða sá, að á landssjóði lenti öll fátækraframfærsla. Að lokum vildi jeg spyrja hæstv. atvrh. (KIJ), hvernig því sje háttað, þegar ríkissjóður lætur byggja yfir skógarverðina, hvort þeir sæti hagstæðari kjörum en sveitaprestar, eða sjeu látnir borga vissan hundraðshluta af því, sem byggingin kostaði, eins og prestum er ætlað að gera. Það er ekki nein ástæða til að setja þessa menn skör hærra en sveitapresta, þar eð þeir hafa jafnt jarðir sem þeir til afnota. Að endingu skal jeg geta þess um tillöguna um að kaupa handrit prófessors Jóns J. Aðils, að þótt ástæða væri til þess, sem jeg dreg þó mjög í efa, þá sje jeg ekki, að því bráðliggi svo á, að það þurfi að standa í fjáraukalögum. Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um hinar einstöku tillögur, sem fyrir liggja, þótt jeg sje þeim flestum andvígur, en mun láta mjer nægja að sýna með atkvæði mínu, hverrar skoðunar jeg er um hverja einstaka þeirra.