08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Kristjánsson:

Um þetta frv. eru nú þegar orðnar langar umræður og því varla fært við að bæta. Þó sje jeg mig knúðan til að fara um það og brtt. við það nokkrum orðum.

Allir eru sammála um það, að sú endurskoðun, sem nú á fram að fara á lögunum, sje aðeins til bráðabirgða, Því mætti búast við, að aukaatriði og smábreytingar mundu eigi verða gerð að kappsmáli, en þó lítur nú svo út, sem til þess muni draga.

Þetta frv. er, eins og jeg drap á, aðeins til bráðabirgða, til 1 eða 2 ára. Þó eru komnar fram brtt. á fimm þingskjölumm og þær allólíkar. Vorkunn er það þótt almenningur átti sig eigi strax á þessu moldviðri, en búast mætti við, að það væri eigi eins erfitt fyrir hv. þm., en umræður sýna þó, að dómgreindin er farin að sljóvgast hjá sumum og að þeir mæla eigi það, er við rök hefir að styðjast. Þess vegna get jeg eigi komist hjá að minnast lítið eitt á hinar ýmsu brtt. og meðmæli þau, er þeim fylgja.

Eins og kunnugt er, var það ákveðið áður, að skattalögin skyldu vera endurskoðuð á þessu þingi, og fyrir því er þetta stj.frv. fram komið. Stjórnin virðist hjer hafa farið þann meðalveg, er allir ættu að geta verið ásáttir um.

Sökum þess, að brtt. hafa, þó komið, verður að athuga, hvort þær sjeu til bóta, og þá hver þeirra muni vera almenningi hagfeldust.

Fyrst er þá að athuga brtt. á þskj. 67: hún á talsvert skylt við till. á þskj. 54, en sá er þó munur á þeim, að flm. brtt. á þskj. 67 viðurkennir, í hvaða átt þær till. fara, og er það virðingarvert að vera eigi að reyna að skreyta sig með fölskum fjöðrum, svo sem meiri hl. nefndarinnar gerir á þskj. 54. Þeir eru að reyna að halda því fram, að þeir fari í aðra stefnu, enda þótt þeir fari í raun og veru í sömu átt, en ganga einungis lengra og koma með víðtækari till. til hins lakara. Jeg ætla þá að bera þessar tvennar brtt. saman við stj.frv.

Í stj.frv. er gert ráð fyrir því, að greiða skuli af 3000–4000 kr. 20 kr. af 3000 og 2% af afgangi: af 3500 kr. yrðu þetta þá 30 krónur. Í brtt. hv. 3 þm Reykv. (JÞ) verður skattur af sömu upphæð 50 kr., Þ. e. 35 kr. af 3000 kr. og 3% af afgangi. Sama er þótt maður taki fleiri dæmi neðar í stiganum. Þessi till. er því fram komin til þess að hækka skattinn á þeim, sem lægstar hafa tekjurnar, en lækka hann aftur á móti á hinum hærri, svo sem sjá má, ef brtt. er borin saman við stj.frv., eftir að tekjurnar eru farnar að hækka að ráði. Samkvæmt stj.frv. skal greiða af 100000 króna tekjum til 150000 21120 kr. af 100000 krónum og 29% af afgangi. Af 140000 króna tekjum yrðu þetta 32720 kr. Af sömu upphæð ætti samkvæmt brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) að greiða einungis 19585 kr. Má glögt sjá af þessum dæmum, að brtt. þessi er einungis fram komin af hlífð við þá, sem miklar tekjur hafa, og á sú hlífð að verða á kostnað hinna fátækari.

Sje jeg þá ekki ástæðu til að minnast frekar á brtt. á þskj. 67, en sný mjer þá að brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 54. Get jeg verið stuttorður um þær, sökum þess, að jeg hefi áður um þær talað. Flm. brtt. hafa reynt að færa fram dæmi til þess að sanna, að brtt. gengi út á að lækka skatt á lægri gjaldendum; hafa þeir leitað alt uppi, sem til stuðnings gæti orðið þeirra máli, en lítið orðið ágengt. Sjerstaklega hafa þeir hampað því dæmi, að einhleypur maður með 900 kr. tekjur yrði skattfrjáls, en öldruð hjón með 1000 kr. tekjur yrðu að greiða 5 krónur. Auðvitað er þessi tala, eins og annað hjá þeim, gripin úr lausu lofti, og fjarri því, að líkindi sjeu til, að þetta komi fyrir. Þá mætti alveg eins snúa dæminu við og segja, að einhleypur maður með 1000 kr. tekjur greiði 5 kr., en öldruð hjón með 900 kr. tekjur ekkert. Það er ómögulegt að gera fyrirfram ráð fyrir öllum slíkum hugsanlegum tilfellum. Þá get jeg og nefnt annað dæmi. Setjum svo, að hjón með tveim börnum á framfæri hafi 2500 kr. tekjur. Þá koma 500 kr. til skatts samkvæmt till. meiri hl. (Dregur frá 1000 kr. fyrir hjónin og 500 kr. fyrir hvort barn). Af þessum 500 kr. á að greiða 0.80%, og verða það 4 krónur. Hjón með 1900 kr. tekjur mundu eiga að greiða kr. 4.50 samkvæmt brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Það er 1000 kr. frádráttur og 1/2 af 900 krónum. Þetta er alt hófatildur út í loftið, en sýnir þó glögt, hvernig straumar liggja: þrátt fyrir þennan 1000 kr. frádrátt er stefnan augljós. Hið eina skynsamlega, sem háttv. deild gæti gert, er það að samþykkja till. minni hl., sem eru langaðgengilegastar, svo sem vænta mátti af þeim mönnum, er að þeim standa. Hv. meiri hl. nefndarinnar og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafa þó orðið að virða það við minni hl. að hann teygði sig svo langt að leggja til, að 2. málsgr. 3. gr. frv. falli burtu. Á þessu sjest, að minni hl. starfaði með hagsmuni alls fjöldans fyrir augum og að hann gekk eins langt í samkomulagsáttina og mögulegt var. Hefir hann leitað nákvæmlega eftir því, sem skynsamlegt kynni að vera í till. meiri hl., og það, sem hann hefir rekist á, vill hann styðja, til dæmis það, að aukaútsvör verði dregin frá hinum skattskyldu tekjum. Ef meiri hl. vildi fara að á sama hátt, gæti svo farið, að við mættumst á miðri leið og fyndum þann samkomulagsgrundvöll, sem báðir mættu vel við una.

Jeg skal einnig geta þess, að jeg hefi verið að velta því fyrir mjer, hvort ekki væri tiltækilegt að fallast á 2. brtt. á þskj. 67. um það, að tekju- og eignarskattur komi einnig til frádráttar, en að svo komnu þori jeg ekki að ganga inn á þá braut. Jeg tel varla fært að fara lengra að sinni en að draga útsvörin frá; en ef það reyndist vel, mætti taka upp þessa stefnu við næstu endurskoðun laganna.

Það er því ætlun minni hl. að halda fast við till. sínar, en hann hefir þó gengið svo langt að aðhyllast þessar till. meiri hl., sem jeg hefi nú minst á. Vona jeg, að allir sjái, að þetta er hin besta og heppilegasta leið til þess, að endurskoðunin fari vel úr hendi.

Þá skal jeg drepa á brtt. á þskj. 73. frá hv. 2. þm. Reykv. (JB). Frá mínu sjónarmiði er hún að líkindum sanngjarnasta till., sem fram hefir komið við þessa umr., en eftir þeim stefnum, sem hjer virðast ríkja, mun hún dauðadæmd fyrirfram, því að svo er um marga menn hjer, að þeim þykir mest á ríða að pína skatta og skyldur út úr þeim, sem varla geta dregið fram lífið, vegna þess að tekjur þeirra eru svo litlar. Jeg skal í þessu sambandi skýra frá, hvernig ein af fremstu menningarþjóðum heimsins hefir komið þessu fyrir, og sýnir það ljóslega, að þessi till. er ekki fjarri sanni. Í Englandi er þannig talið fram, að hver heimilisfaðir má draga frá tekjum sínum 150 sterlingspund fyrir sjálfan sig. 50 pund fyrir konu sína og 50 pund fyrir hvert barn. Ef tekin er sem dæmi fjölskylda með 2 börnum. verður frádrátturinn fyrir hana 300 pund, er samsvarar sem næst 6000 kr. Ætli ekki heyrðust einhver voðaóp hjer í hv. deild, ef einhverjum kæmi til hugar að bera fram till. um jafnháan frádrátt. Þó að það væri í raun og veru rjettmætt og sjálfsagt frá sjónarmiði mannúðarinnar. Þetta fyrirkomulag, er menn lofa hjer hástöfum, er sniðið eftir skattalögum Dana og Svía, en jeg hygg, að í þessu efni yrði sanngjarnara og mannúðlegra að fylgja dæmi Englendinga. Hitt er nápínuskapur að elta menn með skatt niður í 500 kr. tekjur, sem ekki hrekkur að hálfu leyti til fæðis, húsnæðis og annara þarfa. Það er hin mesta fjarstæða að elta fyrirkomulag Dana og Svía í þessu efni, enda hefir það komið í ljós, að fjárhagsmál þeirra hafa komist í öngþveiti eftir ófriðinn. einkum Dana. Því að meðhald með stóreignamönnum hefir leitt menn svo langt í Danmörku, að ekki verður enn sjeð, hvar það muni lenda, og hefir efnamönnum og stóratvinnurekendum þar mjög verið hlíft við sköttum. Við síðustu stjórnarskifti þar í landi lá t. d. sú spurning fyrir, hvort sleppa ætti öllum verslunarhömlum, og var þá horfið frá því ráði að hafa nokkur höft á verslun landsins út á við. Afleiðingarnar urðu þær, að atvinnuvegir þjóðarinnar komust í niðurníðslu og fjárhagsástandið varð afarbágborið vegna kaupgræðgi manna á útlendar vörur. En þessi hugmynd um verslunarhömlur er nú að koma upp aftur. Þær hömlur áttu við 1919 og 1920, en nú hljóta þær að verða gagnslitlar um langan tíma, því að frá því að þær voru feldar úr gildi hefir verið eyðilagður sá grundvöllur, er áður hafði verið lagður.

Þetta hefir að vísu verið alllangur útúrdúr og nokkuð utan við efnið, en jeg hygg, að þetta muni færa mönnum heim sanninn um, að vjer eigum ekki að taka Dani til fyrirmyndar í þessum málum. Annars skal jeg ekki tefja háttv. deild frekar að svo komnu, en mun ef til vill taka aftur til máls. ef mjer er gefið tilefni til þess.