25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Jeg vil þakka ýmsum mönnum fyrir góðar undirtektir undir sumar brtt. mínar, og þá fyrst og fremst háttv. frsm. (MP) fyrir það, hve vel hann tók í brtt. á þskj. 405.V. Jeg vil leggja áherslu á það, sem jeg tók fram í fyrri ræðu minni, að jeg tel það illa farið, ef menn ljetu það nokkuð ráða um atkvæði sitt um styrkinn til Páls Vigfússonar. hvernig þeir líta á afstöðu hans til Vífilsstaðamálsins svonefnda. Jeg flyt ekki þessa tillögu í neinu sambandi við það mál. Jeg hefi áður haft persónuleg kynni af hælinu og af lækninum sjálfum fyrr og síðar, og hefi jeg ekki nema alt gott af þeim að segja. Hins vegar treysti jeg mjer ekki til að dæma um Vífilsstaðamálið af eigin reynd, því nú eru nokkur ár liðin frá því jeg hafði nokkur bein kynni af hælinu. En kunnugt er mjer þó um það, að nokkur óánægja hefir verið meðal sjúklinga á hælinu, en þó að sú óánægja væri órjettmæt og árásirnar á hælið óviðurkvæmilegar, þá má ekki láta þennan mann gjalda þess. Þó að árásirnar sjeu ósæmilegar, finst honum það ekki sjálfum, enda er þessi óánægja eldri en svo, að hann geti átt upptökin að henni. Þessari óánægju á hælinu má líkja við samblástur í skóla gegn yfirboðurum. Jeg þekki það af eigin reynslu, að menn líta öðruvísi á það, þegar þeir eldast. En meðan á því stendur, finst mönnum þeir hafa rjettan málstað. Og eftir þeirri viðkynningu, sem jeg hefi af þessum manni, efast jeg ekki um, að hann telji sig hafa haft rjett mál að verja. Jeg hefi heyrt ávæning af því, að hann hafi verið kjörinn talsmaður þeirra, sem óánægðir voru, nokkurskonar framsögumaður. Hann hefir því skoðað sig sem fulltrúa eða trúnaðarmann þeirra manna, og því talið sjer skylt að fylgja fram þeirra málstað sem einbeittast. Jeg teldi því mjög illa farið og engan veginn til að jafna yfir þessi mál, ef hann yrði nú látinn gjalda þessa. Hins vegar er hjer í raun og veru ekki um bein útgjöld að ræða, eins og jeg gat um í fyrri ræðu minni, þar sem hvort sem er yrði gefið með honum af opinberu fje.

Um hinn styrkinn undir sama lið er það að segja, að háttv. frsm. (MP) leiðrjetti missögn hjá mjer, er stafaði af ókunnugleika. Jeg hugði, að þessi kona ætti ekki kröfu til styrks samkvæmt berklavarnalögunum, en nú nýtur hún þessa styrks í sjúkrahúsi, og er greitt meira með henni en hjer er farið fram á. Það yrði því beinn sparnaður fyrir það opinbera að samþykkja þetta. En þar sem háttv. frsm. (MP) benti á, að lægri upphæð mundi nægja, skal jeg minna menn á, að þó að sjúklingar sjeu ekki smitandi, eins og þessi kona, þá er þó erfitt fyrir þá að fá góða vist. Þó að menn hafi læknisvottorð um, að þeir geti ekki smitað frá sjer, er fólk mjög hrætt við að taka þá. Jeg tel því litlar líkur til, að þessi kona geti komist af með minni upphæð. Jeg skal endurtaka það, að hjer er í raun og veru um opinberan starfsmann að ræða, þó að hún væri það ekki um langan tíma.

Út af tillögu minni á þskj. 405, XII, um styrk til Ásgeirs Þorsteinssonar, gat hv. frsm. (MP) þess, að nefndin gæti ekki fallist á að veita slíkan styrk, en mundi koma með tillögu um lánveitingu. Jeg efast um, að slík lánveiting mundi koma að nokkru haldi, þó að hún yrði heimiluð. Jeg vil leyfa mjer að minna á ummæli hæstv. atvrh. (KIJ) í gær, er hann fullyrti, að ekki mundi verða auðið að veita eitt einasta lán. Hins vegar telur hæstv. forsrh. (SE) mikinn vafa á því, hvaða tryggingu ætti að heimta fyrir slíkum lánum, og gæti það atriði komið í veg fyrir allar þvílíkar lánveitingar. Verður því að ganga til atkvæða um þennan lið með það eitt fyrir augum, hvort maðurinn á að fá nokkurn styrk eða þá alls ekki og hvort háttv. deild vill stöðva þær tilraunir, sem hann ætlar að gera til þess að fullkomna sig í þeirri grein, er hann leggur stund á, svo að hann geti unnið landinu miklu meira gagn en þessari upphæð nemur. Það er sýnilega mjög mikilsvarðandi, að hann geti aflað sjer þeirrar verklegu fræðslu í þessu efni, sem hann hefir hug á. Hjer er verið að koma á fót ýmsum iðnaðarfyrirtækjum, og er ekki annars kostur en að fá útlendinga til að veita þeim forstöðu. Það hefir reynst misjafnlega; sum fyrirtæki hafa oltið um koll af því, að ekki var nógu vel vandað til forstöðumanna Það er því ljóst. hve mikið ríður á því, að menn, sem veita slíkum fyrirtækjum forstöðu, sjeu nógu vel mentir í grein sinni.

Mjer dettur í hug, ef það þætti betra og aðgengilegra, að setja mætti inn við 3. umr. aths. um, að þessi styrkur yrði endurgreiddur, ef maðurinn starfar ekki hjer á landi, og að það skuli gert eftir ákveðið árabil. Þetta yrði þá einskonar lán, en kæmi þó fram með beinni útgjaldaskipun. Jeg skal geta þess, að maðurinn fór fram á hærri styrk, en jeg treysti mjer ekki til að fylgja því og varð að klípa af upphæðinni.

Þá mótmælti háttv. frsm. (MP) uppbótunum til yfirfiskimatsmannanna. En jeg verð að undirstrika það, að ef þessi launauppbót verður ekki samþykt, þá verður að gera ráð fyrir því, að fiskimatsmaðurinn í Reykjavík að minsta kosti segi upp starfinu. Hæstv. atvrh. (KIJ) lýsti því, hve illa gengi að fá matsmann í Vestmannaeyjum, þar sem við borð liggur, að matsmaðurinn segi upp starfinu vegna ónógra launa, og vafasamt að maður fáist til að taka við því nema gegn kauphækkun.

Yfirfiskimatsmaðurinn hjer í bænum á kost á töluvert betur launaðri stöðu annarsstaðar. Jeg bendi aðeins á nauðsyn þessa og hve slæm áhrif það hefir, ef uppbótin verður feld.

Jeg legg enn áherslu á, hversu þýðingarmikið fiskimatsstarfið er og hvað er í húfi, ef eftirlitið versnar. Eins og nú stendur, er íslenskur fiskur talinn besti fiskur í heimi, en álit hans á markaðnum veltur mest á matinu og er að mjög miklu leyti því að þakka.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að háttv. 2. þm. Skagf. (JS). Hann mælti á móti launauppbót til símameyjanna og taldi hana fjarstæðu, af því að frv. um aukna dýrtíðaruppbót til starfsmanna ríkisins hefði verið felt hjer í deildinni. En jeg hefi bent á, að þessar umsóknir komu fram áður en það var gert. Þessar óskir um launauppbót eru ekki fram komnar af augnabliksþörf, heldur af því, að símameyjarnar hafa um langan tíma haft lægst laun allra opinberra starfsmanna. Og það er líka viðurkent, að engin sanngirni er í því, að stúlkurnar við bæjarsímann hafi lakari kjör en stúlkur við landssímann. Ætlast er til, að þessi viðbót fari mest til þeirra og geri þær jafnrjettháar kynsystrum sínum. Jeg skal minna háttv. þm. (JS) á það, að háttv. samþm. hans (MG) hefir áður vikið að því, að rjett mundi vera að veita þeim embættismönnum styrk eða uppbót, sem lakast verða úti vegna dýrrar húsaleigu, og gerði ráð fyrir að flytja till. í þá átt, eða styðja, ef hún kæmi fram frá öðrum. Þessi uppbót til símafólksins er alveg samskonar. Það getur ekki talist neitt aðalatriði, af hverju starfsmenn ríkisins verða þurfandi, hvort það er vegna ónógra launa eða of hárrar húsaleigu. En sje það sanngjarnt, að bæta öllum starfsmönnunum upp, sem við húsaleigudýrtíð búa, án tillits til þess, hver laun þeirra eru, þá er auðsætt, að lægst launuðu starfsmennirnir muni hjálparþurfa. Háttv. þm. (JS) mælti enn fremur á móti styrkbeiðni minni til handa Kvenrjettindafjelagi Íslands, á þskj. 430, og bar það saman við bændaförina, sem farin hefði verið styrklaust. Það má vel vera, að til sje þannig eitt dæmi eða tvö. En að því ber að gæta, að ef kvenfólkið á að sækja slíkan allsherjarfund í Reykjavík, þá þarf sterka hvatningu. Það er nú svo, að þær eru meira bundnar við heimilið en karlmennirnir. En það liggur í augum uppi, að ekki er síður nauðsynlegt, að kvenfólkið ferðist og fái útsýn í verkahring sínum en karlmenn; þess vegna virðist sjálfsagt að veita þennan styrk. Meiningin með þessum styrk er sú, að greiða nokkurn hluta ferðakostnaðar fundarkvenna og ef til vill að einhverju leyti dvöl þeirra í bænum. Styrkurinn er hverfandi lítill og þarf ekki að búast við honum í fjárlögum árlega. Verður þetta því að teljast til undantekningar.

Vænti jeg svo, að háttv. deild taki sómasamlega þessari styrkbeiðni.