25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

139. mál, fjáraukalög 1923

Pjetur Þórðarson:

Enginn þarf að óttast, að jeg tali langt mál. Að jeg kvaddi mjer hljóðs, kemur ekki af því, að jeg eigi hjer neina brtt., heldur vegna þess, að ýmsir aðrir þingmenn gætu hugsað sem svo, að þingmenn yfirleitt greiði atkvæði eftir þeim miklu meðmælum, er flutt eru með hverri tillögu. En þessu er ekki þannig varið. Um brtt., sem fyrir liggja til launahækkunar, hefir fátt af því, sem sagt hefir verið þeim til meðmæla, getað haft áhrif á mitt atkvæði. Mjer virðist það vera orðin venja hjer að ætlast til, að það hafi mest áhrif, sem borið er fram með mestri frekju og hótunum um, að svona og svona skuli fara, ef allir þingmenn sætti sig ekki við það, sem farið er fram á. En jeg ætla að láta þá þm., sem þann sið temja sjer, vita, að jeg hefi að engu hótanir þeirra, en greiði atkvæði eftir því, sem mjer þykir best henta og jeg tel rjettast vera. (BJ: Hvaða hótanir eru þetta?). Jeg meina t.d. hótanir um það, að landið verði að vera án hæfra fiskimatsmanna, ef þessir fiskimatsmenn, sem nú sækja um launauppbót, fá hana ekki. Þá sje alt fiskimat í veði. Þetta eru hótanir. Sama máli gegnir um símafólkið. Jeg hefi heyrt það hjá fleirum en einum þm., að þá sje alls herjarverkfall í aðsigi, ef því sje ekki veitt uppbót. (JakM: Þetta er ósatt). Nei. Jeg get vitnað í háttv. 2. þm. Árn. (ÞorlG). Orð hans hnigu í þessa átt. Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði það viðvíkjandi styrk þeim, er hann var að mæla með, að það kæmi hlutaðeiganda ekki að haldi að fá lán; það væri ekkert fje til að lána. Ef ekki er fje til þess að lána, þá hygg jeg, að það sje ekki frekar til, til þess að gefa það. Annars skal jeg ekki fara neitt út í einstakar tillögur; jeg býst við að hafa gert grein fyrir því með þessum orðum mínum, að jeg get fullkomlega gert mjer ljóst, hvernig jeg hygg rjettast að greiða atkvæði, og það án þess að tillögumenn þurfi að tala oftar en einu sinni.

Af því að jeg er að mörgu leyti sammála hv. þm. Borgf. (PO), þegar um þessi efni er að ræða, þá get jeg ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á tillögu þá, er hann flytur á þskj. 405, og verð jeg þá að lýsa yfir því, að jeg tel ekki allskostar rjett að samþykkja hana og get ekki verið með í því.

Jeg hygg, að hjer sje ekki farin rjett leið. Það mun vera rjettara að fara aðra leið, fá dóm um, að hverju leyti afskifti þessa ráðherra eru varhugaverð í þessu efni. Jeg hygg, að þetta geti heyrt undir þau viðskifti ráðherra og Alþingis, þar sem það er ákærandi gagnvart honum, en landsdómur dæmir, og því virðist mjer harla óviðeigandi, að ákærandinn leggi dóm á kæruatriðið. Af þessum ástæðum mun jeg ekki greiða tillögu þessari atkvæði mitt.