25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Er jeg talaði síðast, gleymdi jeg að minnast á tillöguna viðvíkjandi hljóðfæraskólanum. Nú hefir hæstv. atvrh. (KIJ) tekið af mjer ómakið og mælt með honum. Jeg þykist vita, að þeir þm., sem fóru með Esju um daginn, hafi heyrt, hver munur er á hornaflokknum nú og áður. Þótt það að vísu hafi verið vel gert áður af kennaralausum mönnum, sem vantaði þekkingu, þá hefir leikurinn þó gersamlega umsteypst til hins betra síðan þeir fengu hinn þýska kennara í sína þjónustu. Jeg þykist vita, að þeir menn, sem unna listum í landi þessu, vilji ekki láta þá list verða útundan, sem best nær til hjartnanna og mest áhrif hefir á alþýðu manna. Það getur ekki talist sæmilega mentuð þjóð, sem ekki hefir sönglistina í hávegum. Hjá Forngrikkjum voru menn þannig uppaldir, að sá þótti ekki maður með mönnum, sem ekki gat í samkvæmum tekið við hörpunni af sessunaut sínum og slegið hana. Og það mun vera skoðun manna, að uppeldi og þjóðarmentun Grikkja hafi verið samræm því, sem holt var og fagurt, og dæmin sjeu helst takandi þaðan. Vísir til þessa hljóðfæraskóla, sem hjer er kominn, er þannig tilorðinn, að bláfátækir menn hafa varið frístundum sínum til þess að æfa sig og lagt fje fram til að launa kennara og komið upp húsi. Bærinn hefir styrkt þá lítið eitt, en landinu ber líka skylda til að hjálpa. Hjer er aðeins farið fram á 1000 krónur að þessu sinni. Þá má minna á fjárhagshlið þessa máls. Eins og kunnugt er, sigla á ári hverju nokkrir ungir menn til þess að læra að leika á hljóðfæri, af því að hjer er engin stofnun til sem kennir slíkt. Ef þessi skóli yrði styrktur og efldur, mundu slíkar ferðir að mestu leggjast niður, og mundi þá miklu meira en þessar 1000 kr. græðast á gjaldeyrissparnaði og gengismun. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um svona einfalt mál.

Þá er það örstutt athugasemd út af ræðu háttv. þm. Borgf. (PO). Hann sagði að jeg hefði sagt, að fyrv. fjármálaráðherra hefði enga heimild haft til þess að taka þessa húsaleigu fyrir herbergið á Hótel Ísland. Jeg sagði það aldrei, en hitt sagði jeg, að jeg mundi ekki hafa gert það, og mundi hafa ráðið honum frá að gera það, ef jeg hefði vitað um það Jeg sagðist mundu hafa verið svona varkár vegna þess, að jeg veit, hversu sumir menn eru frakkir að eigna öðrum illar hvatir og þjófkenna menn. Það er ekki eins einfalt mál og sumir þm. halda að það sje, heimildarlaust að leigja eina skonsu í því skyni, sem þessi ráðherra hefir gert. Ef menn vilja líta í kring um sig, er víðar þar, sem líkt stendur á, notað fje án nokkurrar heimildar, t. d. í Landsversluninni 2–3 eða 5 herbergi, og enginn talar um þetta. Jeg álít, að heimildin sje þörfin, sem sá viðkomandi ráðherra telur vera á þessu. Sama máli gegnir um vínverslunina. Forstöðumenn hennar álíta, að svona og svona margir menn og svona og svona mikið húsnæði sje nauðsynlegt. En þó getur verið, að mjer og háttv. þm. Borgf. (PO) þyki þessar stofnanir eyða of miklu fje í húsaleigu og mannahald, en við heimtum eigi fyrir það, að forstöðumennirnir endurborgi þetta fje. Það mun ekki vera eins viss málsvegur og þessir menn halda, að fá Magnús Jónsson dæmdan til þess að borga þessa upphæð aftur. En ef þeir álíta þetta mikið brot, þá er sú leiðin, sem háttv. þm. Mýra. (PÞ) benti á, hin eina rjetta, að Alþingi gerist ákærandi, en ekki dómari. Háttv. þm. Borgf. (PO) þótti jeg taka mikið upp í mig, er jeg kallaði þetta ofsókn á Magnús Jónsson, varnarlausan hjer. En hví ber hann það af sjer? Hann talaði inn fjölþreifni við ríkissjóðinn, og jeg þykist skilja íslensku svo vel, að jeg viti, hvað það þýðir, og jeg álít óleyfilegt að nota slík orð um þetta. Jeg deili ekki um þetta við háttv. þm. Borgf. af því að Magnús Jónsson sje flokksbróðir minn, ekki af því, að jeg vilji taka tækifærið frá flokksmönnum hans. En hann er gamall lærisveinn minn, og jeg er ekki vanur að láta þá standa óvarða, er jeg sje þá ofsótta.