25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Vegna orða hv. 2. þm. Skagf. (JS) vil jeg gera nokkrar athugasemdir, þar sem hann talaði um, að jeg hefði ekki minst á sumar till. til mótmæla.

Það er þá fyrst gengisuppbótin til íslenskra stúdenta erlendis. Þessi liður var feldur í fjvn., og hv. þm. (JS) gat því varla búist við, að jeg talaði um hann sem frsm. nefndarinnar.

Sama er að segja um utanfararstyrkinn. Um hann voru jöfn atkvæði í fjvn. Einn var ekki viðstaddur. Var því engin ástæða fyrir mig að leggja dóm á það sem frsm. nefndarinnar.

Út af orðum háttv. þm. (JS) um, að utanfararstyrkir kæmu ekki að gagni, vil jeg benda honum á, að styrkir til utanfara hjeraðslækna munu hafa orðið að miklu gagni, þó ekki liggi fyrir beinar skýrslur um það. Sama má segja um suma þá styrki, sem hæstv. ráðherra nefndi. Alþingi ætti síst að mótmæla styrk til utanfarar yfirlæknisins á Vífilsstöðum. Það ætti frekar að skylda yfirlækna til að fara utan á ákveðnu árabili, sjer til frekari mentunar. Jeg tek þetta sem dæmi um not af utanferðum. Þá hefir verið talað um sjúkrastyrkinn af sumum háttv. þm. Fjvn. gerir till. um styrk til eins manns, sem ekki getur talist til starfsmanna ríkisins. Benedikts Björnssonar kennara. Þetta er ekki að ástæðulausu gert, því þó maðurinn teljist ekki til starfsmanna ríkisins, þá hefir þessi maður helgað þjóðinni krafta sína. Hann hefir haldið uppi unglingaskóla um mörg ár, og auk þess verið forstöðumaður barnaskóla. Og vottorð fylgja honum frá mætum mönnum, sem telja hann mesta þjóðnytjamann. Einnig hefir hann gefið út kenslubók í íslensku. Þótt slíkir hæfileikamenn hafi ekki haft opinbera stöðu fyrir ríkið, þá hefir það þó skyldur við þá. Það dugir ekki að vísa þeim á sveitarfjelagið, því allir vita, að það mundi naumast veita svo háan styrk sem þyrfti, enda þess naumast umkomið.

Nefndinni fanst það því vera skylda þingsins að vernda heilsu slíkra manna, svo þeir gætu haldið áfram að vinna þjóðfjelaginu gagn. Um aðra styrki skal jeg ekki ræða.

Þá er launauppbót starfsmanna landssímans. Hví mátti ekki koma fram með launabótina í þessum aukafjárlögum? Það er þó naumast annað en formsatriði. Það er meiri ástæða til að bæta upp nú, þegar víst er um launin, heldur en næsta ár, þegar ekki er hægt að segja, hver uppbótin verður.

Um uppbót til fiskimatsmannanna er það að segja, að það er stefnumál fyrir fjvn. Hún telur rjettara, að slíkt sje gert með breytingu á launalögunum.

Þá vildi jeg skjóta því til hæstv. ráðherra (KIJ), og gæti hann eins vel svarað því síðar, hvort hann geti ekki búist við því, að einhverjar tekjur mundu verða af vínversluninni þetta ár. Mjer finst ekki ósennilegt, að svo geti orðið, þar sem tekjur af henni eru áætlaðar talsvert hátt fyrir næsta ár. Það er víst ekki öllu fleira, sem jeg þurfti að svara.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefir verið svarað af hv. þm. Dala. (BJ). Jeg skal ekki gefa mig við þrætum þessara háttv. þm. En jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði um það atriði, að höfð sjeu óviðurkvæmileg orð um fjarstaddan mann, sem ekki getur borið hjer hönd fyrir höfuð sjer. Íslendingar hafa jafnan þótt drengskaparmenn, en það er ekki drengskapur að vega svo að baki mönnum. (PO: Jeg var búinn að segja þetta áður en hann fór).

Jeg get sagt eins og hv. þm. Dala. (BJ), að jeg hefi ekki sagt þetta sem flokksmaður fyrv. fjrh. (MagnJ), heldur sem frsm. fjvn. Flokksmenn hans hefðu haft ríkari skyldu til að verja hann, en jeg vona, að ekki hafi farið fyrir þeim líkt og rottunum, sem sagt er að yfirgefi hið sökkvandi skip, þó þeir hafi ekki gert það.

Þá hjelt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sömu ræðu og hann hjelt við 2. umræðu fjárlaganna um vitana. Jeg teldi litlu skifta fjárhagslega, þótt vitar þessir fengju 1/8 –1/10, hluta kostnaðarins af opinberu fje. En það er ekki gott að vita, nema þetta yrði skoðað sem fordæmi, enda mun slíkt jafnvel vera farið að koma í ljós. En svo kemur nú hitt, að það sje ekki meira en 1/8–1/10 hluti, sem kostaður sje af opinberu fje, þá er jeg ekki sammála því. Fiskifjelag Íslands hefir veitt 7000 krónur til þessara vita. Svo bætast við þessar 4000 kr. Það verða þá 11000 kr. eða kostnaðar, og er það þó langt of mikið.

Hv. þm. (SvÓ) gat þess, að gengið hefði verið á gerða samninga við vitamálastjóra. En þingið ber enga ábyrgð á því. Það hefir ekki gengið á gerða samninga í þessu efni, heldur hafa þessi hjeruð gert það, er þau vilja undan skjótast að greiða tilskilda upphæð.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Það eru líklega fleiri þingmenn eins og háttv. þm. Mýra. (PÞ), að þeim sje ljóst, hvernig atkvæði eigi að falla. En hann verður að fyrirgefa, þótt aðrir rökstyðji sínar till., þótt hann sje svo skjótur að ákveða sig. En jeg vona, að háttv. þdm. sýni brtt. nefndarinnar þann sóma og sanngirni að samþykkja þær.