25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins minnast á tvent.

Fyrst er það XI. brtt. á þskj. 405, frá dómsmálaráðherra, um styrk til að senda fulltrúa á fundi erlendis. Það munu þegar komnar umsóknir frá 6 mönnum og stofnunum. Þetta verður því sýnilega ekki nóg fje. En jeg vildi ekki láta tækifærið hjá líða til að benda hæstv. stjórn á eina umsóknina. Það er handa Emanuel Cortes prentara, utanfararstyrkur til að kynna sjer litprentun seðla og frímerkja Jeg skal ekki fara að mæla sjerstaklega með þessum manni, en læt mjer nægja að vísa til ummæla, sem fylgja umsókninni. Skal jeg lesa kafla úr þeim.

Stjórn prentarafjelagsins segir svo:

„Hr. Emanuel Cortes er ótvírætt hinn langhæfasti af prenturum hjer til þessarar farar, enda er hann viðurkendur af öllum, sem til þekkja, fyrir þekkingu sína á allri skraut- og myndaprentun, og hefir gert íslenskri bókagerð mikið gagn með þekkingu sinni þau mörgu ár, sem hann hefir dvalið hjer á landi.“

Þá hefir bankastjórn Landsbankans talið heppilegt, að rannsakað sje, hvort tiltækilegt sje, að almenn seðlaprentun verði framkvæmd hjer, og segir:

„Teljum vjer mjög ákjósanlegt, að slík rannsókn verði framkvæmd af hr. Emanuel Cortes, sem er viðurkendur afburðamaður í sinni iðn.“

Hr. Cortes hefir dvalið hjer nærfelt 20 ár og er talinn mjög fær í sinni iðn. Ætti því stjórnin að hafa hann í huga við úthlutunina.

Þá er það till. háttv. þm. Borgf. (PO), sem mikið hefir verið deilt um. Jeg mun greiða atkvæði móti henni. Það er að vísu álitamál, hvort ráðherra hafi haft leyfi til að nota fje landsins á þennan hátt. En verði þessi till. samþykt, þá er jeg aðeins hræddur um, að vekjast mundu upp fleiri till. af líku tægi, viðvíkjandi einhverjum greiðslum, sem núverandi eða fyrverandi stjórnir hefðu veitt, en vafi gæti leikið á. Menn færu þá að leita að því, hvort ekki mætti innheimta fleira. Það gæti máske verið gott, þó jeg hafi samt ekki hugsað mjer að gera það.