01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

139. mál, fjáraukalög 1923

Björn Hallsson:

Jeg ætla ekki að fara að tala um hinar ýmsu brtt., sem fram hafa komið. Til þess bjóðast nógir, enda virðist mjer tíminn ekki leyfa, að miklu sje við bætt. Jeg vil aðeins vekja athygli háttv. deildar á einni brtt., er jeg hefi borið fram ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem sje um endurgreiðslu á byggingarkostnaði til skógræktarstjóra Hallormsstaðarskógar. Jeg býst við, að háttv deild muni eftir, að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir áður flutt till. í þessa átt, en sem var feld hjer áður, og skal jeg því ekki endurtaka þau rök, sem hann færði fyrir þessu máli, en vísa til þeirra. Jeg held, að það hafi verið mistök og misskilningur hjá háttv. deild, er hún feldi þessa till. við 2. umr., því að hún er á svo rjettmætum rökum bygð. Ferðamannastraumurinn er mjög mikill á heimili þessa manns vegna þess fræga Hallormsstaðaskógar, en erfitt að taka á móti mörgum gestum vegna húsnæðisskorts. En það er kunnugt, að Hallormsstaðarhjón eru einstaklega gestrisin, og fólkið á heimilinu gengur oft úr rúmum til að geta hýst gesti og látið fara sem best um þá. Hins vegar eru laun hans lág, 1200 kr. og hann á að hafa frítt húsnæði; virðist þá ranglátt að láta hann leggja fje til þeirra húsabóta, sem hann á að hafa frí til afnota sem uppbót á launum. Jeg vænti þess, sem sagt, að deildin taki þessu máli nú vel, og það því fremur, sem við höfum lækkað upphæðina úr því, sem fyrst var farið fram á, og meira en skógræktarstjórinn hefir lagt út til húsabóta.

Um hinar brtt. skal jeg ekki fjölyrða, en læt mjer nægja að skýra frá afstöðu minni til þeirra með atkvæði mínu, þegar að því kemur. Þessu þingi mundi seint verða slitið, ef allir þm. töluðu um hvert atriði, sem fram kemur. En í fám orðum vil jeg taka það fram, að mjer þykir þessi fjáraukalög orðin ískyggilega há, þó ekki bætist við alt, sem farið er fram á í þessum brtt., sem nú eru til meðferðar. Mun jeg greiða atkvæði á móti þeim sem allra flestum.