01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

139. mál, fjáraukalög 1923

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 482, þar sem farið er fram á, að Alþingi veiti ekkju Pjeturs Guðmundssonar, kennara á Eyrarbakka, lítilsháttar styrk. Jeg get búist við, að háttv. deild finnist það ekki efnilegt að fara að veita barnakennaraekkjum styrk, því að þær sjeu svo margar og fordæmið mundi draga dilk á eftir sjer. En hjer er ekki verið að tala um nein varanleg fjárframlög, heldur styrk fyrir eitt einasta ár. Svo stendur hjer alveg sjerstaklega á, að hjer er verið að fara fram á, að ekkja þessi fái að halda styrk þeim, er manni hennar hafði verið veittur hjer undanfarin ár í fjárlögum. Hefi jeg borið þetta fram sjerstaklega vegna þess, að þessi framliðni maður bað mig sjerstaklega um áður en hann dó, að ekkjan fengi að halda þessum styrk að minsta kosti þetta ár. Kona þessi er bláfátæk, á 4 börn innan við fermingaraldur og á engan að. Barnakennarinn, maður hennar, gegndi störfum þeim í 31 ár, og var talinn að hafa rækt þau vel. Síðan misti hann heilsuna og lá rúmfastur tvö síðustu árin, og naut þá þessa styrks. Get jeg því vænst, að hv. deild haldi áfram þetta ár, til þess að hjálpa henni yfir örðugasta hjallann; því að úr því fara börn hennar að komast upp og geta unnið fyrir sjer og hjálpað henni.

Jeg vona, að háttv. þm. vilji líta sanngjörnum augum á þessa málaleitun og samþykki þennan styrk, og jeg trúi ekki öðru en að háttv. þdm. samþykki þessa lítilfjörlegu upphæð til þess að bæta úr ítrustu þörf fátækrar ekkju, til þess að ljetta henni byrðina, þó ekki sje nema yfir sárasta sorgarárið.