01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

139. mál, fjáraukalög 1923

Eiríkur Einarsson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 491, um styrk til sjúkrahúss og læknisbústaðar í Grímsneshjeraði, 3000 kr., eða 1/3 kostnaðar.

Þessari till. hefir verið vel tekið, m. a. af hæstv. forsætisráðherra (SE). Einnig mun hv. fjvn. yfirleitt hlynt þessari fjárveitingu, enda þótt háttv. frsm. (MP) vildi hvorki segja af eða á að svo stöddu máli, vegna þess að ummæli landlæknis vöntuðu. Jeg hefi nú spurt landlækni álits, og gaf hann það svar, að sitt „princip“ væri að styrkja ekki læknisbústaðabyggingar eingöngu, heldur hvorttveggja í senn, sjúkraskýli og læknisbústað. Nú er hjer svo ástatt, að læknisbústaðurinn er kominn upp og sjúkraskýlið er í smíðum. Hefir verið áætlað, að það yrðu 2–3 haganlega útbúnar stofur. En nú vantar fje. Hjeraðið getur ekki lagt meira af mörkum, og stendur auk þess í skuld fyrir læknisbústaðinn. Jeg átti nýlega tal við hjeraðslækninn, og kvað hann bæði sjer og öðrum hjeraðsbúum mikið áhugamál, að skýlið kæmist upp hið fyrsta.

Þá heimilaði landlæknir mjer að hafa það eftir sjer, að hann væri því sjerstaklega fylgjandi, að Grímsneshjerað fengi þennan 3000 kr. styrk, vegna þess að hjeraðsbúar hafi lagt sjerlega mikið á sjálfa sig í þessu máli. Og er það rjett. Þegar Skúli læknir í Skálholti sagði af sjer, keyptu þeir jörðina Laugarás, sem var mjög vel fallin til læknisbústaðar og sjúkraskýlisbyggingar, vegna lauganna, sem má nota á svo margvíslegan hátt. Ennfremur hafa þeir bygt staðinn, sem var í mestu niðurníðslu, og auk þess byrjað á sjúkraskýli, svo að margt mælir með því, að ríkissjóður hlaupi undir bagga með þeim, er vitanlega hafa framkvæmt þetta meira af vilja en mætti. Væri síst maklegt að láta þá gjalda þess, að þeir fengu nokkurn styrk, þá er þeim var selt Geysishúsið við vægara verði en annars kynni að hafa fengist. Mun óhætt að fullyrða, að nóg vantar samt, þó að þeir hafi fengið þar nokkrar spýtur með sanngjörnu verði.

Það er langt frá því, að jeg ætli að andmæla þeirri till. háttv. þm. V.-Sk. (LH), að 10000 kr. sjeu veittar til læknisbústaðar á Síðu, en jeg vil aðeins benda á það, að stórum fer jeg vægara í sakirnar, er jeg bið aðeins um 3000 kr., og það til framkvæmda, sem komnar eru langt áleiðis.