01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

139. mál, fjáraukalög 1923

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram eina brtt. í þá átt að heimila landsstjórninni að verja alt að 10 þús. kr. til rannsókna á eldsumbrotum.

Það er alkunna, að í öndverðum októbermánuði síðastl. voru eldgos svo stórfeld í Vatnajökli, að sáust víðast af landinu og var öskufall víða, en þó einkum í Hornafirði.

Samtímis gosi þessu voru og jökulhlaup á Skeiðarársandi, og er talið víst, að þau hafi stafað af þessum eldsumbrotum, enda telja vísindamenn, að jökulhlaup þar stafi að jafnaði af eldsumbrotum. En upptök eldsumbrota á þessum slóðum hafa aldrei verið rannsökuð vísindalega, enda ríkir svo megn vanþekking um þessi efni, að blöðin hafa jafnvel blandað saman eldsumbrotunum í byrjun okt. síðastl. og þeim, sem urðu í nóv. og desember í Öskju í Dyngjufjöllum, jafnvel þótt 160–180 km. sjeu þar á milli.

Auðvitað geta menn fundið gosstaði með því að miða frá tveim fjarlægum stöðum, svo að miðin skerist um eldsupptökin, og á þann hátt hafa menn fundið, að gosið í októberbyrjun muni hafa verið í svonefndum Svíagíg, norður af Grænafjalli í námunda við Hágöngur. Er það feikna mikill gígur, sem Svíar tveir, Hakon Wadell og E. Ygberg. fundu sumarið 1919 og kendu við sig. Hann er 71/2 km. á lengd, 5 km. á breidd og 80–100 m djúpur. Var hann þó mjög hulinn jökli, er Svíarnir voru þar. Segja þeir Svíarnir, að hlaupið í Skeiðarárjökli árið 1903 hafi stafað af gosi í þessum gíg. Að vísu eru mjög tíð eldsumbrot á ýmsum stöðum þar norður í Vatnajökli, en þessi gígur er í miðjum jöklinum, þó þeim megin, er suður veit, og hljóp jökullinn því suður á bóginn, er gosið varð síðastl. haust, og uxu vötn þar, en ekki þau, sem fara í norður úr jöklinum.

Gos þetta hófst í byrjun okt. síðastl., eins og áður er sagt, og segir sagan, að maður nokkur á Hjeraði hafi jafnvel sjeð reyk 28., sept., en hæst stóð gosið 4. okt., og þá daga var hlaupið mest í Skeiðarárjökli.

Nokkru síðar kom upp eldur í Öskju og varð mestur 17. nóv. og síðar 26. nóv. Þær slóðir eru víðfrægar síðan gosið mikla varð 1875, þegar öskufall barst til Svíþjóðar og jafnvel enn fjarlægari landa. Askja og nágrenni hennar hefir líka verið allvel rannsökuð af vísindamönnum. Fyrst var það danskur maður, próf. Fr. Johnstrup, sem rannsakaði þessar stöðvar.

Síðan komu Þjóðverjar tveir, Rudloff og v. Knebel, sem gerðu þar mjög miklar rannsóknir, en druknuðu báðir í Öskjuvatni árið 1907. Árið eftir kom enn þýskur vísindamaður, dr. phil. Hans Reck, meðfram til að leita líka þessara tveggja landa sinna, og hefir hann gefið út merkilegt rit um þessar stöðvar, að mestu eftir handritum v. Knebels. Það hefir komið í ljós við þessar rannsóknir, að miklar breytingar, sem sjálfsagt stafa af nýjum eldsumbrotum, hafa orðið þarna frá 1875 og til síðustu ára. En eftir gosið í vetur hefir þetta mikla eldsumbrotasvæði ekki verið rannsakað til hlítar. En það er góðra gjalda vert, að Mývetningar þrír, undir forystu Þórólfs Sigurðssonar frá Baldursheimi, fóru þangað suður til athugunar á gosinu öndverðan desembermánuð. Veður fengu þeir ágætt og sáu mjög mikil vegsummerki eftir eldsumbrotin, en vantaði, sem vonlegt var, tæki og kunnáttu til nákvæmra mælinga og rannsókna. Hafa þeir Þórólfur farið að dæmum eldri Mývetninga og annara Þingeyinga, er sýnt hafa mikinn áhuga í þessum efnum og áður rannsakað eldsumbrot þar nyrðra, bæði í Öskju og Sveinagjá á Mývatnsfjöllum. Má í þessu sambandi sjerstaklega geta Hallgríms, Jónassonar, bróður Hermanns fyrrum alþingismanns, sem hefir ritað af mikilli snild um gosin í Sveinagjá 1875, og er sú ritgerð prentuð, í ferðasögu prófessors Þorvalds Thoroddsens.

Af því, sem hjer var sagt, geta menn sjeð, að landssvæðið kringum Öskju er talsvert rannsakað, en vegna umbrotanna í vetur er nauðsynlegt að rannsaka það nú enn á ný. En hvað sem því líður, að frekari rannsókn mætti kannske bíða þar, þá er brýn nauðsyn að rannsaka eldsumbrotin í Vatnajökli, og það þegar á þessu sumri; annars er hætta á, að jökull sígi yfir umbrotasvæðið.

Þær eldstöðvar eru hinar stórkostlegustu á Íslandi, gos þar mjög tíð að fornu og nýju, og líklega sömu stöðvar, sem nefndar eru „við Grímsvötn“ í annálum, en hafa aldrei verið rannsakaðar, nema þá af þeim tveim Svíum, sem jeg gat um áður, en þó eru miklar líkur til þess, að eldurinn hafi verið víðar í sömu eldlínu en í Svíagíg einum.

Mjer virðist ekki í annað hús að venda en til Íslendinga sjálfra nú, eftir að landið er orðið sjálfstætt ríki, að þeir hlutist til um, að eldstöðvar þessar verði rannsakaðar.

Vera má, að einhver segi, að slík rannsókn sje hjegóminn einber, þar sem hún gefi ekki beinan arð af sjer í fjármunum, en þegar athugað er, hversu gífurleg áhrif eldgos hafa haft á allan hag manna hjer á landi, þá virðist mjer megnasta sinnuleysi að ganga fram hjá tækifærum til að afla sjer þekkingar á þeim, jafnvel þótt enginn geti búist við, að hægt sje að aftra þeim á nokkurn hátt. Það hlýtur að vera mjög mikils vert að þekkja gosstöðvarnar og eðli gosanna á hverjum stað, til þess að vita sem gerst, hverra afleiðinga sje af þeim að vænta. Landið hefir einu sinni — í Móðuharðindunum 1783–84 — nær lagst í eyði vegna eldgosa, og fjekst engin full þekking um upptök þeirra eldgosa fyr en Þorvaldur Thoroddsen kom til sögunnar.

Jeg hefi nú stuttlega gert grein fyrir þessari brtt. minni og vænti þess, að hún verði samþykt, enda undarlegt, ef menn vilja ekki kynnast nánar svo örlagaþrungnum náttúrufyrirbrigðum. Jeg kveð ekki á um, hvort heldur íslenskir menn eða erlendir skuli framkvæma þessa rannsókn. Þykir mjer þó líklegt, að til þess verði fengnir útlendir vísindamenn, helst frá Þýskalandi, því að jafnvel þótt kostur kunni að vera á vel færum innlendum mönnum í þessu efni, þá er þó vafasamt, hvort þeir hafa nauðsynleg áhöld, þau sem bestu sjerfræðingar nota.

Jeg býst ekki við, að neinn beri mjer á brýn, að hjer sje um hreppapólitík að ræða, því að jafnvel þótt eldsvæðið liggi ekki allfjarri kjördæmi mínu, þá eru önnur kjördæmi þó enn nær, enda er þetta mál, sem varðar alla alþjóð.