08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Það liggur einna næst við að byrja með því að svara síðasta ræðumanni, hv. samþm. mínum. 3. þm. Reykv. (JÞ) er hann var að kvarta um, að hann hefði óvinsælt verk með höndum í þessu máli. Jeg er ekki viss um, að svo sje sem hann segir: ef það er rjett, að beinu skattarnir sjeu óvinsælir, þá er það ekki óvinsælt verk, er hann hefir tekist á hendur að lækka þá yfir alla línuna. Hann vjek að því, að ekki mætti auka á það ranglæti, sem ætti sjer stað hjer í Reykjavík. (JÞ: Jeg hefi varast að nota orðið „ranglæti“). Mig gildir nú einu, hvert orðið er, sem notað er, ranglæti eða misrjetti: þýða bæði nokkuð líkt. Þetta misrjetti segir hann að eigi sjer stað, hvort heldur það verði till. meiri hl. eða minni hl., sem fá að ráða. Það er satt, að allhár skattur er lagður á hluafjelög og stóreignamenn. En þess er að gæta, að fjelögin eru ekki að öllu úr Reykjavík; mikið af hlutafje margra þeirra er fengið utan Reykjavíkur, svo sem t. d. Eimskipafjelags Íslands; einnig er hlutafje togarafjelaganna víða að. Þá er þess líka að gæta, að tekjur þær, sem umrædd fjelög hafa aflað sjer, eru fengnar með tilstyrk fjölda manna úr öðrum landsfjórðungum. Eins er um einstaklingana, þá sem mestar tekjurnar hafa, að viðskifti þeirra og starfræksla er ekki bundin við Reykjavík eina, og kemur því skatturinn niður á fleirum en Reykvíkingum. Jeg stend hjer sem 1. þm. Reykjavíkur og vinn hjer þá líklega miður þakklátt verk, er jeg mæli slíkt. En það má ekki einlægt einblína á kjördæmið.

Það er auðsætt, að leggja verður skattinn aðallega á hærri og hæstu tekjurnar. Er skatturinn á þó jafnframt að vera almennur. Þess vegna vil jeg ekki algerlega fella niður skatt af lægri tekjunum. En þar má ekki fara of geyst: því geystara sem farið er yfir höfuð að tala í þessu efni, verður skatturinn óvinsælli, og gæti það jafnvel orðið til þess, að skatturinn yrði afnuminn og eingöngu hafðir tollar.

Það er þó ekki rjett, að uppeldisáhrif skattsins hverfi við það, að aðallega sje lagt á hærri tekjurnar. Þar treysti jeg fyrst og fremst þeim, sem háu skattana borga, til þess að hafa áhrif á almenningsálitið, hvað snertir meðferð þingsins á fjenu. En hinir lægri gjaldendur greiða þá líka skatt. Þó minni sje, og hv. samþm. minn sagði rjettilega, að hærri gjaldendurna munaði minna um skattinn. Þótt hár væri, og ef svo er, þá er auðsætt, að uppeldisáhrif skattsins verða ekki í hlutfalli við upphæð skattsins.

Um frádrátt tekjuskattsins frá skattskyldum tekjum er jeg, eins og jeg hefi áður tekið fram, algerlega ósammála hv. samþm. mínum. Skatturinn er lagður á hreinar tekjur hvers árs og á að greiðast af tekjum þess árs, sem hann er lagður á. Hann verður ekki talinn með gjöldum fyr en hann er ákveðinn og getur því ekki komið til frádráttar. Tökum til dæmis fyrirtæki, sem gefur í hreinan ágóða 100 þús. kr., að frádregnum öllum rekstrarkostnaði og útgjöldum, nema tekjuskatti. Ef enginn tekjuskattur væri, þá yrði gróði þessa fyrirtækis 100 þús. kr., en ef tekjuskatt á að leggja á það, þá verður auðvitað að taka hann af þessum 100 þús. krónum, án þess að draga hann fyrst frá. Það að ætla, að það megi draga skatt upphæðina frá áður en skatturinn er lagður á, er hreint og beint „absurd”. Skattinn skal greiða af tekjum þess árs, sem hann er lagður á, og að sjálfsögðu taka öll atvinnufyrirtæki upp þá reglu að ætla fyrir skattinum á reikningi þess árs, sem hann á við, þó að hann greiðist eftir á. Það er alt öðru máli að gegna um útsvarið, sem ávalt verður greitt áður en tekjuskattur er ákveðinn.

Enn var ein fjarstæðan, sem hv. þm. kom með, að það gæti komið fyrir, að þegar ætti að fara að ætla fyrir skattinum, væri ekkert til að greiða hann með. Um þetta gildir það, sem sami hv. þm. skaut að hv. frsm. minni hl., að það er hættulegt að reiða höggið of hátt og ætla sjer að sanna of mikið. Skatturinn er aðeins hundraðsgjald af hreinum gróða, og því erfitt að sjá, hvernig þetta mætti ske. Hitt er það, að útsvörin geta etið upp allar „hreinar” tekjur manna, eins og þau eru nú lögð á, en þá verður vitanlega heldur ekki um neinn tekjuskatt að ræða. En í framtíðinni ætti þetta þó að verða öðruvísi. Það var í fljótu bragði skoðað snjöll ástæða gegn beinu sköttunum þetta, að skatta bæri aðeins eyðslufjeð, en eigi sparifje eða arðinn af atvinnurekstrinum. Þetta lítur nú glæsilega út, en það getur ekki vel staðist í framkvæmdinni, því þetta hefði þau áhrif, að eyðslufjeð hlyti aðeins að vaxa að sama skapi; dýrtíðin hlyti að vaxa, launakröfur að hækka og rekstrarkostnaður allra fyrirtækja að vaxa. Ef hægt væri að ná tekjum í ríkissjóðs með tollum á óþörfum og lítt þörfum varningi eingöngu, væri það mjög gott: en sú er reynslan, að ef tollur fer yfir ákveðið hámark, gefur hann engar tekjur, því þá hætta menn aðeins að kaupa vöruna, þegar hún er orðin of dýr, og engin hætta er á því, að ekki verði eins farið í kringum óbeinu skattana (tollana) eins og þá beinu.

Þá vjek háttv. þm. (JÞ) að því, að nefndin hefði ekki gert áætlun um frádrátt útsvaranna frá tekjunum, og hefi jeg þegar áður sagt, að það yrði ekki gert á ábyggilegan hátt. (JÞ: Ekki rjett). Skattar til bæjarsjóðs eru lagðir á eftir efnum og ástæðum, og þó gott sje að hafa sameiginlegan grundvöll undir allri skattaálagningu, er engin trygging fengin fyrir því, að sömu reglur verði hjer eftir látnar gilda í álagningu útsvara og viðhafðar eru við álagning skatts til ríkissjóðs. Og þótt nefndin hefði gert þessa áætlun, hefði hún ætíð orðið vafasöm. (JÞ: Hefði samt verið allgóð að hafa í höndum). Væntanlega ekki til annars en villa sjer sýn.

Þá er best, að jeg snúi mjer að háttv. þm. Ak. (MK). samnefndarmanni mínum. Mjer skildist hann vera að gera að gamni sínu, er hann sagði, að meiri hl. nefndarinnar væri að leitast við að lækka skattinn á hærri tekjustigunum, en hækka hann aftur á hinum lægri. (MK: Jeg átti við í samanburði við frv. stjórnarinnar). Frv. stjórnarinnar er ekki skattur, og það er enginn tekjuskattur hjer til annar en sá, sem ákveðinn er í lögum frá 1921. Þegar talað er um að lækka eða hækka tekjuskattinn, verður því að miða við þau lög, en ekki einhverjar till., sem fram kunna að koma úr ýmsum áttum. Ef þessi ummæli hv. þm. eru ekki spaug, þá felst í þeim fádæma ósvífni, sem jeg vil þó ekki saka hv. þm. um. Tel jeg víst, að hv. þm. hafi alls ekki verið vitandi vits síns, og læt jeg því vera að víta hann eins og hann á skilið. (MK : Jeg er ekki dauður. Jeg er dauður, en samt alls óhræddur, því málstaður minn er svo góður, að jeg þarf alls ekki að óttast andsvör hv. þm.

Þá bar hann og saman till. meiri hl. við stj.frv., en sá samanburður var algjörlega villandi, þar sem hann tók ekki tillit til persónufrádráttarins, og bar þannig saman skatt af 1000 kr. hærri tekjum samkvæmt skattstiga meiri hl. við 1000 kr. lægri tekjur í stj.frv. Hitt er margyfirlýst í umræðunum, að meiri hlutinn sjer ekki ástæðu til að ívilna einhleypu fólki í skatti, en þykir miklu sanngjarnara að hlífa heldur fátækum fjölskyldum. Þó var skringilegast að heyra hv. þm. tala um till. hv. 2. þm. Reykv. (JB) og segja hana vera ef til vill hið sanngjarnasta, er fram hefði komið í málinu. Þá er hann kominn í hring. Ef það er sanngjarnt að hafa frádráttinn þúsund kr. fyrir manninn, eins og hv. 2. þm. Reykv. vill vera láta, þá er auðsætt, að það er þó skárra að hafa hann 500 kr., eins og meiri hl. vill, heldur en alls ekkert, eins og hv. þm. Ak. leggur til.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) segir, að draga verði frá eftir þörfum fjölskyldunnar. Það er einmitt þetta, sem óbeinlínis er gert í till. meiri hl. Jeg verð að halda því fram, að samkvæmt till. meiri hl. verði yfirleitt allur þorri verkamannafjölskyldna í landinu skattfrjáls. Það er talið, að alment verkamannakaup hjer í bænum sje 2500 kr. um árið, og verður þá fjölskylda með 3 börn alveg skattfrjáls, en þó að börnin sjeu 2 eða 1. verður skatturinn alveg hverfandi. Jeg er sannfærður um, að menn kynoka sjer yfir höfuð ekki við að borga 4–5 kr. skatt, þótt lágar tekjur hafi; nema það eigi að fara að ala upp í fólki algert ábyrgðarleysi í fjármálum. Jeg held því staðfastlega fram, að eins og skatturinn er á lægstu tekjunum, hefir hann engin áhrif á afkomu manna. Hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (JB) sagði, að lítill munur væri í á till. meiri og minni hl., og er það síst fjarri lagi nú, er hv. þm. Ak. (MK hefir fallist á, að útsvörin megi draga frá tekjunum. En ekki veit jeg með vissu, hvort hann er í því efni í samræmi við skoðun hv. frsm. minni hl. (ÞorlG). En sje svo, þá skil jeg ekki til hlítar framkomu minni hl. og þessa samþm. míns í þessu máli. Hvað hv. frsm. minni hl. viðvíkur, þarf jeg vart að svara honum, enda alllangt síðan hann talaði og ræða hans fremur lítisverð. Hann gat vitanlega ekki hrakið dæmi þau, er jeg hafði tekið, en sagði aðeins, að það væru ekki nema einstök dæmi. En hv. frsm. minni hl. hefir engin dæmi fram að færa, er sýni það gagnstæða, en jeg gæti hins vegar haldið áfram að lesa upp dæmi svo að segja ótakmarkað, ef fyrir því væri hafandi. Sama er um hv. þm. Ak. MK: hvorugur þessara hv. þm. hafði nokkurt dæmi á reiðum höndum, er gætu ósannað mál mitt.

Hvað viðvíkur ræðu hæstv. fjármálaráðherra (MagnJ)., þá sje jeg ekki ástæðu til langra andmæla. Hann var að tala um frádráttinn á útsvarinu og spurði, hvers vegna ekki ætti þá að draga öll út gjöld frá líka. Nú er það svo, að það liggur í augum opið, að öðruvísi stendur á með útsvör og önnur útgjöld, sem ganga til persónulegra þarfa. En hvers vegna er heimilaður frádráttur á öðrum gjöldum til sveitar- og ríkissjóðs, svo sem fasteignasköttum? Hver munur er í raun og veru á útsvarinu og öðrum gjöldum til sveitar- eða bæjarsjóðs? Það skiftir engu máli, hvernig útsvarið væri reiknað út. Þó að munur sje á því hjer og í Danmörku, þá er sá munur þannig, að því meiri ástæða er til að leyfa frádrátt hjer en þar. Og þó að einhverjir, sem ekkert útsvar gjalda, „hafi ekki ánægju“ af þeirri heimild, þá geri jeg ráð fyrir því, að hinir verði miklu fleiri, sem þá ánægju hafa.

Þá kom það fram í ræðu hæstv. ráðherra, eins og jeg bjóst við, að minni hl. nefndarinnar hafði skýrt rangt frá því, hvers vegna minni tekjur en 1000 kr. voru látnar vera skattfrjálsar í stj. frv. Það kom upp úr kafinu, að ákvæðið var ekki sett inn í frv. til að ljetta á lægstu gjaldendunum, heldur vegna þess, að ekki borgaði sig að innheimta svo lágar upphæðir. Hann gaf raunar líka í skyn, að fyrir stjórninni hefði vakað einhver umhyggja fyrir ekkjum, en þeirra hag má hæglega sjá borgið með því að ákveða sama frádrátt fyrir alla framfærendur, ef ekki er unt að nota heimild þá í tekjuskattslögum þessum, sem heimilar uppgjöf skatts eða ívilnun, ef um sjerstaklega erfiðar kringumstæður er að ræða. Mætti þá færa sjer þetta í nyt.