01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gaf mjer tilefni til að standa upp enn einu sinni, sem jeg ella hefði ekki gert. Hann tók rjettilega fram, að stjórnin hefði ekki ætlað að leggja fjáraukalagafrv. fyrir þingið, og hafði fyrv. fjrh. (MagnJ) það enga sjerstöðu innan stjórnarinnar, heldur var öll stjórnin sammála um það. En hún varð að láta undan þingviljanum í þessu efni, og nú sjest árangurinn af því.

Jeg gat þess, að þegar frv. kom fram hefði verið líkast því, sem stífla hefði verið tekin burtu. Jeg bjóst altaf við, að margan brtt. mundu fram koma, en við svo mörgum bjóst jeg þó aldrei.

Mundi jeg hafa hugsað mig oftar en tvisvar um að koma með frv., ef jeg hefði vitað þetta fyrir.

En aðgætandi er, að sumt hefði þó orðið að borga, þótt frv. hefði ekki komið. T. d. var ekki hægt að komast hjá því að borga stærstu upphæðina, 75 þús. kr., sem er 14 af upphæð alls frv. Er það gengismunur á milli sænskra og íslenskra peninga, er kom vegna innkaupanna til vitanna. Sama er að segja um brtt. mína þskj. 484, um fje til að endurreisa stauraraðirnar á Kálfafellsmelum. Það er algerlega óhjákvæmilegt að gera það á þessu ári. Nemur þetta um 100 þús. kr.

Þá vil jeg svara þeirri spurningu hv. þm. (JÞ), hvort ástandið hafi breyst til batnaðar síðan jeg gaf yfirlitið. Það hefir ekki breyst, því miður, enda er það ómögulegt, því að tekjurnar koma ekki ört inn á þessum tíma í ríkissjóðinn, heldur síðari hluta sumars. Sje jeg ekki annað en nauðsynlegt verði að taka bráðabirgðalán allstórt nú í vor, og mundi það reyndar hafa orðið nauðsynlegt, þótt þetta fjáraukalagafrv. hefði ekki komið fram og sparast hefðu þær 200 þús. kr., sem segja má, að hefðu getað beðið til næsta árs. Hefir þetta líka verið tíska nú síðustu árin, eftir því sem sagt hefir verið, en á fyrri árum, meðan jeg var landritari, var það hreinasta undantekning, ef taka þurfti lán.