01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil byrja með því að benda háttv. þm. Borgf. (PO) á greinarmuninn á verðlaunum og námsstyrk. Annars þóttist jeg taka það greinilega fram í fyrri ræðu minni. Nú skal jeg aftur vekja athygli hans á því, að verðlaun eru aðeins veitt þremur skáldum: Einari Kvaran, Guðmundi Friðjónssyni og Davíð Stefánssyni; tveimur málurum; Jóhannesi Kjarval og Jóni Stefánssyni, og einni leikkonu, frú Stefaníu Guðmundsdóttur. Jeg hygg, að hann verði að viðurkenna, ef hann vill vera sanngjarn, að þessir listamenn eigi allir verðlaun skilin. Hinir allir fá aðeins námsstyrk. Þeir eru enn óreyndir og ekki búnir að hljóta viðurkenningu. Eru aðeins byrjendur og flestir ungir listnemar, sem hafa góð meðmæli frá kennurum sínum, og sumir ágæt. Hafi hann ekki kynt sjer þessi meðmæli, sem jeg efast mjög um, því að vitnisburðirnir liggja uppi í stjórnarráði, þá er hann hjer að dæma, um mál, sem hann hefir ekkert vit á. Háttv. þm. (PO) getur þó ekki hugsað, að hægt sje að veita öllum skáldum landsins verðlaun af þessu listamannafje eftir verðleikum þeirra; það er ómögulegt. Þá ætti sannarlega að veita Einari Benediktssyni verðlaun, sem er einna fremstur af núlifandi skáldum okkar.

Háttv. þm. (PO) sagði, að jeg teldi mig óskeikulan í þessum efnum og mundi vega á gullvog styrkinn til skálda og listamanna. Jeg veit ekki, hvernig hann hefir getað fengið það út úr ræðu minni. En þó vil jeg segja honum það, að jeg treysti mjer til að dæma um skáldskap eins vel og betur en hann.

Um málara og sönglistannenn er öðru máli að gegna; þar fer jeg eftir vitnisburðum og meðmælum þeirra manna, sem eru mjer færari á þeim sviðum og betur þekkja til listamannanna.

Jeg held, að tilfinningarnar hafi hlaupið með háttv. þm. (PO) lengra en hann hefir varað sig á. Hann hefir sennilega lesið eitthvert gott kvæði í „Kyljum“, og það verkað svona á tilfinningarnar, að hann vill nú óvægur veita sem flestum, skáldum á landinu verðlaun. Þetta sýnir best hið dásamlega afl listarinnar, að hún skuli geta hrifið svona mestu sparnaðarsál þingsins, og jafnvel hlaupið með hana í öfgar. Já, það eru dásamleg máttarverk listarinnar á þessum háttv. þm.!