01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Jeg vil með fáum orðum minnast á tillöguna um ferðastyrkinn til Emanúels Cortes yfirprentara, til þess að kynna sjer prentun á frímerkjum og seðlum. Jeg vil vekja athygli hv. deildarmanna á því, að það mundi verða töluverður hagnaður fyrir landið, ef hægt yrði að gera þetta innanlands, því að þó hægt sje að segja, að það sje ekki ýkjastór upphæð, sem fyrir þetta gangi út úr landinu, þá er þó betra að þurfa ekki að greiða hana, því að hún verður altaf að greiðast í útlendum gjaldeyri, og oft getur verið erfitt að fá hann, auk þess, sem rjett er að láta þá, sem í landinu búa, njóta þessarar atvinnu. Líka gæti það tæplega talist vansalaust fyrir hina íslensku prentarastjett, að standa svo mjög að baki sinna erlendu stjettarbræðra, af því að jafnsjálfsagðar fjárveitingar sem þessar væru svo mjög skornar við neglur sjer. Jeg vænti því fastlega, að háttv. deild samþykki þennan litla styrk, því það er ekki kostnaðarauki, heldur beinlínis gróði fyrir landið.