07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Einar Árnason):

Þegar frv. þetta var lagt fyrir hv. Nd., þá voru útgjöldin áætluð 52 þús. kr., en eins og þau koma nú til þessarar hv. deildar eru útgjöldin áætluð 330 þús. kr. Frv. þetta virðist því hafa tekið góðum framförum hvað vöxt snertir, meðan það dvaldi í hv. Nd. Fjvn. leggur eigi til, að gerðar sjeu neinar mikilsverðar breytingar á frv. eins og það er nú, eigi af því, að hún sje ánægð með það, heldur af hinu, að hún vill eigi stofna til neins stríðs á milli deildanna út af frv. Jeg ætla mjer eigi að tala langt mál um brtt. nefndarinnar. Það er gerð ítarleg grein fyrir þeim á þskj. 583, og jeg hefi enga löngun til að endurtaka það, sem í nál. stendur.

Það er þá fyrst brtt. nefndarinnar um dýrtíðaruppbót til núverandi ráðherra fyrir árið 1922, 1500 kr. til hvors, samtals 3000 kr. Jeg býst við, að öllum hv. deildarmönnum sje það ljóst, að laun ráðherranna, eins og nú hagar, hrökkva hvergi til þeirra útgjalda, sem þeir þurfa að hafa. Og þó að nefndin leggi eigi til meiri fjárhæð, þá er það eigi af því, að hún álíti, að hún hrökkvi til, heldur af því, að hún treystir sjer eigi til að fara hærra vegna fjárhagsástæðna landsins.

Þá er næst brtt. um það, að Hallur Hallsson, tannlæknisnemi, fái 1500 kr. styrk til þess að ljúka tannlækninganámi erlendis. Till. um þetta var borin fram við fjárlagafrv. í Nd., en var feld með jöfnum atkv. Nefndinni virðist rjett að styrkja þennan mann og telur víst, að ef hv. Ed. felst á það, þá muni það ganga í gegnum Nd.

Þá er það styrkur til Guðnýjar Jónsson, á þskj. 556, til fullnaðarnáms í hjúkrunarfræði. Stúlka þessi hefir áður dvalið í New York við hjúkrunarnám og auk þess stundað hjúkrun hjer heima, en er nú í Lundúnum. Hefir hún hin bestu meðmæli þaðan, og það sem er fágætt um Íslendinga þar, að hún hefir fengið þar styrk til náms úr opinberum sjóði, um £ 100, og virðist í því felast eigi lítil viðurkenning fyrir dugnað og hæfileika.

Í Nd. var settur inn í frv. styrkur til Gísla sýslumanns Sveinssonar, vegna kostnaðar við sjúkravist í útlöndum. Fjvn. leggur til, að einnig verði tekinn upp styrkur til Jóns Jónssonar læknis í sama skyni. Jón læknir hefir verið heilsuveill undanfarin ár, svo hann varð að hætta læknisstörfum. Er honum nauðsyn á að leita sjer lækninga í útlöndum, en hefir ekki haft ráð á því sakir efnaskorts. Nefndin þykist því ekki geta gert upp á milli þessara manna og fer fram á 1500 kr. til Jóns, en vill lækka styrkinn til Gísla Sveinssonar um 1000 krónur.

Þá vill nefndin veita kvennaskólanum í Reykjavík 3000 kr. styrk í tvennu lagi, 2000 kr. viðbótarstyrk, en 1000 kr. til áhaldakaupa. Hefir það reynst skólanum ókleift að endunýja áhöld sín og bæta við sig, og hefir því komist í töluverðar skuldir af þessum ástæðum.

Ef skólanum verður eigi veittur sjerstakur styrkur til að greiða skuld þessa, þá verður hann að taka af því fje, sem ríkissjóður leggur honum til rekstrar, en sem hann má með engu móti missa. Því hefir nefndin viljað veita þennan styrk í þetta sinn. Þá er brtt. um það að veita til þjóðmenjasafnsins, vegna forngripakaupa 1922, 1000 kr. Fyrir þessu er gerð grein í nál., og þarf jeg því ekki að fjölyrða um það. Þá hefir nefndin lagt til að fella niður ábyrgðarheimild stjórnarinnar til að ábyrgjast lán fyrir Konráð Stefánsson til niðursuðu. Nefndinni er ekki kunnugt um, að fyrirtæki þetta sje reist á svo tryggum grundvelli, að það sje forsvaranlegt fyrir ríkisstjórnina að ganga í ábyrgð fyrir það. Aðrar brtt. nefndarinnar eru svo smávægilegar, að jeg fer ekkert út í þær.

Þá skal jeg taka fram viðvíkjandi 1. lið 3. gr., um styrk til bifreiðaferða austur á Suðurlandsundirlendið frá Reykjavík, að nefndin gengur út frá því, að styrkurinn verði aðallega notaður til ferða á vorin og haustin, þegar fólk er að fara austur í atvinnuleit og fer svo til Reykjavíkur aftur, en að með því sjeu ekki styrktar skemtiferðir, í sambandi við þetta er rjett að minnast á brtt. 2. þm. Rang. (GGuðf), um að hækka styrk þennan úr 2000 kr. upp í 3000 kr. Nefndin hefir óbundin atkvæði um hana, en meiri hluti hennar vill láta standa við það, sem komið er, til þess að sjá, hvernig þetta reynist, og það því fremur, sem ætla má, að ef styrkurinn verður hærri, þá verði honum dreift á allan tímann, sem hægt er að fara með bíla austur, en nefndin vill halda sjer við vorið og haustið.

Þá eru hjer allmargar brtt. frá ýmsum hv. þm. Þær eru öllu þyngri á metunum en brtt. fjvn., en jeg ætla ekki að fara út í þær fyr en flm. þeirra hafa talað fyrir þeim.