07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

139. mál, fjáraukalög 1923

Halldór Steinsson:

Jeg á eina litla brtt. á þskj. 577, sem fer fram á að veita til Stykkishólmsbryggju 8 þús. kr. Hreppsnefnd Stykkishólmshrepps hefir í brjefi, dagsettu 10. febr. þ. á., sent Alþingi erindi um þetta. Þar, sem brjef þetta skýrir ítarlega frá öllum málavöxtum, vil jeg leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp. Það hljóðar þannig:

„Frostaveturinn 1917–18 varð hafskipabryggjan hjer í Stykkishólmi fyrir skemdum af ís. Gereyðilögðust þá 2/3 hlutar bryggjuhöfuðsins. Þótt ekki stæði meira eftir en hluti, hefir verið hægt að nota það við upp- og útskipun vara hingað til. Sökum geysidýrleika á efni og vinnu til viðgerðarinnar, hefir hreppsnefndinni ekki þótt kleift að framkvæma viðgerð á bryggjunni. En nú er svo komið, að ekki er hægt að fresta viðgerðinni lengur. Því verði eigi bráðlega að gert, fellur bryggjuhöfuðið niður, og verður bryggjan þá algerlega ónothæf, og er það stórkostlegt óhagræði fyrir Stykkishólm og nærliggjandi hjeruð, því að eins og kunnugt er, er Stykkishólmshöfn eina örugga höfnin við Breiðafjörð til umskipunar á inn- og útfluttum vörum í millilandaskipin.

Í samráði við stjórnarráð Íslands var herra vitamálastjóri Th. Krabbe fenginn hingað vestur til Stykkishólms á síðastliðnu hausti til að skoða hafskipabryggjuna og gera áætlun um kostnað við endurbyggingu hennar. Hefir hann nú lokið við það verk, og nemur áætlunarupphæðin 175 þús. krónum

Þar sem hreppsnefndin álítur slíkt mannvirki kauptúninu ofvaxið, hefir hún ákveðið, ef nægilegt fje fæst, að endurbæta og styrkja það, sem eftir stendur af bryggjuhöfðinu. Hefir nefndin borið þetta áform sitt undir álit vitamálstjóra hr. Th. Krabbe, og hefir hann tjáð sig því samþykkan og að það muni vera hið eina, er nú sje framkvæmanlegt fjárhagsins vegna. Til þess að viðgerðin verði framkvæmd á þennan hátt, verður eigi komist af með minni upphæð en 27–30 þús. krónur. En þar sem fjárhagur Stykkishólmshrepps er nú mjög þröngur og enn standa ógreiddar um 21 þús. krónur af upphaflegum byggingarkostnaði bryggjunnar, þá sjer nefndin sjer ekki annað fært en leita til hins háa Alþingis með styrk, er nemi eigi minna en hlutum ofanritaðrar upphæðar.

Hreppsnefndin leyfir sjer því hjer með virðingarfylst að fara þess á leit við hið háa Alþingi, að það veiti styrk, alt að 12 þús. krónum, til viðgerðar á hafskipabryggjunni í Stykkishólmi. Ef svo færi, að hið háa Alþingi sæi sjer ekki fært að verða við þessari málaleitun vorri, þá er ekki annað fyrirsjáanlegt en hafskipabryggjan falli niður innan skamms tíma, þar sem fjárhagslegar ástæður hreppsins eru þannig, að hreppsnefndin álítur ókleift að standast kostnað þennan af eigin rammleik.“

Þetta, sem hjer er sagt, er nákvæmlega satt og rjett. Hefi jeg engu öðru við það að bæta en því, að bryggjan hefir hrörnað síðan brjefið var skrifað, og ef ekki er undinn bráður bugur að viðgerðinni, mun hún hrynja. Jeg hefi borið málið undir vitamálastjórann, og álit hans er í samræmi við það, sem hreppsnefndin hefir eftir honum. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp brjef hans:

„Síðastliðið haust athugaði jeg, eftir beiðni hafnarnefndarinnar, bryggjuna í Stykkishólmi og hefi síðan gert áætlun um nýja bryggju þar.

Gamla bryggjan, sem var illa gerð í fyrstu, er nú alveg að fara, og þar sem hún að vissu leyti stendur óheppilega, hefi jeg gert ráð fyrir að breyta um legu, þegar hún verður endurbygð. En þar sem traust og varanleg bryggja mun kosta milli 150 og 200 þús. kr., sem mun vera frágangssök að hugsa um eins og ástæður eru, mun sem stendur engin leið önnur vera fær en bæta gömlu bryggjuna, þannig að hún geti staðið nokkur ár enn; til þess að Stykkishólmur verði ekki alveg án bryggju úr þessu, tel jeg því nauðsynlegt, að viðgerðin fari fram á þessu sumri, og vil jeg, eftir atvikum, mæla með, að styrkur verði veittur til þess.“

Þó að hreppsnefndin fari fram á 12 þúsund krónur, og viðgerðin komi til með að kosta 27–30 þús. kr., hefi jeg þó ekki talið fært að fara fram á meira en 8 þús. kr. Treysti jeg því, að háttv. deild taki vel í það, þar sem það er ekki 1/3 hluti kostnaðar, sem þó er venjulegt að veita, ef veitt er fje úr ríkissjóði til bryggjugerða.