07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jónas Jónsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt. Er þá fyrst II. brtt. á þskj. 556, um að fjárveiting til Kristjáns Jónassonar í Borgarnesi falli niður. Þetta er ekki mikil upphæð, en hefir þó þvælst fyrir þinginu í vetur. Maður þessi er, eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, gestgjafi í Borgarnesi, og gerir skaðabótakröfur til þingsins fyrir að hafa hýst taugaveikissjúkling árið 1921. Telur Kristján þessi, að sjúklingur þessi hafi bakað sjer sóttkvíun um tíma og töluvert fjártjón. Út af þessu hafa nokkrir menn í Mýrasýslu borið fram ósk um nokkurskonar aukasjúkraskýli hjá Kristjáni þessum, og bera það jafnframt fram, að hvergi sje hægt að fá gistingu fyrir veika menn í Borgarnesi, nema hjá gestgjafa þessum. En þetta er ekki rjett, eftir því, sem einn háttv. deildarmaður, sem mjög er kunnugur þessu máli, hefir skýrt mjer frá. Það mætti því æra óstöðugan, ef ganga ætti inn á þá braut að bæta öllum þann skaða. er þeir biðu af sóttvarnarráðstöfunum, og ef fara á að bæta einum upp slíkt tjón, þá mætti búast við fleirum á eftir. Jeg lít því svo á, að rjett sje að fella styrk þennan niður.

Þá vil jeg aðeins minnast á styrkinn til bílaferðanna austur. Jeg lít svo á, að hann sje nauðsynlegur, því það er hagur fyrir alla, sem ferðast með bílum, er fara þessa leið, að taxtinn sje sem lægstur í bílum með föstum áætlunum, því að þá má búast við, að öll sæti lækki. Þannig hefir uppfynding mannsins í Hafnarfirði, sem nefnd hefir verið hjer áður, sett niður hvert bílsæti milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur úr kr. 2.50 niður í 1 kr. Hefir Reykjavík því, og þau hjeruð, sem hjer eru nærlendis, án efa sparað við það nokkra tugi þúsunda. Jeg hygg því, að þó að styrkur þessi væri hækkaður um 1000 kr., þá myndi það margborga sig fyrir almenning í lækkuðum fargjöldum.

Þá á jeg lítilsháttar brtt., um 500 kr. styrk til Hjálmars Lárussonar hins oddhaga. Maður þessi er mörgum kunnur fyrir hagleik sinn, og þarf því ekki að fara mörgum orðum um styrkbeiðni þessa. Hann er einnig fátækur barnamaður, náfrændi Bólu-Hjálmars og sagður líkur honum að mörgu leyti. Ætti það út af fyrir sig ekki að spilla fyrir styrkveitingu þessari. En sjerstaklega vil jeg taka það fram, að hann fjekk ekkert af styrk þeim, sem ætlaður er skáldum og listamönnum, og fyrir því hefi jeg borið fram brtt. þessa.

Þá hefi jeg eftir beiðni Austfirðinga borið fram brtt. um fjárveitingu til tveggja símalína, frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar og frá Egilsstöðum að Brekku í Fljótsdal.

Um fjárveitingu til þessara símalína má segja það, að þeim er meira í hóf stilt en með fjárveitingar til annara lína. Það mun nú þykja undarlegt samræmi í því, að jeg skuli bera fram símalínur þessar, þar sem jeg, sem fjárveitinganefndarmaður, hefi lagt til, að allar símalagningar næsta ár yrðu feldar niður. En því er þar til að svara, að háttv. þingdeild hefir litið öðruvísi á málið og slegið því föstu, að spara ekkert í þessum efnum. Er því ekkert undarlegt, þó að jeg beri fram þær símalínur, sem miklu eru nauðsynlegri en margar þeirra, sem búið er að samþykkja, eins og t. d. línan frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar. En símalínan til Brekku verður án efa að teljast ein af þeim nauðsynlegustu línum, sem þarf að leggja, því þarna er allfjölment hjerað, sem á mjög langt til síma, auk þess, sem þarna er læknissetur og sækja verður lækni þangað langar leiðir að. Er því með öllu ómögulegt fyrir þá, sem greitt hafa atkvæði með símalínum annarsstaðar, að vera á móti línu þessari.

Um Loðmundarfjarðarlínuna er það að segja, að hún er vitanlega mjög nauðsynleg, en þó tel jeg, að hún eigi samt að. koma síðar en Brekkulínan. Þarna er þó afarafskekt hjerað, en fámennara en hitt, sem á að njóta Brekkulínunnar.

Þá hefir það verið haft á orði, að línur þessar yrðu svo dýrar, af því að efnið í þær þyrfti að flytja að vetrinum. En þessu mótmæli jeg algerlega. Því að efnið í Brekkusímann má flytja eftir Fagradalsbrautinni og svo eftir Lagarfljóti á ísum. Þó nú að línur þessar verði samþyktar, þá yrði það máske dauður bókstafur fyrst um sinn. En þá væri fengin viðurkenning fyrir því, að þær ættu ekki að koma seinna en t. d. línurnar í Skagafjarðar- og Snæfellsnessýslum.