07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Jeg sje hjer eina brtt. á þskj. 556, frá háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), um utanfararstyrk til yfirlæknisins á Vífilsstöðum til að sækja fund berklalækna í Kristjaníu. Í sambandi við þetta vildi jeg taka það fram, að vegna margra umsókna um utanfararstyrki, sem þingi og stjórn berast, hefir komið fram till. í háttv. Nd. um, að stjórninni yrði veitt 7500 kr. upphæð, til þess að geta tekið eitthvað af beiðnum þessum til greina. Jeg gat þess í Nd. að jeg byggist við, að það myndu koma margar brtt. um slíka styrki, sem og varð. Teldi jeg heppilegra, ef háttv. fjvn. Ed. vildi koma með einhverja slíka upphæð, sem stjórnin mætti verja til slíkra hluta. Það er oft ilt, að geta ekki orðið við beiðnum um utan fararstyrki, því að margt af því er mjög gagnlegt. Jeg get t. d. nefnt, að okkur er boðið að senda mann á samkomu í Kaupmannahöfn út af áfengismálinu, en engar slíkar beiðnir getum við tekið til greina. Það hafa borist ótal margar umsóknir, t. d. frá biskupi, til að sækja biskupaþing í Noregi, formanni vjelstjóraskólans, vitamálastjóranum, manni til að sækja náttúrufræðingafund etc., eitthvað um 12–15. Vitanlega yrði aldrei hægt að taka þær allar til greina, en aðeins þær allra nauðsynlegustu. Ef stjórnin fær ekki upphæðina, þá er ekkert fyrir hana að gera annað en neita öllum um alt.